Í Hannesarholti má um þessar mundir njóta einleiksins Napoleon í tónleikasalnum Hljóðbergi og jafnvel fylgir henni stundum vínsmökkun. Svo var þó ekki í gærkvöldi, þá var látið nægja að gefa okkur yfirlit yfir sögu „franskasta manns sögunnar“, eins og segir í kynningu, sem þó var ekki franskur heldur fæddur á Korsíku af ítölskum ættum. Textinn er eftir Gunnar S. Jóhannesson sem einnig stýrir leikaranum, hinum hálffranska Níels Thibaud Girerd.

Níels tekur sviðið með trompi strax í upphafi þegar hann arkar inn á frönskum 18. aldar nærklæðum (eða ég geri ráð fyrir því) sem Napoleon Bonaparte og fer að segja okkur sögu sína allt frá frumbernsku. Hann talar af ást og ástríðu um móður sína en hefur ekki falleg orð um föður sinn. Hann flyst til Frakklands og gerist hermaður, við fylgjumst með hetjulegri framgöngu hans í stórum styrjöldum og leið hans upp á valdatindinn. Mikið er gert úr einu síðasta þrepinu á þeirri leið, þegar hann þarf að ná veraldlegum valdsmönnum í París á sitt band til að verða keisari. Þá bregður Níels sér í gervi þeirra til skiptis við Napoleon sjálfan, jafnvel svo að við fáum ekta franskar tveggja manna deilur, snarpar og hraðar, þó að aðeins sé einn maður á sviðinu. Hann gefur okkur líka nokkra innsýn í ástalíf sitt sem var skrautlegt að frönskum hætti.

Stólum var raðað eftir endilöngum langveggjum salarins báðum megin en gólfið á milli raðanna var leiksviðið. Níels nýtti það vel, arkaði fram og aftur, tók jafnvel undir sig stökk. Níels er myndarlegur á velli og fríður en gat orðið eins hallærislegur og verkast vildi þegar það átti við. Búningar voru margir skemmtilega gerðir og stundum notaðir til að skipta á milli persóna.

Níels var með útvarpsþætti um Napoleon í kringum jólin og ég sá eftir því í gærkvöldi að hafa ekki hlustað meira á þá. Eflaust hefði leiksýningin grætt á því að áhorfandinn væri betur inni í frönskum stjórnmálum á þessum tíma.

Silja Aðalsteinsdóttir