Það var mikið hrópað og hlegið í sal 1 í Háskólabíó þegar Afturámóti frumsýndi rapp/rokk-óperuna Þorskasögu eftir Hafstein Níelsson og Ólíver Þorsteinsson. Hafsteinn leikstýrir sjálfur en hefur Kristin Óla Haraldsson með sér sem dramatúrg.  Glitrandi hreisturbúninga hannaði Hulda Kristín Hauksdóttir, tónlistarstjóri er Kolbrún Óskarsdóttir, afar mínimalíska leikmynd hannaði Egle Sipaviciute en kórstjórn sá Hanna Ragnarsson um. Tilefni verksins er nærri því hálfrar aldar afmæli sigurs Íslendinga í þorskastríðunum en nú fá þorskarnir sjálfir að segja frá – eða öllu heldur gellurnar, dýrasti parturinn af þorskinum. Þær stíga á svið, fimm talsins, Ugga (Gúa Margrét Bjarnadóttir), Rák (Katla Þórudóttir Njálsdóttir), Sporða (Salka Gústafsdóttir), Lýsa (Sólbjört Sigurðardóttir) og Hrognhildur (Hildur Kaldalóns), og segja sögu baráttu Íslendinga fyrir yfirráðum yfir auðlindum sínum í söng, leik og dansi. Sérstaklega skemmtilegt var að sjá þær dansa þorskadans – því auðvitað erum við með þeim niðri á hafsbotni.

Verkið hefst á formála sögumanns sem fræðir okkur um þorskinn, útlit hans og siðvenjur. Þar væri upplagt að hafa skýringarmyndir á baktjaldi því ekki vita allir hvernig þessi dýrmæti fiskur lítur út óflakaður. Sögumaður kynnir gellurnar á svið og þær taka við keflinu, galvaskar, og skipta með sér frásögninni allt frá því að landhelgin var aðeins þrjár mílur. Baráttan upp í fjórar var fáránlega hörð miðað við það sem á eftir fór en auðvitað var það þessi uppsteyt smáþjóðar sem æsti Breta meira en allt annað. Þær rekja svo söguna: fjórar í tólf, tólf í fimmtíu, fimmtíu í tvö hundruð! Og það rennur upp fyrir manni að við höfum sinnt þessum merkilegu og sögulegu atburðum ótrúlega lítið í listrænu formi. Ég hef lesið bók Guðna Th Jóhannessonar, Stund milli stríða, og fannst hún æsispennandi og mér finnst sjálfsagt af Hafsteini og Ólíver að vinna þessa sýningu áfram og lengja hana, nægur er efniviðurinn.

Gellurnar bregða sér líka í mannleg gervi, leika breskan skipstjóra („myrkrahöfðingja hafsins“), ýmsa stjórnmálamenn íslenska (þar er Lúðvík Jósefsson, Sexý Lú, plássfrekastur) og erlenda, þær leika jafnvel skipin okkar, „Íslands einu von“, Þór, Óðin, Tý og Ægi, uns lokaorrustan vinnst … Eða var þetta svona einfalt? Hrognhildur maldar í móinn við hávær mótmæli vinkvenna sinna – en á ekki alveg eftir að segja sögu þorskanna sjálfra, hina einu og sönnu þorskasögu?

Textinn er fínn og oft reglulega fyndinn en því miður kafnaði hann óþarflega oft undir tónlistinni; það þyrfti að hljóðblanda betur. Takturinn varð líka ansi einhæfur þegar á leið þó að músíkin væri hress og skemmtileg. Fyrst og fremst er sýningin fjörug og sýnir góðan metnað og ástæða til að hvetja fólk til að drífa sig í Háskólabíó, hvort sem það hefur áhuga á þorskastríðum eða ekki.

Silja Aðalsteinsdóttir