Ég ímynda mér að allt nútímafólk eigi sér sitt uppáhaldstæki. Mér þykir til dæmis ákaflega vænt um þvottavélina mína – enda hef ég gaman af að þvo þvott. Sjálfsagt er munur á körlum og konum í þessu eins og öðru, kannski halda fleiri konur en karlar upp á eldhústæki en karlarnir frekar upp á garðsláttuvélina eða borvélina sína. Það er heldur ekki nein venjuleg eldhúshrærivél sem Guðjón (Kristján Ingimarsson) elskar í verkinu Af ástum manns og hrærivélar sem var frumsýnt í Kassanum í gærkvöldi. Hún er miklu nær því að vera steypuhrærivél en vél til að hræra deig í brauð og kökur. Og það er heldur ekki alveg eðlilegt hvað hann á erfitt með að gera upp á milli vélarinnar og konu sinnar, Söru (Ólafía Hrönn Jónsdóttir), sem af tilviljun kom inn í líf hans sama dag og vélin.
Sara og Guðjón eru trúðar og fjöllistamenn og í leikverkinu eru þau að búa til eins konar veruleikaþætti fyrir sjónvarp um það sem þau bardúsa heima hjá sér auk þess sem þau eru að æfa atriði fyrir væntanlegar fjölleikasýningar. Meðan þau æfa ýmis listbrögð eins og að grípa diska og vínglös sem Sara kastar (fast) til Guðjóns (sem er óheyrilega lipur að grípa), færa til diska og glös á borðfæribandi, dansa og leika sér að stórum boltum o.fl. o.fl. tala þau um ýmislegt, segja okkur frá fyrstu kynnum sínum, fortíð sinni og nútíð eða skiptast á orðum um viðburði dagsins. Flest er það ósköp hversdagslegt, skondið og skemmtilegt, en við og við grillir í harminn undir niðri. Eins og í sönnum trúðleik eru hér báðar grímurnar uppi, bæði sú skælbrosandi og sú með skeifuna.
Kristján og Ólafía Hrönn eru dásamlegt par, svo ólík en spila svo innilega vel saman. Þau mynda afar fyndnar andstæður á sviði, hann þvengmjór og liðugur eins og beinlaus brúða en þó feiknasterkur og kraftmikill; hún þéttvaxin og þunglamalegri í hreyfingum en hélt þó ævinlega í við hann í dansi og sprelli. Þau eru bæði fyndin en þar sem Kristján er fyrst og fremst fyndinn í hreyfingum er Ólafía Hrönn jafnvíg á hvort tveggja, skoplegar hreyfingar og svipbrigði og tal. Hún getur gert einföldustu setningar hryllilega fyndnar á einhvern ólýsanlegan hátt og þegar hæst stendur hlægt mann um leið og hún grætir mann með raunum hversdagsins.
Ilmur Stefánsdóttir hefur skemmt sér vel við að raða heimilstækjum af ótrúlega margvíslegu tagi á sviðið og klæða Söru og Guðjón í búninga við hæfi. Davíð Þór Jónsson fer fram úr sjálfum sér í vali á fjöbreyttri músík sem hæfir hjónunum til skiptis og saman. Utan um allt þetta heldur Valur Freyr Einarsson leikstjóri sem líka samdi verkið ásamt Kristjáni, Ólafíu Hrönn og Ilmi.
Það er fjör í Kassanum. Þeir sem elska trúðleik í hæsta gæðaflokki ættu ekki að missa af þessu.