Lokaatriðið á Sumartónleikum í Skálholti að þessu sinni var leikrænn flutningur á óperunni Dido & Aeneas eftir enska 17. aldar tónskáldið Henry Purcell. Samkvæmt inngangsorðum Benedikts Kristjánssonar, listræns stjórnanda Sumartónleikanna, var þetta í fyrsta skipti sem ópera var flutt í Skálholtskirkju og af því tilefni var kirkjubekkjum raðað eftir endilöngu kirkjuskipinu með breiðum gangvegi í miðju þar sem leikið var. Þetta varð vissulega ekki beinlínis hentugt rými en lausnir voru einfaldar, hugkvæmar og áhrifaríkar. Benedikt stjórnaði flutningnum sjálfur og söng einnig í kórnum ásamt Björk Níelsdóttur og Ólafi Frey Birkissyni. Barokkbandið Brák lék listilega vel með undir stjórn Halldórs Bjarka Arnarsonar.
Óperan fjallar um harmrænar ástir Dídó drottningar í Karþagó (María Konráðsdóttir) og hetjunnar Eneasar (Þórhallur Auður Helgason) en frá þeim segir (stuttlega) í Eneasarkviðu Virgils. Dídó er hrædd við ástina, finnst hún svipta sig valdi á eigin örlögum, valdi sem hún þarf að hafa sem þjóðhöfðingi; þessi persónulegi vandi var túlkaður í uppsetningunni með því að hún sat bundin við stól á sviðinu. Vinkonan Belinda (Herdís Anna Jónasdóttir) telur í hana kjark og hvetur hana til að giftast Eneasi og eftir nokkrar fortölur samþykkir hún það. Þá skerast yfirnáttúruleg öfl í leikinn undir stjórn illviljaðs galdrakarls (Sveinn Dúa Hjörleifsson); hann vill koma Dídó fyrir kattarnef og er viss um að hún deyi úr sorg ef Eneas yfirgefi hana. Andi úr undirheimum í barnslíki, yndislega sunginn af Kára Hilmarssyni, skipar Eneasi að sigla til Ítalíu, og þegar hann gerir sig líklegan til að hlýða því boði verður Dídó bæði sár og reið. Hann þrábiður hana um fyrirgefningu en hún neitar og vísar honum á bug. Að lokum syngur hún sitt undursamlega harmaljóð, „Þegar ég er lögð í gröf“ og hirðin syrgir drottningu sína.
Þrátt fyrir allan harminn er óperan líka skemmtileg áheyrnar. Þar munar mest um galdrakarlinn og gengi hans, en í þeim atriðum setti kórinn upp svarta nornahatta til að skilja pakkið frá hirð drottningar. Kórinn bjagaði líka raddir sínar í hlutverki galdragengisins og var ótrúlegt til dæmis hvað Herdís Anna gat afbakað sína fögru rödd í þeim atriðum! Búningar voru annars tímalausir, drottning var klædd smekklegum síðkjól en elskhugi hennar var strákslega búinn í hvíta skyrtu og buxur. Mest var lagt í búning og gervi galdrakarlsins sem var svartur frá hvirfli til ilja og svartur í augunum líka.
Tónlist Purcells er afskaplega áheyrileg og söngur og túlkun var hvort tveggja verulega aðlaðandi. Mest var spennan að heyra Maríu syngja hlutverk Dídóar og ég kveið því nokkuð að það yrði erfitt fyrir hana að bresta í söng eftir að hafa setið grafkyrr, bundin niður í stól, meðan kirkjan fylltist af fólki. En röddin reis í fyrstu aríunni, fögur og hrein og allar áhyggjur hurfu á braut. Lokaarían, hin ótrúlega When I am laid in earth, var frábærlega sungin og túlkuð svo að engin leið var að gráta ekki brigðular ástir með drottningunni.
Þetta var dýrleg stund sem lengi verður í minnum höfð og full ástæða til að hrósa Benedikt Kristjánssyni fyrir dirfskuna að setja upp óperu í Skálholtskirkju.
Silja Aðalsteinsdóttir