Í gærdag frumsýndi Þjóðleikhúsið í Kúlunni leikgerð Stefáns Halls Stefánssonar á Litla prinsinum eftir Antoine de Saint-Exupéry undir stjórn Stefáns Halls. Íslensk börn munu einkum þekkja þetta verk úr barnatíma Sjónvarpsins þar sem er víst unnið með stök atriði úr sögunni en þá þætti hef ég ekki séð.
Sagan er heimskunn enda bæði falleg og áhrifamikil. Höfundurinn var franskur flugmaður og sagan kom fyrst út í heimalandi hans 1943, árið áður en hann hvarf í könnunarflugi yfir Miðjarðarhafi. Síðan hefur sagan verið gefin út í um 145 milljónum eintaka á um 270 tungumálum eftir því sem segir í leikskrá. Sjálf las ég þessa sögu fyrst um tvítugt og sjálfsagt þess vegna finnst mér hún frekar vera bók fyrir ungt fólk en börn. Samræður unga flugmannsins og litla drengsins sem hann hittir óvænt þegar flugvél hans brotlendir í Sahara eyðimörkinni eru djúpar og heimspekilegar og hætt við að þær fari fyrir ofan garð og neðan hjá krökkum. Þar að auki endar sagan mjög sorglega og ég velti fyrir mér á leiðinni í leikhús hvort ég ætti að búa minn sex ára undir það. Á móti kemur að sagan er heillandi og fyndin og margt í henni skilja börn mætavel, til dæmis erfitt samband prinsins og rósarinnar einu á stjörnunni hans og samningaviðræður prinsins og refsins sem hann kynnist í eyðimörkinni.
Vandamálið með endinn leysir Stefán Hallur með því að búa til hentugan ramma utan um söguna. Þar erum við heima hjá flugmanninum (Snorri Engilbertsson) sex árum eftir ævintýrið í Sahara. Hann fær í heimsókn frænku sína (Edda Arnljótsdóttir) og smástelpu með henni (Þórunn Arna Kristjánsdóttir) sem er heldur fúl yfir heimsókninni. Til að létta andrúmsloftið fer flugmaðurinn að segja þeim söguna af brotlendingunni og eins og nærri má geta laðast stúlkan undir eins inn í ævintýrið og tekur að sér hlutverk litla prinsins, færir bara slaufuna úr hárinu niður í hálsmálið – því litli prinsinn er með rauða þverslaufu eins og allir vita. Það mildar sársaukafullan endinn að vita að þó að litli prinsinn sé farinn er litla stúlkan ennþá með okkur.
Frásögnin rennur vel og það vafðist ekki fyrir Snorra og Eddu að bregða sér í líki allra þeirra sem prinsinn hittir á leið sinni til jarðarinnar, drykkjumannsins, ljósamannsins, monthanans, landfræðingsins og svo framvegis. Í leikskrá er enginn skrifaður fyrir tígrisdýrinu sem hefur þá væntanlega verið ekta. Dásamleg var senan með konunginum sem Edda lék, og samtal prinsins við refinn sem var í höndum Snorra kom beinlínis út á manni tárum (eins og fleira). Þórunn Arna er eitt tilfinningabúnt eins og vera ber og náði alla leið inn að hjarta manns með fallegri túlkun sinni.
Stefán Hallur hefur tekið þá ákvörðun að nota þýðingu Þórarins Björnssonar skólameistara frá 1961 og vera ekkert að nútímavæða hana – hér eru engin koppípeist, læk eða tíst. Eftir á að hyggja er þetta frábær lausn. Það verður svo fullkomlega eðlilegt að prins frá annarri stjörnu tali einmitt hálfrar aldar gamla akureyrsku og þéri ókunnugar persónur sem hann hittir.
Umbúnaður sýningarinnar höfðar vel til barna. Bæði er mikið drasl heima hjá flugmanninum (Högni Sigurþórsson á heiðurinn af sviðinu) og svo er flugvélin sem hrapar í Sahara gríðarlega hávær og frá henni leggur reyk og mikla blossa sem bæði skelfa og skemmta þegar flugmaðurinn er að eiga við hana bilaða. Búningar Leilu Arge eru fínir og lýsing Magnúsar Arnars Sigurðarsonar beinlínis göldrótt.
„Fannst þér gaman?“ spurði annar gestur fámálan fylgdarsvein minn. „Já,“ svaraði hann. „Mjög gaman eða soldið gaman?“ var spurt. „MJÖG gaman,“ svaraði hann með sjaldgæfri áherslu.