Vissuð þið að Sidney Poitier var fyrsti svarti leikarinn sem fékk tilnefningu til Óskarsverðlauna? Það var árið 1958 fyrir hlutverk strokufanga í The Defiant Ones. Hann var líka fyrsti svarti leikarinn sem fékk Óskarsverðlaunin sjálf, það var fyrir ógleymanlegt hlutverk handlagna flakkarans sem kemur nunnunum til hjálpar í Lilies of the Field árið 1963. Heil 38 ár liðu þangað til næsti svarti leikarinn hlaut þessi verðlaun, það var Denzel Washington.
Ég rifja þetta upp með hjálp góðrar leikskrár vegna þess að nú er hægt að sjá leikrit í London um Sidney Poitier; það heitir Retrograde og er um þessar mundir sýnt í Apollo leikhúsinu við Shaftesbury Avenue. Verkið er eftir Ryan Calais Cameron og Amit Sharma leikstýrir. Leikritið takmarkar sig við einn dag í lífi leikarans, mikilvægan dag árið 1955 þegar hann kemur á skrifstofu lögmanns kvikmyndavers til að skrifa undir samning sem mun væntanlega breyta lífi hans. Höfundur handritsins að kvikmyndinni sem Sidney á að leika í hefur valið hann, enda hefur þessi myndarlegi ungi maður vakið æ meiri athygli kvikmyndaheimsins í hefðbundnum smáhlutverkum svartra leikara á næstu árum á undan. Handritshöfundurinn, nefndur Bobby í verkinu (Oliver Johnstone), og Sidney (Ivanno Jeremiah) halda að málið sé afgreitt, undirskriftin sé formsatriði, en reka sig fljótlega á að Parks lögmaður (Stanley Townsend) er ekki sama sinnis. Bjartsýnu félagarnir hafa gleymt að reikna vissan Joseph McCarthy inn í dæmið, sá vill ekki láta þennan svarta strák fá fínan samning án þess að fá eitthvað í staðinn. Þá er stóra spurningin: er hann tilbúinn til að láta samvisku sína og æru í staðinn fyrir frægð og mat handa börnum sínum?
Leikritið er vel skrifað í amerískum kvikmyndastíl – samtölin eru hröð og orðmörg, fyndin en líka markviss og beitt. Vel er valið í hlutverkin. Townsend er velsældarlegur, sjálfsöruggur og háll eins og áll í hlutverki lögmannsins sem er handviss um að hann hafi unga leikarann í hendi sér. Johnstone er mjúkur og sjarmerandi en líka auðmjúkur handritshöfundur á uppleið sem á allt sitt undir því að verkin hans komist í framleiðslu. Mestu skiptir auðvitað að Jeremiah sé sannfærandi í sínu hlutverki og það var hann. Í fyrstu fannst mér hann ekki nógu fríður – Sidney Poitier var auðvitað einhver fallegasti maður sem sögur fara af – en hann óx jafnt og þétt þegar hann fór að taka á, hætta að brosa hlýðinn að öllu sem lögmaðurinn sagði og fara að svara fyrir sig. Spennan var alveg áþreifanleg á köflum og lokasenan var óvænt og hrífandi.
Þetta er pólitískt verk sem tekur á valdbeitingu af ýmsu tagi, pólitískum ofsóknum valdhafa og kynþáttafordómum. Sem slíkt er það brýnt verk á okkar tímum. Leiksvið Frankies Bradshaw er vel hugsuð skrifstofa lögmannsins, björt og aðlaðandi þótt lítil sé. Það vakti athygli leikmyndasmiðsins félaga míns að skrifstofan var með lofti, ekki opin upp úr heldur lokuð, það gaf ýmislegt í skyn. Fatnaður hvítu mannanna var svartur og hvítur og hefðbundinn en Sidney skar sig úr í rauðbrúnum jakkafötum. Eitthvað fór í skapið á lögmanninum að hann skyldi vera með bindi og það varð honum tilefni til nokkuð meinlegs gríns. Það var heldur ekki í eina skiptið sem gamanið var grátt í verkinu.
Sýningin er 90 mínútur án hlés, gefandi kvöldstund með brýnu innihaldi. Hún gerist í fortíðinni en minnir hvað eftir annað, á sinn hátt, á samtíma okkar. Fortíðin er nefnilega ekki liðin tíð.
Silja Aðalsteinsdóttir