Katla Þórudóttir Njálsdóttir sýnir nú hjá Afturámóti í Háskólabíó verk sitt Gunnellu. Leikstjóri er Killian G.E. Briansson en leikmyndina hönnuðu Katla sjálf, Þóra Pétursdóttir og Sævar Guðmundsson. Leikmyndin styður vel við persónusköpun Gunnellu, form, litir og (ekki síst) myndirnar á veggnum. Ekki er þess getið í upplýsingum hver sér um lýsingu en hún fannst mér skipta máli og vera ágætlega leyst.

Gunnella (Katla Þ. Njálsdóttir) er komin á svið og farin að prjóna eftir uppskrift á æpaddinum þegar gestir ganga í salinn; hún er greinilega nýliði í prjónaskapnum og er ýmist hreykin eða gröm yfir árangrinum. Frekar virðast það vera dúkkuföt en barnaföt sem hún er að prjóna, enda kemur  á daginn hvort er áður en lýkur. Þegar dyrabjallan hringir spennist hún öll upp og ekki minnkar spennan þegar inn gengur glæsilegur ungur maður. Hann kynnir sig sem Friðrik (Aron Már Ólafsson), sendur af hinu opinbera, og smám saman kemur í ljós hvert erindi hans er á heimili Gunnellu. Hún hefur sótt um að fá að ættleiða barn og hann á að framkvæma á henni fyrsta mat. Til þess hefur hann staðlaðan spurningalista sem hann leggur nú fyrir Gunnellu og hún reynir að svara af bestu samvisku. Þetta er snjöll leið til að leyfa okkur til að kynnast Gunnellu, fá á eðlilegan hátt upplýsingar um bernsku hennar og uppeldisaðstæður, skólagöngu og líf hennar í nútímanum. Það kemur fram að hún er þýðandi, tæplega fertug, einkabarn foreldra sinna, faðirinn er látinn en móðirin á elliheimili.

Samtal Friðriks og Gunnellu er lengi vel býsna fyndið, aðallega vegna þess hvað þau eru gerólíkar manneskjur, hann formlegur og háttprúður, hún ofurstressuð og óróleg eftir því. Hláturinn glumdi líka í fullum áhorfendasalnum yfir klaufalegum tilburðum og svörum Gunnellu sem vill svo gjarnan koma vel fyrir í augum Friðriks. En þegar áhorfendur áttuðu sig á að saga Gunnellu var ekki fyndin í raun og veru, heyrðu og sáu myndina birtast af ákaflega óhamingjusamri og einangraðri konu sem hefur ekki hugmynd um hvernig hún á að tala við aðra manneskju, þá hljóðnaði hláturinn smám saman. Það var áhrifamikið að fylgjast með Kötlu afhjúpa persónu Gunnellu af innlifun og djúpum skilningi þannig að sagan sem sögð var varð mun stærri og harmrænni en orðin tjáðu. Aron Már var vel valinn mótleikari og fínn í hlutverki Friðriks; samband þeirra Gunnellu dýpkaði líka á aðlaðandi og sannfærandi hátt í þessu mikilvæga og erfiða samtali.

Skínandi góð leiksýning.

Silja Aðalsteinsdóttir