Sögurnar af Múnkhásen barón hafa skemmt fólki alveg síðan á 18. öld þegar hann sjálfur var á dögum, fyrst í hans eigin frásögn, svo í endursögnum, misjafnlega trúum frumsögunum, í bókum ýmissa höfunda og loks í útvarpi og kvikmyndum. Það er ákaflega vel til fundið af Gaflaraleikhúsinu að rifja upp þessar sögur í fjölskyldusýningu sinni og makalaust hve vel tekst að láta stórkarlalegar ýkjur barónsins gera sig á einföldu sviði. Þar á leikstjórinn Ágústa Skúladóttir stóran þátt þótt ekki trúi ég að leikhópurinn hafi legið á liði sínu.
Ég sá ekki þessa vinsælu sýningu fyrr en í gær, vandræðalega skömmu áður en hún fer af fjölunum, en fékk þá staðfest að í þeim fínu umsögnum sem hún fékk ný var fátt ofsagt. Þetta er fjörug og hugkvæm sýning með fyndnum texta, prýðilega vel leikin, með ágætum söngtextum og skemmtilegum lögum. Lagið sem Sara Blandon syngur í hlutverki Vúlkanosar eldfjallaguðs var til dæmis alveg rosalega skemmtilegt og allt það atriði alveg frábært. Tónlistin er skrifuð á þá Ármann Guðmundsson, Eggert Hilmarsson, Þorgeir Tryggvason og leikhópinn.
Leikritið er eftir Sævar Sigurgeirsson (og þá er nú kominn áberandi ljótur hálfvitasvipur á stykkið!) sem beitir því gamalkunna bragði að kljúfa aðalpersónuna í tvennt. Annars vegar höfum við Múnkásen gamla (Gunnar Helgason, illþekkjanlegur í fínu gervi) sem býr með konu sinni (Virginia Gillard) heima í Þýskalandi og segir frægðarsögur af sér við hvert tækifæri. Hins vegar höfum við Múnkhásen unga (Magnús Guðmundsson) sem lætur sögurnar lifna á sviðinu. Snemma leiks bjargar hann Gúrkuprinsessunni (Ágústa Eva Erlendsdóttir) sem verður svo hrifin af honum að hún fylgir honum dulbúin sem skjaldsveinn þegar hann er sendur til Rússlands til að berjast með Rússum við Tyrki. Hún á ósjaldan eftir að launa honum lífgjöfina með snarræði sínu og hugdirfsku en hann áttar sig ekki á því hvað leynist inni í einkennisbúningnum fyrr en hún flettir honum sjálf frá sér undir lokin. Þessi tregða barónsins og skilningsleysi verður efni í mörg ansi fyndin atriði fyrir fullorðna leikhúsgesti!
Þau skötuhjúin lenda í gríðarlegum ævintýrum eins og menn kannast við. Múnkhásen kastar exinni sinni svo hátt upp í loftið að hún festist í tunglinu og klifrar upp eftir baunagrasi til að sækja hana. Leiðin til jarðar aftur er alveg einstaklega lygileg eins og menn muna. Síðasta spottann dettur hann og alla leið niður í undirheima en þangað lenti skjaldsveinninn hans einmitt svolítið fyrr í sögunni þegar hann datt ofan í djúpa holu. Saman bjargast parið upp á yfirborð jarðar á hreint ótrúlegan hátt, að sjálfsögðu.
Eins og yfirnáttúrlegir hæfileikar barónsins séu ekki nóg á hann ennþá hæfileikaríkari aðstoðarmenn – auk skjaldsveinsins. Þar er til dæmis rosalegur spretthlaupari (Gunnar B. Guðmundsson) sem hleypur frá Rússlandi til Vínarborgar og aftur til baka á klukkutíma, Hlustandi sem heyrir grasið gróa og flugu reka við í fjarlægu landi (Huld Óskarsdóttir) og geysimikill risi sem líka er gríðarlega sterkur (Gríma Kristjánsdóttir). Eins og öll önnur gervi voru þessi hugvitsamlega unnin og skemmtileg og allir búningarnir óteljandi voru líka verulega vel heppnaðir. Það eru Axel Hallkell Jóhannesson, Kristín B. Thors og fleiri sem bera ábyrgð á útliti sýningarinnar.
Það verður gaman að sjá hvað Gaflarar gera næst.