Fyrsta leikrit Kristínar Marju Baldursdóttur, Ferjan, var frumsýnt á litla sviði Borgarleikhússins í gærkvöldi undir stjórn nöfnu hennar, Kristínar Eysteinsdóttur, nýráðins leikhússtjóra Leikfélags Reykjavíkur. Þar fjallar höfundur af harðri gagnrýni um samfélagsmálefni líðandi stundar, ekki síst jafnréttisbaráttu kynjanna.
Þegar verkið hefst er hópur Íslendinga að stíga um borð í heldur hrörlega ferju af því að það er eini farkosturinn sem völ er á frá útlöndum til Íslands. Á Íslandi er rosalegt eldgos að leggja allt í auðn, ekki er hægt að fljúga og öll skárri skip þarf að nota undir erlenda ferðamenn sem vilja sigla norður til að sjá gosið. Sexmenningarnir sem gera sér dallinn að góðu hafa hver um sig sína brýnu ástæðu til að fara heim, segja þau, en þeim ástæðum kynnumst við misvel í verkinu. Satt að segja er þetta fremur stefnulaust lið og ekki eru áhafnarmeðlimirnir tveir sem við kynnumst miklu stefnufastari. Aldrei fáum við að sjá yfirstjórn skipsins, skipstjóra eða stýrimenn.
Kristínarnar tvær hafa ekki dulið í viðtölum og umfjöllun um verkið að það sé táknrænt enda blasir það við. Vinsælt er að tákna lífið með sjóferð og þjóðarskútan er algengt tákn um íslenskt samfélag. Nöfn farþeganna vísa líka ótvírætt í íslenskt landslag og náttúru. Þessi þjóðarskúta er ekkert glæsiskip og það fer ekki sérlega vel um farþegana um borð. Konurnar húka í kojum og bedda í gluggalausri kompu neðst í skipinu, karlarnir í svefnsal ofar, væntanlega töluvert skárri vistarveru, auk þess sem þeir hafa barinn til ráðstöfunar þar sem þeir syngja og spila og skemmta sér meðan konurnar þrefa og þrasa undir þiljum. Þegar í ljós kemur að á skipinu standa tómar mun skárri vistarverur en þær sem sexmenningarnir gista í gera þeir ekkert í málinu en halda bara áfram að kvarta. Ekkert gerist sögulegt nema að eftir hlé hafa konurnar tekið yfir barinn en nota hann svosem ekki til neins. Er þetta ekki óþægilega sönn og sannfærandi mynd af Íslandi í dag?
Farþegarnir eru fulltrúar ólíkra hópa. Klara er vísindamaður, hálærð og skörp, getur verið meinleg og illa fyndin og Katla Margrét Þorgeirsdóttir lék hana af dillandi kátínu. Múli (Guðjón Davíð Karlsson) er lögfræðingur og vinnur hjá hinu opinbera; hann og kona hans, Hekla (Birgitta Birgisdóttir), hafa verið í Berlín og þar vildi hann helst vera áfram en hún vill komast heim til barnanna og heima hefur hún líka vinnu sem hún vill sinna – auk þess sem hún er ljóðskáld með sína þriðju bók í vinnslu. Það var miklu meira líf í hlutverki Heklu en Múla og Birgitta lék það af fjöri og kom vel til skila innri spennu í persónunni. Arna er dularfyllri persóna, drykkfelld miðaldra kona, einfeldningsleg við fyrstu kynni en ekki öll þar sem hún er séð. Elva Ósk Ólafsdóttir lék hana af öryggi og skilningi og varð að mínu viti forvitnilegasta persóna verksins. Fulltrúi ungu kynslóðarinnar var Birta, ráðvillt og partýglöð stelpa sem Hildur Berglind Arndal gaf sannfærandi dýpt og vídd. Fulltrúi útrásarlistamanna var heimsfrægi popparinn Brimir sem Halldór Gylfason fór létt með.
Farþegarnir hafa mest samband við einn áhafnarmeðlim, Jan, sem Hilmar Guðjónsson lék. Jan er talsvert ólíkindatól en ekki þó hálft eins mikil ráðgáta og kerlingin Esja (Anna Kristín Arngrímsdóttir) sem ráðskast með farþegana, einkum konurnar, eins og frek og ósanngjörn ráðskona á barnaheimili.
Leikritið er afar vel skrifað, sem kemur ekki á óvart hjá þessum höfundi, samtölin renna áfram, fyndin, beitt og afhjúpandi. Þó að ekkert „gerist“ annað en þref og þras fram og aftur sem ekki leiðir til neins nema endurtekninga er afskaplega gaman að hlusta á það enda var augljóst að leikararnir skemmtu sér vel. Það var heldur ekki leiðinlegt að leika á skröltandi hripinu sem Vytautas Narbutas hafði töfrað fram á litla sviðinu af sinni alkunnu snilld. Búningar Stefaníu Adolfsdóttur voru vel hugsaðir. Tónlist Halls Ingólfssonar skapaði þunga undiröldu sem gaf til kynna hvernig bæri að skilja leikverkið og lýsing Þórðar Orra Péturssonar setti punktinn yfir i-ið.
Það er full ástæða til að óska Kristínu Eysteinsdóttur til hamingju með embætti leikhússtjóra en ekki er því að leyna að það er missir að henni ef hún hverfur þar með úr stól leikstjórans. Fáir koma í hennar stað þar.