eftir Laufeyju Haraldsdóttur
Úr Tímariti Máls og menningar, 3. hefti 2020
„Að sjá dauðan hjört bendir til þess að dreymandinn valdi vini sínum sorg og sársauka án þess að hafa ætlað sér það“
(Draumráðningar, Símon Jón Jóhannsson)
Í heilt ár byrjuðu allir virkir morgnar eins. Ég tók fjarkann niðrí Mjódd til að skipta yfir í þristinn í átt að Hlemmi og þegar ég kom í Mjóddina beið Hjörtur eftir mér. Slánalegur og freknóttur jafnaldri minn með ógreitt dökkt hár, í of stórri úlpu. Við þekktumst ekki vel en vorum þó nógu góðir kunningjar til að það væri ekki vandræðalegt að sitja hlið við hlið í strætó, tvö lítil busagrey á leiðinni í skólann. Vagninn var ekki einu sinni kominn í næsta póstnúmer þegar Hjörtur dró djúpt andann og sagði:
Mig dreymdi sjúklega skrítinn draum í nótt!
Og ég svaraði undantekningarlaust:
Það er öllum sama hvað annað fólk dreymir.
Sömu orðaskipti á hverjum einasta morgni, jafn áreiðanleg og rúnstykkin með túnfisksalati sem ég fékk mér þegar ég mætti í skólann. Svo sátum við, eða stóðum ef vagninn var fullur, alla leið að Tjörninni og Hjörtur sagði mér af draumförum sínum.
Mig dreymdi að ég væri í butt-lift tíma með bókmenntaþema. Kennarinn hét Hnappþjór Kinnar Laxn-ass. Það áttu allir að gera hnébeygjur með þungar rússneskar skáldsögur á herðunum en ég var látinn nota Umskiptin eftir Kafka í staðin því ég er svo mikill aumingi.
Ég fór út við Fríkirkjuveg til að mæta í Kvennó og Hjörtur hélt áfram eina stoppistöð, að MR. Við hittumst ekki oft fyrir utan daglegu strætóferðirnar, vorum ekki beint vinir. Ég hafði verið með tvíburasystur hans í bekk í Seljaskóla, áður en þau skiptu um skóla, og við vorum ekki einu sinni vinkonur, en Hjörtur heilsaði mér samt alltaf þegar hann sá mig. Sem sýnir hversu almennilegur hann var. Hann hafði svo þægilega og róandi nærveru.
Mig dreymdi að ég væri í austurlöndum fjær, á einhverskonar markaði. Fullt af flottum teppum og ilmandi kryddum í taupokum, raðað eins og á nammibar. Ég held að þú hafir verið þar líka. Svo breyttist draumurinn og mig dreymdi að ég væri afi minn. Ekki eins og í Ladda-laginu, heldur var ég afi Bjössi, móðurafi minn. Ég lifði heilan dag af hans lífi á Hrafnistu, það var fokking hellað.
Þó að ég hafi látið eins og ég nennti ekki að hlusta þá lífguðu frásagnirnar upp á tilveruna í morgunsárið. Hjört dreymdi oftast eitthvað fyndið eða áhugavert. Svo var líka huggun í því að fá að skyggnast inn í hugarheim annarrar manneskju sem var í sömu sporum og ég. Að reyna að fóta sig í nýju umhverfi. Að læra að verða fullorðinn.
Mig dreymdi að ég væri klappstýra, eins og í Bring It On-myndinni, ég horfði á hana í gær með systur minni. Ég var samt ekki ég, ég var svona stelpa sem er með hátt ljóst tagl og rosa lítil og sæt. Af því ég var svona lítil þá var ég þessi sem þau köstuðu hátt, hátt upp í loft. En ég vissi allan tímann í draumnum að þau myndu missa mig í jörðina. Vissi að liðsfélagar mínir myndu bregðast mér og höfuðkúpan myndi lenda á jörðinni og mölvast. Allt yrðir rautt. Samt leyfði ég þeim að kasta mér upp í loft, aftur og aftur, þessu fólki sem ég vissi að myndi bregðast mér.
Um páskaleytið fór mig að gruna að Hjörtur færi ekki alltaf út á næstu stoppistöð. Það var oft greinilegt að hann var ekki með neinar bækur í töskunni, stundum var hann ekki einu sinni með töskuna með sér. En ég ákvað að vera ekkert að spyrja, það kom mér ekki við hvort hann væri að skrópa. Svo hætti hann alveg að birtast í Mjóddinni á morgnana.
Mig dreymdi mjög skrítið í nótt.
Það er öllum sama hvað annað fólk dreymir.
Mig dreymdi haustið. Ekki næsta haust heldur, þú veist, konseftið haust. Að það hausti. Þetta er svo magnað dæmi. Öll laufin sem eru búin að rembast allt sumarið við að ljóstillífa eru bara orðin gul og meika ekki lengur að reyna. Falla dauð til jarðar. En okkur finnst eins og þau séu friðsæl. Þú getur ekki neitað því að þau virðast sátt við að kúra saman í hrúgu á gangstéttinni.
Ég er löngu komin með bílpróf núna og tek aldrei strætó lengur. En ég fór til Berlínar um daginn og í fyrsta sinn sem ég tók eina af heiðgulu U-Bahn-lestum borgarinnar settist slánalegur unglingsdrengur við hliðina á mér og andvarpaði, alveg eins og Hjörtur. Grey þýski unglingurinn skildi ekki neitt í útlensku konunni sem sat og hágrenjaði við hliðina á honum í U-Bahninum. Það sem eftir var heimsóknarinnar leigði ég mér bara hjól til að komast á milli staða.
Hjörtur fyrirfór sér haustið sem ég byrjaði í öðrum bekk. Mér var sagt það eins og það væri slúður, í fyrirpartýi fyrir busaballið. Ég fékk aldrei að vita hvernig hann gerði það. Það stóð ekkert um það í minningargreinunum og mér fannst ég ekki eiga rétt á að mæta í jarðarförina. Mér fannst heldur ekki smekklegt að hringja í gamla bekkjarsystur til að spyrja nákvæmlega hvaða aðferð tvíburabróðir hennar hefði notað til að stytta sér aldur. Ég sé mömmu þeirra stundum í Krónunni, hún virðist kannast við mig en heilsar mér ekki, eins og hann hefði gert. Þess vegna vissi ég ekki hvernig hann drap sig. Ekki fyrr en mig dreymdi Hjört í nótt.
En það er auðvitað öllum sama hvað annað fólk dreymir.