Hallveig Rúnarsdóttir og Áslákur Ingvarsson endurlífga óperuna Símann eftir ítalsk-ameríska tónskáldið Gian Carlo Menotti (1922–2007) í Iðnó þessa viku. Þau sýndu hana á Óperudögum 2022 og ´23 þar sem hún naut mikilla vinsælda og í þessari viku er lag fyrir þá sem ekki sáu hana þá. Pálína Jónsdóttir leikstýrir, meðleikari á píanó er Hrönn Þráinsdóttir en hönnuður sýningarinnar er Friðþjófur Þorsteinsson.
Maður skilur eiginlega ekki hvernig Menotti gat séð fyrir sér snjallsímann fyrir sjötíu árum – síma þar sem þú getur talað við marga í einu og skrifað skilaboð jöfnum höndum – en líklega hefur óperan verið talsvert ólík núverandi mynd þegar hún var sýnd upprunalega þó að síminn hafi alltaf verið friðþjófur. Eitt er víst að í útgáfu þeirra Braga Valdimars Skúlasonar þýðanda, söngvaranna og leikstjórans er þetta eins og glænýtt verk, samið fyrir nýfullorðnu kynslóðina akkúrat þessa daga.
Lucy (Hallveig Rúnarsdóttir) er áhrifavaldur sem þráir ennþá meiri völd en hún hefur nú þegar, og til að öðlast þau verður hún að vera límd við símann sinn allar stundir dagsins, tilbúin til að taka við upplýsingum, aðdáun, stríðni og ótuktarskap frá vinum og fjandmönnum. Kærastinn Ben (Áslákur Ingvarsson) á við hana brýnt erindi en hann kemst ekki að, hún þarf fyrst að sinna símanum „bara augnablik“. Hún notar Ben til taka af sér myndir fyrir Instagram (sjá mynd) en þó að hún þegi kannski á meðan heyrir hún ekki hvað hann er að reyna að segja. Að lokum tekur hann til örþrifaráða …
Textinn er mettaður af slangri samtímans sem eldri borgarar átta sig kannski á en skilja auðvitað ekki; hann var fyndinn og beittur, brandararnir stundum skemmtilega dónalegir. Aðal verksins er tónlistin sem er áheyrileg og aðgengileg og alveg í samræmi við persónur leiksins, aríur Bens stilltar og hægar, aríur Lucyar hraðar og taka yfir allt tónsviðið! Það hentar breiðu raddsviði Hallveigar sérstaklega vel. Bæði syngja þau svo vel að unun er að heyra og leika líka af innlifun og húmor.
Sviðið er einfalt en þénugt, viðeigandi umhverfi fyrir konu sem alltaf er „í mynd“, búningur hennar er í sterkum lit og leynir engu. Sýningin tekur um þar bil hálftíma og hún er borin fram með súpu þannig að þetta hentar vel fyrir hádegishléið. Góða skemmtun!
Silja Aðalsteinsdóttir