Unnur Elísabet Gunnarsdóttir frumsýndi í gærkvöldi eigin söngleik, Skíthrædd, í Þjóðleikhúskjallaranum. Hún semur sjálf texta, lög og dansa og sér líka um flutninginn. Leikstjóri er Katrín Halldóra Sigurðardóttir, Halldór Eldjárn er tónlistarstjóri, Sigrún Jörgensen hannar skrautlega og glitrandi búningana, rauða fyrir Unni en hvíta fyrir bandið, en Sigurður Starr Guðjónsson sér um lýsingu. Með Unni Elísabetu á sviðinu er tveggja manna stórsveit þeirra Önnulísu Hermannsdóttur og Einars Lövdahls Gunnlaugssonar sem gerir hvort tveggja að leika undir söng Unnar, syngja með og hlaupa til þegar hún þarf mótleikara.

Unnur Elísabet er rétt fertug fjöllistakona sem hefur á sínu æviskeiði þjáðst af óvenjulegri og merkilegri fóbíum, sjúkdómum og ofnæmum en (vonandi) nokkur önnur ein og sama manneskjan í veröldinni. Til dæmis þjáist hún af sjálfsfælni (óttanum við að vera ein) ásamt 10% mannkyns, myrkfælni og ofurnæmi ásamt 12% mannkyns og ofsahræðslu við vindinn ásamt aðeins 1% af mannkyni – en við verðum að taka með í reikninginn að hún ólst upp á Grandanum þar sem ævinlega er skítaveður. Ofnæmin eru líka fjölskrúðug. Frjókornaofnæmi auðvitað, margir þekkja það, og ofnæmi fyrir öllum dýrum með feld, en hafið þið heyrt um bráðaofnæmi fyrir fíflum (altsvo blóminu)? Þegar hún lýsti áhrifum ristilkrampa á líf sitt varð með hugsað til persónunnar Tinnu í söngleiknum Stormi uppi á stóra sviði hússins en hún fékk svo kröftugar skammir frá félögum sínum þegar hún vildi tala um meltingartruflanir í uppistandinu sínu að hún hætti við. Það gerir Unnur Elísabet ekki!

Unnur Elísabet heldur ekki bara fyrirlestur um allt þetta sem hrjáir hana (eins og Kristín Þóra Haraldsdóttir gerði með svo miklum glæsibrag á þessum sama stað fyrir skömmu) því hún bindur líka textann í bragi sem hún hefur svo samið lög við, mörg hver virkilega áheyrileg. Textar hennar eru hversdagslegir og lausir við ljóðrænu enda er hún að tala við okkur skýrt og skorinort, ekki fela neitt með ljóðrænum brellum. Annalísa og Einar styðja hana með öllum ráðum og eru til prýði á sviðinu. Loks tjáir Unnur sig ekki síst í dansi en hún er mjög skemmtilegur dansari.

Þetta er góð skemmtun og hressileg og höfundi og flytjendum var tekið með kostum og kynjum í Kjallaranum í gærkvöldi. Mörgum var áreiðanlega farið eins og mér að hugsa: mikið er ég fegin að ég er ekki með í þessum prósentum.

Silja Aðalsteinsdóttir