Það er alltaf gaman að fá að kynnast nýjum eða nýlegum erlendum leikverkum eftir okkur áður ókunna höfunda. Ekki er verra þegar eins vel tekst til með uppsetninguna og hjá Charlotte Bøving í gærkvöldi þegar leikritið Sími látins manns var frumsýnt í Tjarnarbíó. Það verk er að vísu að verða tíu ára (frumsýnt í Washington DC 2007) en höfundurinn, Sarah Ruhl (fædd 1974), er afkastamikið leikskáld og af nógu að taka af bæði eldri verkum eftir hana og yngri ef þetta slær í gegn.
Sími látins manns er rómantísk kómedía með dökkum undirtónum í gróteskum og jafnvel svolítið absúrd stíl sem þýðendurnir, Ingólfur Eiríksson og Matthías Tryggvi Haraldsson, þýða vel og staðfæra af hugkvæmni. Nína (María Dalberg) er elskuleg og einkar hæversk ung kona og afskaplega ein í heiminum eins og við uppgötvum smám saman. Eiginlega á hún enga afmarkaða persónu sjálf heldur lagar sig að þörfum umhverfisins hverju sinni. Hún er að borða humarsúpu á kaffihúsi – þó að hún haldi því fram síðar í verkinu að hún sé grænmetisæta – þegar sími mannsins á næsta borði fer að hringja. Og hann hringir og hringir, hættir og byrjar aftur, og aftur, þangað til hún gengur yfir til mannsins og ýtir við honum. En þá hrapar hann niður af stólnum. Dauður. Þegar sími mannsins hringir næst svarar hún í hann í vandræðum sínum og þaðan verður ekki aftur snúið. Hún verður „síðasta manneskjan sem hitti Hjört“ (Kolbeinn Arnbjörnsson), vinnufélagi hans (hún grípur sjálf til þeirrar skýringar), kannski vinkona, jafnvel ástkona … Móðir Hjartar (Elva Ósk Ólafsdóttir) býður henni í mat þar sem hún hittir ekkjuna Hermíu (Halldóra Rut Baldursdóttir) og bróðurinn Bolla (Kolbeinn líka) og Nína flækir sig í eigin frásögn þangað til hún veit varla lengur hvenær hún segir satt og hvenær ekki. En vel að merkja eru allar lygar hennar snjóhvítar. Það sem hún vill er að sætta Hjört látinn við sína nánustu – og jafnvel fleiri – en málið er að Hjörtur var ekki sá sem Nína vill að hann hafi verið.
Þessi þráður minnir svolítið á bíómyndina While you were sleeping þar sem Sandra Bullock lék eftirminnilega týpu eins og Nínu. Þráðurinn sem Sarah Ruhl spinnur er þó hennar eigin og bæði frumlegur og skemmtilegur þó að leikritið sé óþarflega teygt þegar á líður. Charlotte Bøving hefur valið sýningunni leikstíl sem ýtir undir skopið en dregur þó ekki úr samúð okkar með Nínu og gleðinni yfir endinum þegar hún kemst í sína hamingjuhöfn eftir miklar og óvæntar hremmingar. María Dalberg er sannfærandi Nína og var fljót að vekja samúð okkar og væntumþykju. Fas hennar og hreyfingar voru merkileg blanda af dirfsku og feimnislegum klaufaskap sem var afskaplega sjarmerandi.
Í kringum Maríu dönsuðu svo hinir leikararnir sinn stílfærða dans. Halldóra Rut bjó eiginlega til þrjár gerólíkar persónur. Fyrst var ástkona Hjartar, viðsjárverða þokkadísin Karlotta, komin beint úr Hollywoodmynd frá sjötta áratuginum, síðan var hin taugaóstyrka Hermía ódrukkin og loks sú sama drukkin og hún var best. Kolbeinn Arnbjörnsson gerði líka skýrar andstæður úr bræðrunum Hirti og Bolla og var snöggur að því. Fljótlega vissi maður hvorum maður hélt með og var þá ekki sammála móðurinni sem auðvitað elskaði svarta sauðinn meira en þann hvíta. Senuþjófurinn í þessari fjörugu sýningu var svo Elva Ósk í hlutverki frú Gottlieb, algerlega óþekkjanleg!
Búningar og svið voru í höndum Fanneyjar Sizemore, einföld húsgögn, vel valinn fatnaður miðað við persónu hvers og eins, og baksvið á myndbandi til að kippa okkur milli staða í hvelli. Þvílíkt þing sem þessi stafrænu svið eru. Minnisstæður verður til dæmis steindi glugginn í jarðarfararsenunni. Tónlist Ragnhildar Gísladóttur lék svo skínandi vel á móti bæði mynd (regn á vegg og í tónum) og efni (popp í skál og potti frammi).
Sýningin er á Listahátíð í Reykjavík.