Oddný Eir Ævarsdóttir. Jarðnæði.

Bjartur, 2011.

Úr Tímariti Máls og menningar 4. hefti 2012

JarðnæðiÞað er eins og að bera í bakkafullan læk að ljúka lofsorði á síðustu bók Oddnýjar Eirar Ævarsdóttur, Jarðnæði. Bókin er auðvitað bæði tilnefnd og verðlaunuð, tilnefnd til íslensku bókmenntaverðlaunanna og hlaut Fjöruverðlaunin 2011, en þar að auki hefur hún fengið mikla umfjöllun gagnrýnenda. Er þá ekki um að ræða hið alræmda stjörnuregn, þó að sannarlega hafi bókin hlotið þær nokkrar, heldur hafa ýmsir bókmenntafræðingar, gagnrýnendur, blaðamenn og bloggarar kafað dýpra, greint og gruflað í texta, bók og sögu. [1]

Kannski einhverjir hafi tekið til sín ádrepu Soffíu Auðar Birgisdóttur í dómi hennar um Heim til míns hjarta eftir Oddnýju Eiri: „Það er kaldhæðnislegt að þær bókmenntir sem hafa jafnvel fátt annað upp á að bjóða en formúlukenndan „söguþráð“ fá vitrænni umræðu og betri dóma en verk skapandi höfunda sem leyfa sér að gera tilraunir með form og frásagnaraðferð og auðga með því flóru íslenskra bókmennta.“ [2]

Þetta á ekki við um Jarðnæði sem þegar hefur vakið mikla athygli og á eflaust eftir að verða hinum og þessum fræðingum umfjöllunarefni. Í því máli sem sem hér fer á eftir er ætlunin að bæta í þann sjóð og draga fram nokkra einkennandi og eftirtektarverða þætti við þessa ágætu bók.

Staður tilrauna og uppgötvana

Hér er viðeigandi, sem þó er iðulega varað við, að dæma innihald bókar af kápunni. Hin sérlega fallega og vel hannaða kápa Ragnars Helga Ólafssonar fangar að sumu leyti efni bókarinnar og anda hennar. Maður og kona sitja við lestur, samanfléttuð í flóknu neti sem tengir þau öðru fólki, fegurð og anda.

Í Jarðnæði má lesa um konu sem leitar að samastað í fleiri en einni merkingu. Í upphafi bókar er sögumaðurinn Oddný flutt heim til Íslands, nýskilin og vantar stað að búa á. Leit hennar að húsnæði fylgir henni í gegnum bókina, hún ferðast landshorna á milli og drepur víða niður fæti en festir hvergi rætur. Hún fæst sjálf við skriftir og veltir fyrir sér öðrum rithöfundum og þá sérstaklega heimkynnum þeirra, sem oft eru orðin að safni eða minjastað. Í upphafi nýs sambands er sögumanni umhugað um að finna jafnvægi í samskiptum við ástmanninn, húsnæðisleitin rennur saman við þrána eftir lífi á nýjum forsendum. Húsnæðið fer að standa fyrir hugmynd um tengsl við fjölskylduna, vini, umhverfi og að eiga sér rætur.

Enda þótt þessi leit að samastað í tilverunni sé í grunninn frumspekileg og snerti innstu lögmál heimspekinnar þá eru aðstæður sögumanns öðrum þræði eitthvað sem sérhver lesandi kannast við hjá sjálfum sér: „Við gerum lítið annað en að skoða fasteignavefinn. Það er þreytandi að fara inn til svo margra í huganum, raða bókunum sínum upp við svo marga ólíka veggi, reyna að átta sig á því hvort þær komist fyrir. Gera sér andrýmið í hugarlund.“ (102)

Hið háfleyga blandast sífellt hinu hversdagslega, innilegur og látlaus stíll frásagnarinnar myndar aðgengi fyrir lesandann og gerir það að verkum að pælingar sem kvikna af lestri á verkum djúphugulla heimspekinga virka hvorki tyrfnar né framandi. Aðferðir og teikningar fornleifafræðinga renna saman við söguna á áreynslulausan hátt, og vekja forvitni lesanda sem er þeim með öllu ókunnugur. Þessi aðferð er sannarlega ekki öllum rithöfundum gefin, fræðilegar vísanir sem þessar í texta geta auðveldlega orðið tilgerðarlegar og tilgangur þeirra ekki auðskiljanlegur.

Það þarf hins vegar ekki að skera á tengsl við lesendur þó að höfundur vísi í eitthvað sem er handan almennrar grunnþekkingar. Í Jarðnæði notar Oddný Eir sér það sem hún hefur lesið, ekki til að skapa fjarlægð við lesendur heldur einmitt til að tengjast þeim betur og bæta einhverju við hversdagslega umræðu.

Vísanir í textanum eru raunar af ýmsu tagi, allt frá Snoop Dogg (142–143) til Aristótelesar. Hér kalla til dæmis orð þess síðarnefnda um að hugsunin eigi heima í algeru næði á hugleiðingar sögumanns um fjölskyldulífið: „Ég held að heimilið eigi ekki að vera staður sem maður þarf að yfirgefa vilji maður upplifa eitthvað í samhljómi við innsta kjarna sinn. Heim ilið ætti að vera staður tilrauna og uppgötvana, staður næðis til að þroska það eðlasta í hverri veru í fínstillingu við þrá og leit hinna.“ (81) Húsnæðisþörf sögumanns verður að ósk um jarðnæði, í sátt og samlyndi við sig og aðra.

Næðið er hið eftirsótta markmið vegferðar sögumanns. Hún þráir næði til að hugsa og til að skrifa en um leið vill hún lifa í samfélagi við aðra, með tilheyrandi upplausn og flækjum. Vegferð hennar er leit að rými sem inniheldur hvort tveggja, næði og nánd. Þegar í upphafi bókarinnar gerir bróðir hennar Ugli, fornleifafræðingur og ein af lykilpersónum bókarinnar, henni það ljóst að þessi draumur gangi ekki upp: „Það er gott að skipta liði og skiptast á en maður verður líka að vera alltaf til staðar fyrir hinn. Þetta er svo snúið. Hvernig í ósköpunum getur maður fundið sér sitt rými eða verið í næði við slíkar aðstæður?“ (31)

Það er þessi þversögn sem er drifkraftur bókarinnar, sögumaður gefst ekki upp á því að reyna að yfirvinna hana. Þversögnin hefur raunar áður verið kynnt, í formi krossgátu. Sögumaður og ástmaður hennar, fuglafræðingurinn Fugli, búa saman til krossgátu og hún er ákveðin í því að útkoman eigi að vera eitt orð, kannski jarðnæði. Hún reynir að útskýra fyrir honum skilning sinn á merkingu orðsins en Fugla finnst orðið gröf eiga betur við, þar sem þar fyrst fái hún algert næði. (16)

Bróðir hennar og ástmaður birtast þannig báðir sem efasemdarmenn um þessa hugmynd hennar um næði, en þrátt fyrir það fylgja þeir henni til loka. Í draumkenndum lokum bókarinnar skríður hún ofan í gröf og festir þar svefn, en þeir bjarga henni upp úr gröfinni og leggja drög að framtíðarhúsnæði þeirra: Þeir sögðu að við skyldum byggja okkur bæ í anda fjórtándu aldarinnar, inni á öræfum, með gufubaði og prentsmiðju þar sem prentaðar verða árstíðaminningar og líka endurfædd almanök.

Þeir sögðu að við skyldum búa með fjölskyldu og góðum vinum á sjálfbæran spíralhátt, við nýjustu tækni í rótgróinni vináttu og í tengslum við jörðina en með dyrnar opnar út á haf. (209)

Mennirnir í lífi hennar tala skyndilega einum rómi og virðast hafa einn vilja. Lokakaflinn tengir saman kyrrð grafarinnar og drauminn um rými sem sameinar næði og nánd.

Frásagnarformgerðir

Á kili bókarinnar stendur orðið dagbók, ekki sem undirtitill bókarinnar heldur frekar stimpill um innihald hennar. Oddný Eir segist sjálf vilja reyna á mörk skáldskaparins [3] og hefur hér sem í fyrri bókum sínum, Opnun kryppunnar (2004) og Heim til míns hjarta (2009) nöfn og aðstæður úr eigin lífi til grundvallar. Án þess að kryfja hér frekar hugtökin ævisaga, skáldsaga og skáldævisaga í samhengi við Jarðnæði verður að játa að það er ákveðið átak við lesturinn að setja ekki raunveruleg nöfn og andlit á sögupersónur bókarinnar, í þorpinu Íslandi þekkja flestir flesta og á stundum fannst mér þetta truflandi, fór að líða eins og pervers gluggagægi sem sæi þó bara hálfa söguna. Hér birtist kannski hinn íslenski heimóttarskapur, þetta myndi ekki trufla mann við lestur bókar eftir erlendan höfund.

Dagbókarformið er vandmeðfarinn miðill, ef til vill vegna þess að orð sem rituð eru í dagbók eru fyrst og fremst ætluð ritaranum sjálfum. Þetta hefur áhrif á miðilinn og skapar honum sérstöðu. Í sögulegu samhengi eru dagbækur sem heimildir lausar við flúr og stílæfingar, veita sjaldan innsýn í persónulegar tilfinningar skrifarans. Sagnfræðingar sem hafa rannsakað dagbækur Íslendinga frá 19. öld hafa skilgreint dagbókina sem heimild sem er laus við ástríður. [4] Eins og sögumaður Jarðnæðis segir um dagbók látinnar frænku: „Engar tilfinningar nema á milli lína.“ (191)

Á meðan sendibréf voru iðulega einlæg og gátu verið full af ástríðum snerust dagbækur ekki um tilfinningar og vangaveltur um tilveruna, heldur eru menn að fylgjast með breytileika lífsins – íslenskir bændur að skrifa um veðrið, breytingar sem varða skepnur og búskaparhætti. En dagbók Oddnýjar Eirar er ekki einkamiðill af þessu tagi, enda þótt hvergi sé lesandinn ávarpaður upplifði ég Jarðnæði sem samtal við lesendur – eða jafnvel spjall. Þrátt fyrir ýmsar vangaveltur um einkalíf, sambúðarform og tengsl við fjölskyldu og vini þá er sögumaður líka staddur á vígvelli samfélagsorðræðunnar og hugleiðir framtíð Íslands í víðu samhengi:

Fólkið úr bænum lítur á landið undir bústaðnum sem lóð en ekki jörð. Heildarsýnin á landið hefur tapast. Það þarf að endurnýja tengslin við náttúruna, tengslin við framtíðina. Í þessu framlengda millibilsástandi og óvissu vantar framtíðarsýn. Þá er ég að tala um Ísland sem heild. Og mig sem hluta af þeirri heild … (112)

Þannig tvinnast hið persónulega og samfélagslega ítrekað saman í hugleiðingum sögumanns og kannski er aldrei hægt að setja skörp skil þar á milli. Dagbókin verður því einlæg en aldrei einkamál sögumanns. Að því leyti má segja að Oddný Eir brjóti upp frásagnarhefðina með þessari dagbók um breytileika tilfinningalífsins og samhengi menningarsögunnar.

Dagbókin Jarðnæði hefst á Lúsíumessu og hver kafli er kenndur við þann dag sem hann er skrifaður. Lesandi getur auðveldlega staðsett á almanakinu Þorláksmessu, sumarsólstöður, jafnvel kyndilmessu – en Brígídarmessa gæti verið honum framandi. Þegar líður á söguna koma í ljós vörður í hringrás árstíðanna sem eru lesandanum óskiljanlegar; dna-dagur og sósumessa.

Þrátt fyrir línulaga frásögn dagbókarformsins er með þessum ókunnuglegu merkidögum sköpuð óvissa í huga lesandans um eðlilegt flæði tímans. Þar með hætta dagarnir að hafa almenna merkingu tengda sögu, hefðum og samfélagi, en í staðinn skapast persónulegur skilningur á þeim sem færir lesanda nær sögumanni. Hið línulega flæði dagatalsins er tálsýn, hér fer tíminn í hring eins og hugur sögumanns (33).

„Endurfædd almanök“ eru hluti af lokadraumsýn sögumanns og tímatalið er henni hugleikið. Hún veltir fyrir sér merkingu dagatalsins þar sem hver dagur heitir eitthvað:

Íslenska almanakið virðist að hluta bundið fjárbúskap, þó stendur til dæmis ekki fengitími í því eða sauðburður. Svo eru nokkrir gamlir kaþólskir helgidagar og kristnir og kannski einstaka heiðin helgi sem hefur flotið með. Það hljóta að vera til lærðar greinar um tilurð allra helgidaga heimsins. Og auðvitað ætti maður að búa sér til sitt eigið almanak og hafa til hliðsjónar. Fyrsti kossinn, fyrsta ástarsorgin, fyrsta samviskubitið, fyrsta sjálfstæðisyfirlýsingin, fyrsta heila hugsunin. Eða hvernig myndi maður byggja slíkt dagatal upp? (44)

Dagatal sameinar bæði línulegt eðli tímans og hringrás hans. Merkidagarnir skilgreina árið en þeir koma aftur næsta ár með nýjum upplifunum, Jónsmessur áranna mynda hringrás sem endurspegla hringrás árstíðanna, tilfinninga og nándar, umhverfis, lífs og dauða. Stundum er hringrásin í Jarðnæði auðlesin og skýr, en einnig ósjálfráð og umlykjandi, eins og árstíðir í raunveruleikanum, allt í einu er komið vor.

Með sama hætti og merkidagarnir skilgreina tímann þá flakkar sögumaður á milli staða sem skilgreina rýmið fyrir henni. Hún nemur sífellt staðar á stöðum sem helgaðir eru rithöfundum, líkt og hún sé að máta sig við þann hóp sem hún tilheyrir. Hún veltir vöngum yfir húsum skálda og listamanna og þá sérstaklega hvers vegna eingöngu hús karlmanna séu opnuð upp á gátt sem söfn (198). Það tengist svo aftur vangaveltum um rými konunnar. Amma sögumanns bendir henni á að fjósið hafi verið rými konunnar, þar hafi verið mest næði (115). [5]

Þegar sögumaður fer til Englands, á slóðir rithöfundarins Williams Wordsworth, þá er það systir hans Dorothy sem verður henni innblástur. Dorothy þessi hélt dagbók sem sögumanni finnst „ótrúlega spennandi þótt hún sé eiginlega ekki um neitt“ (121). Eftir lestur dagbókarinnar finnur hún sig knúna til að heimsækja hús systkinanna, „grafast fyrir um sambúð þeirra, vita hvort af húsakynnunum mætti ráða hvers eðlis nánd þeirra var“ (122). Hugsanir sögumanns um samband hennar við bróðurinn Ugla eru rauður þráður í gegnum frásögnina og það er nánd Wordsworthsystkinanna sem heillar hana frekar en höfundarverk skáldsins:

Og systirin skrifar í dagbókina sína að þau hafi legið saman í móanum systkinin og hlustað á andardrátt hvort annars og á vatnið í loftinu og að hann hafi sagst ímynda sér að svona yrði það í gröfinni, í algjöru næði að hlusta á kyrrð jarðarinnar í nánd við sína nánustu. (129)

Sögumaður hefur flókna afstöðu til nándar milli systkina og efast um að þessi hugmynd gangi upp, Dorothy hafi verið of háð bróður sínum og of háð nándinni, „þá er kannski stutt í þunglyndið“ (130).

Ferðir sögumanns um merkistaði skálda tengist leitinni að samastað. Fyrir rithöfund eins og hana er heimilið er ekki bara staður til að búa á, heldur vinnustofa og staður andrýmis. Það er önnur merking orðsins jarðnæði, ekki eingöngu staður til að búa á heldur staður til að hugsa á og þroskast á. Þriðja merkingin er svo hin samfélagslega sem sögumaður víkur ítrekað að, tenging mannfólksins við landið og við jörðina, ábyrgð þess gagnvart náttúrunni og heildinni.

Þessi leikur að orðinu jarðnæði dregur fram tvöfalt eðli bókarinnar. Annars vegar hugmyndaauðgi og frjó og skapandi tengsl við hefð og sögu en hins vegar léttleikandi meðferð Oddnýjar Eirar á tungumálinu, orðunum sem eru efniviður hennar. Megi hún smíða úr þeim sem oftast.

Æsa Guðrún Bjarnadóttir

 

Tilvísanir

  1. Auk þeirra sem vísað er sérstaklega til hér á eftir má nefna þrjár vandaðar umfjallanir: Auður Aðalsteinsdóttir. „Uppdráttur að samfélagi“, Spássían 13. desember 2011. Sótt 17. október 2012 á http://spassian.is/greinar/ 2011/12/uppdrattur-ad-samfelagi/; Björn Þór Vilhjálmsson. „Ritdómur um Jarðnæði“, pistill fluttur í Víðsjá 15. desember 2011. Sótt 13. október 2012 á http://www.ruv.is/ frett/bokmenntir/ritdomur-um-jardnaedi; Guðrún Lára Pétursdóttir „Milli nándar og næðis“, vefsíðan Druslubækur og doðrantar 20. desember 2011. Sótt 13. október 2012 á http://bokvit.blogspot.com/2011/12/millinandar- og-nis.html.
  2. Soffía Auður Birgisdóttir. „Fínstillum ó, næmiskerfið“, Tímarit Máls og menningar (maí 2010): 124–129, hér bls. 127.
  3. Davíð K. Gestsson. „Jarðnæði“, viðtal við Oddnýju Eiri Ævarsdóttur. Vefsíðan Sögueyjan Ísland. Sótt 17. október 2012 á http:// www.sagenhaftes-island.is/bok-manadarins/ nr/3285.
  4. Sjá til dæmis: Sigurður Gylfi Magnússon, Menntun, ást og sorg: Einsögurannsókn á íslensku sveitasamfélagi 19. og 20. aldar. Sagnfræðirannsóknir 13 (Reykjavík: Sögufélag, 1997).
  5. Hér má sérstaklega benda á umfjöllun Gunnþórunnar Guðmundsdóttur um Jarðnæði þar sem hún leggur út frá klassískri umræðu Virginu Woolf um sérherbergið: „Jarðnæði“ pistill á vefsíðu Borgarbókasafnsins Bókmenntir.is í desember 2011. Sótt 16. október 2012 á http://www.bokmenntir.is/desktopdefault.aspx/tabid-3409/5648_read- 29253/.