Mér finnst sennilegt að Edda Björg Eyjólfsdóttir hjá Edda Productions hafi ákveðið að setja upp verkið um Þórberg Þórðarson, sem frumsýnt var í Tjarnarbíó í gærkvöldi, vegna þess að hún vilji halda nafni þessa merka höfundar á lofti. Finnist jafnvel ekki nóg að gert til þess. Það er prýðileg ástæða, jafnvel göfug. Aldrei er of oft minnt á Þórberg.
En fyrir eldri áhorfendur er samkeppnin hörð við minninguna um aðra sýningu. Engum sem sá útfærslu Kjartans Ragnarssonar á Ofvitanum í Iðnó gleymist hún, jafnvel þótt nú séu hartnær fjörutíu ár síðan hún var frumsýnd. Þar á Jón Hjartarson stóran hlut að máli, svo unaðslega líkur var hann Þórbergi í rödd og á sviðinu, og ekki var Emil Guðmundsson síðri sem hinn ungi Þórbergur. Sýningin var líka vel heppnuð vegna þess hve hnitmiðuð hún var því þar var einblínt á einn kafla í lífi Þórbergs, tímann sem hann segir frá í Ofvitanum. Þeim kafla sleppir Edda Björg að mestu leyti í nýja verkinu sem hún samdi ásamt Sveini Ólafi Gunnarssyni og leikhópnum. Í staðinn freista þau þess að gefa yfirlit yfir nánast alla ævi Þórbergs, þó með nokkurri áherslu á ástkonur hans aðrar en Elskuna. Á hana er aðeins lauslega minnst en barnsmóðirin Sóla og eiginkonan Margrét fá meira rými. Að öðru leyti fer verkið svolítið út um víðan völl og reynir að gera aðeins of margt.
Leikverkið tekur útgangspunkt í frægu sjónvarpsviðtali Magnúsar Bjarnfreðssonar við Þórberg í þættinum Maður er nefndur frá 1970. Mikinn hluta leiktímans sitja þeir við lítið borð, Þórbergur (Friðrik Friðriksson) og Magnús (Sveinn Ólafur Gunnarsson) og spjalla saman um heima og geima. Inn á milli er skotið atriðum þar sem Magnús flytur texta eða syngur jafnvel texta eftir Þórberg, og við og við kemur Margrét (María Heba Þorkelsdóttir) og blandar sér í samræðurnar. Atriðin með Sólu (Birna Rún Eiríksdóttir) eru hins vegar ekki „á staðnum“, ef svo má segja, heldur í hugarheimi Þórbergs eins og sýnt er með smekklegri sviðslausn. Magnús er mátulega feiminn við hinn stóra mann í ágætri túlkun Sveins Ólafs. Texti Margrétar er sóttur í viðtalsbók Gylfa Gröndal við hana og er oft drepfyndinn, bæði af því að konan var stórkostlega skemmtileg andstæða manns síns en líka af því að María Heba lék hana af næmu skopskyni og skapaði heila persónu úr sínum fremur rýra efniviði. Búningurinn sem María Th. Ólafsdóttir klæddi hana í var henni líka góð stoð.
Textar Sólu eru úr bréfum Þórbergs til hennar, hún les einfaldlega búta úr þeim þannig að ekki reynir mikið á leik eða persónusköpun. Þeir textar verða þó sterkir og áleitnir og hjálpa handritshöfundum að draga fram þá stóru mynd sem mér virðist þeir vilja sýna af því hvað Þórbergur var rómantískur í hugsun þrátt fyrir skráningaráráttuna og af því hvað hann var ógæfusamur í ástum. Hann elskaði Sólu en fékk ekki að eiga hana af því að þau voru bæði örsnauð og mamma hennar trúði ekki á að nokkuð yrði úr Þórbergi. Gömul saga og sífellt ný. En Margrét trúði á hann, tók hann að sér og sá til þess að hann skrifaði. En hann elskaði hana ekki, segir leikverkið okkur, og kannski elskaði hún hann ekki heldur. Það tekst þó ekki að búa til mikla dramatík úr þessum aðstæðum, til þess hefði saga þeirra Þórbergs og Sólu þurft að verða miklum mun ítarlegri.
Friðrik er ekki valinn í hlutverk sitt vegna þess að hann minni á Þórberg á nokkurn hátt. Hann breytir heldur ekki röddinni, enda fer þeim nú fækkandi sem finnst fyndið að heyra mann líkja eftir Þórbergi. Með stuttum en athyglisverðum frávikum er Þórbergur Friðriks bara snyrtilega klæddur maður í viðtali. En hann fer afar vel með texta Þórbergs, ekki síst eintölin, og sýnir viðbrögð hans við áreiti á sannfærandi hátt. Og alltaf er gaman að horfa á hann á sviði.
Þetta er stilltari sýning og ekki eins leikræn og ég hafði búist við af þessu fólki á þessum stað. Ekki er auðvelt að segja hvort hún nær tilgangi sínum að kynna Þórberg fyrir nýjum kynslóðum þannig að þær leggist spenntar yfir verk hans, ég held að meiri leik og meira drama hefði þurft til þess, en víst er að hún spillir ekki fyrir.