Leikmyndin í sýningunni Hvítt sem frumsýnd var í dag í Hafnarborg á vegum Gaflaraleikhússins er undurfalleg: Hvítt tjald og lítil hvít fuglahús á misháum stólpum á hvítu gólfi með hvítt baktjald. Hvíti liturinn er ekki bara snjóhvítur heldur líka kremhvítur, rjómahvítur og hrímhvítur í bland svo úr verður hvít litadýrð. Það er Catherine Wheels leikhópurinn sem á heiðurinn af sviðinu og annarri umgerð sýningarinnar, höfundar eru Andy Manley og Ian Cameron en leikstjórinn er okkar eigin Gunnar Helgason.
Þeim Bómull (Virginia Gillard) og Krumpu (María Pálsdóttir) er líka í mun að halda þessum hreinleika, og þegar þær rekast á aðskotahluti í öðrum lit við að sinna fuglahúsunum er þeim umsvifalaust hent í ruslið. Þær grípa hvít egg sem falla af himni í hvítu svunturnar sínar og koma þeim snyrtilega fyrir í litlu hvítu húsunum. Allt er eins og það á að vera. Þangað til rautt egg fellur af himni – og gefur frá sér öðruvísi hljóð en hin eggin. Krumpa er ákveðin: Rauða afstyrmið skal í ruslið. Bómull er ekki eins viss og um nóttina sækir hún rauða eggið í ruslafötuna og kemur því fallega fyrir í auðu húsi. Það verður örlagaríkt því við þetta verður litasprenging í litla hvíta heiminum …
Vafalaust hefur mikið vantað á að börnin í leikhúsinu áttuðu sig öll á þeim djúpu skilaboðum sem þetta verk sendir okkur en úr því geta uppaldendur sjálfsagt oft bætt þegar tilefni gefast. Og Aðalsteinn fjögurra ára (næstum fimm) var alveg hiklaus þegar hann var spurður hvort væri betra að hafa allt hvítt eða í litum. „Allir litir eru betri,“ sagði hann af sannfæringarkrafti. Kannski hélt hann að ég væri á öðru máli.
Sýningin er bæði falleg og skemmtileg og sá aragrúi barna sem fyllti salinn í Hafnarborg tók á móti henni fullur áhuga og athygli. Bara einu barni ofbauð hvað þetta ætlaði að vera langt og heimtaði að fá að fara út í miðju kafi (eftir tuttugu mínútur). Það fékk það. Aðalsteinn var mjög upptekinn af því á heimleiðinni hvernig litunum inni í fuglahúsunum hefði verið breytt úr hvítu í marga aðra liti. Hann stakk fyrst upp á því að einhver hefði skafið hvíta litinn burt og þá hefði annar litur verið undir. Svo sá hann að þetta gat illa staðist, það var ekkert hlé og enginn sást með sköfu. Þá datt honum í hug að þetta hefði verið gert vélrænt. Hefði þá vélin verið stillt þannig að þegar klukkan varð eitthvað ákveðið hefðu allir litirnir breyst. Þetta var rætt fram og aftur en svo dæsti hann og sagði: „En kannski voru þetta bara töfrar.“