Þjóðleikhúsið frumsýndi á Litla sviði sínu í gær Blómin á þakinu, leikgerð Agnesar Wild á samnefndri sögu Ingibjargar Sigurðardóttur og Brians Pilkington. Agnes leikstýrir líka og hefur með sér félaga sína úr sviðslistahópnum Miðnætti, Eva Björg Harðardóttir hannar leikmynd, búninga og brúður og tónlistin er eftir Sigrúnu Harðardóttur. Lýsingu hannar Jóhann Bjarni Pálmason en um hljóðhönnun sér Aron Þór Arnarsson.
Þó að fjörutíu ár séu liðin er mér enn minnisstætt hvað ég varð hugfangin þegar ég skoðaði í fyrsta sinn teikningarnar hans Brians Pilkington að Blómunum á þakinu. Hugmyndin var auðvitað íðilsnjöll: að fylgja aldraðri konu úr sveit í borg og leyfa henni svo að flytja sveitina sína í borgina smám saman. En myndirnar voru töfrandi – mjúkir litirnir, dáleiðandi nákvæmnin í öllum smáatriðum þannig að allt kviknaði til lífs, kona, dýr og gróður. Þetta líf varð svo ennþá sprækara á Litla sviðinu enda leikmyndin bæði listilega gerð og ákaflega falleg. Við erum fyrst stödd fyrir utan klassískan burstabæ með blóm á þakinu og hittum Gunnjónu bónda (Edda Arnljótsdóttir) þar sem hún sinnir húsdýrum, ketti, kú og hænum. Svo fær hún héraðslækninn í heimsókn (Örn Árnason), hann hefur áhyggjur af gömlu konunni sem býr þarna ein. En hún er með síma, eins og hún bendir honum á, og þykist geta séð um sig. Svo fer þó að hún samþykkir að flytja í bæinn, selur jörðina sína og kaupir sér íbúð í blokk. Íbúðin er skemmtilega margföld þótt sviðið sé ekki stórt og sést bæði innan dyra og utan eins og nauðsynlegt er upp á atburðarásina.
Gunnjóna kynnist strax stráknum í íbúðinni á móti, Stefáni (Dagur Rafn Atlason), sem heillast af þessari sérkennilegu ömmu – því að Gunnjóna er engri annarri ömmu lík! Þegar hún er búin að prófa allt sem þeim dettur í hug að gera í borginni og henni fer að leiðast stingur Stefán upp á því að hún sæki hænurnar og geymi þær í barnaherberginu – hún á jú ekkert barn! Það finnst henni góð hugmynd og eftir það verður lífið eintómt ævintýri.
Edda þarf að leika töluvert upp fyrir sig en var Gunnjóna lifandi komin, rösk, væmnislaus og blátt áfram. Samleikur þeirra Dags var einlægur og ekta enda fór Dagur létt með að túlka svona hressan strák og bætti við hann skemmtilegum persónueinkennum. Örn Árnason lék svo fleiri hlutverk en ég kem með góðu móti tölu á, auk þess sem hann stjórnaði ýmsum dýrum af list. Í sýningunni gerast ótal leikhúsundur sem heilla unga gesti. Fjögurra ára félagi minn var hrifinn af öllu en kannski hrifnastur af því þegar hænurnar voru allt í einu fluttar inn!
Agnes Wild og félagar hennar í Miðnætti hafa fært leikhúsgestum margar minnisstæðar sýningar á undanförnum árum. Ég minni bara á Allra veðra von, Geim-mér-ei og hina yndislegu Á eigin fótum. Blómin á þakinu er enn einn gimsteinn í safnið.
Silja Aðalsteinsdóttir