Hvað á maður að segja um þessa stúlku? Þessa ungu leikkonu sem lætur Elly Vilhjálms lifna á nýja sviðinu í Borgarleikhúsinu, andlit, líkama og rödd? Þessa Katrínu Halldóru Sigurðardóttur? Líklega er best að segja bara HÚRRA!
Fyrir sýninguna Elly hefur Nýja sviði verið breytt í skemmtistað sem gæti minnt á dansstaðina í Reykjavík um 1960 þegar Elly var mesta aðdráttaraflið á landinu nema hér er ekkert dansgólf. Börkur Jónsson býr til afskaplega nýtilegt svið sem er fyrst og fremst hljómsveitarpallur en með hliðarrými vinstra megin. Hljómsveitin undir stjórn Sigurðar Guðmundssonar situr báðum megin við miðju en á miðjunni ríkir söngkonan og saga hennar. Í salarloftinu er smekkleg ljósaskreyting sem setur glæsilegan svip á salinn.
Í handriti fara þeir Ólafur Egill Egilsson og Gísli Örn Garðarsson þá einföldu og þénugu leið að segja sögu Ellyjar í stuttum atriðum frá því að hún kemur í prufu til Kristjáns Kristjánssonar 17 ára og til dauðadags. Elly er ekki aðeins með óvenjufagra og hljómmikla rödd og vítt raddsvið heldur er hún rosalega sæt og mikið piltagull. Við fylgjumst með henni heillast af Eyþóri Þorlákssyni gítarleikara (Hjörtur Jóhann Jónsson). Hann varð fyrsti eiginmaður hennar og með honum eignaðist hún dreng sem hún „gaf“ foreldrum sínum af því að líf dægurlagasöngkonunnar var ekki líf sem rúmaði barn. Þetta líf hentaði ekki heldur hjónabandi og samt reyndi hún aftur. Næstur var Jón Páll Bjarnason gítarleikari (Björn Stefánsson), með honum eignaðist hún dóttur en hann hvarf til útlanda til að freista gæfunnar. Og þegar Svavar Gestsson hótar að farga sér ef hún þýðist hann ekki skilur hún við Jón Pál og giftist Svavari. Þau eignuðust saman tvo drengi og fljótlega hætti Elly að syngja á dansleikjum. Í 22 ár þagði hún – eða því sem næst – en byrjaði aftur að syngja þegar þau hjón lentu í miklum fjárhagsvandræðum. Stundum geta fjárhagsvandræði verið til góðs. Hún hafði engu gleymt en því miður átti hún þá ekki langt eftir.
Einn var sá karlmaður sem var henni tryggur vinur alla tíð en bara vinur. Það var Ragnar Bjarnason (Björgvin Franz Gíslason) sem iðulega söng með henni. Hann er eins konar sögumaður okkar þetta minningakvöld og lá við uppþoti í salnum þegar Raggi labbaði sjálfur upp á svið í sýningarlok til að þakka fyrir sig og sína prinsessu.
En tónlistin er aðalatriðið. Alls eru yfir 40 lög flutt í sýningunni, flest af Katrínu Halldóru, og flest smekklega stytt því endurtekningar og viðlög eins og tíðkast í dægurlögum taka óþarflega langan tíma þegar verið er að segja sögu á sviðinu. Og Katrín Halldóra syngur þessi gamalkunnu lög þannig að tekur undir í hjartastrengjum. Þar mætti nefna mörg lög sem unaður var að heyra, til dæmis „Hvað er að?“, „Lítinn fugl“ og „Hve heitt ég elska þig“.
Katrín lifir sig fallega inn í persónu Ellyjar líka í leik og býr til sannfærandi persónu þótt talaður texti sé ekki viðamikill. Aðrir leikarar leika margar persónur hver og gera það vel. Björgvin Franz var skemmtilegur Raggi Bjarna, ágætur KK og ljómandi góður Vilhjálmur Vilhjálmsson; flutningur hans á „Söknuði“ snerti mig djúpt. Hjörtur Jóhann var ansi fínn Eyþór en síðri Svavar – en það var kannski alveg eins spýtukallinum Svavari að kenna og Hirti. Katla Margrét Þorgeirsdóttir lék öll kvenhlutverk önnur en Elly og fór afskaplega vel með þau. Og Björn Stefánsson var fínn Jón Páll. Sérstaklega þarf svo að hæla öllum leikurunum fyrir ótrúlegan hraða í búningaskiptum. Ég held að á stundum hafi Katrín beinlínis stöðvað tímann til að geta skipt um föt.
Búningarnir í sýningunni, ekki síst óteljandi búningar Ellyjar,eru kapítuli út af fyrir sig, allir afar viðeigandi. Þeir eru líka notaðir til að sýna hvernig tíminn líður, víðu pilsin þrengjast og pilsfaldarnir færast upp og niður á víxl. Búningur er líka notaður til að láta Elly horast undir það síðasta; það var merkilega áhrifamikið. Það er Stefanía Adolfsdóttir sem ber ábyrgð á þessum fjöskrúðugu búningum.
Sýningin um Elly Vilhjálms er úrvals kvöldskemmtun en hún er meira en það. Hún birtir okkur tíðaranda sem er býsna ólíkur því sem nú tíðkast og fyrst og fremst hyllir hún söngkonu sem átti ekki sinn líka hér á landi – og þótt víðar væri leitað.