Leikhópurinn Kriðpleir frumsýndi verkið Innkaupapokann eftir Elísabetu Jökulsdóttur og leikhópinn á Litla sviði Borgarleikhússins á föstudagskvöldið. Leikmynd og búningar eru eftir Ragnheiði Maísól Sturludóttur og Sigrúnu Hlín Sigurðardóttur sem báðar leika líka í sýningunni en dramatúrgíu sjá þau um Bjarni Jónsson og Snæfríður Sól Gunnarsdóttir. Tónlist og hljóðmynd er eftir Benna Hemm Hemm en lýsingin er verk Ólafs Ágústs Stefánssonar.

Kriðpleirsliðinn Ragnar Ísleifur Bragason kemst að því að náfrænka hans Elísabet Jökulsdóttir hefur verið að semja leikritið Mundu töfrana í rúm þrjátíu ár en aldrei fengið leikhúsfólk til að setja það á svið. Ragnari rennur til rifja leiði Elísabetar yfir þessu og tekur leikritið að sér fyrir hönd Kriðpleirs. Hann sendir félögum sínum handritið í tölvupósti en þegar hann kemur (með áhorfendum) á fyrsta samlestur hafa ekki allir lesið og það er urgur í sumum í hópnum yfir bráðræði Ragnars að taka leikritið til sýningar. Hann þarf að þola talsvert karp, fýlu og jafnvel tuð, sérstaklega frá félaga sínum Friðgeiri Einarssyni, sem túlkar fýlupoka af slíkri innlifun að hann gæti vel átt heimsmet í því. Þau Árni Vilhjálmsson og Saga Garðarsdóttir eru líka hálftreg og Ragnar Ísleifur má hafa sig allan við til að missa ekki þolinmæðina og móðinn. En Ragnheiður Maísól og Sigrún Hlín taka til við að hanna leiktjöld og búninga bakatil á sviðinu og una glaðar við sitt.

Leikhópurinn var dásamlega slakur í þessum fyrri hluta sýningarinnar, samtölin voru eins og spunnin upp á staðnum (eða beinlínis ekta þras) og urðu alveg drepfyndin. Honum lauk svo að skipað var í hlutverk (fæstum til mikillar gleði) og við fórum út í hléi nokkuð viss um að fá að sjá og heyra leikritið sjálft eftir hlé. Enda varð svo og þá skipti alveg um tón: í stað hins leiða raunveruleika erum við stödd í ekta ævintýri þar sem Ella (Saga Garðarsdóttir) er send út af örkinni til að leita að Barninu (Sigrún Hlín) sem hefur verið týnt lengi; Töfrakonan (Ragnheiður Maísól) stríðir henni á ýmsan hátt en Bróðirinn (Árni Vilhjálmsson) kemur henni til hjálpar. Töfra-Garðar (Benni Hemm Hemm) rekur upp syngjandi höfuð og Strætóskýli birtist á vettvangi þar sem grimmur og fúllyndur Innkaupapoki (Friðgeir) hefst við. Hann reynist líka hafa sérstakan áhuga á að finna Barnið … Við og við skýtur upp kollinum glitrandi og titrandi Tár (Ragnar Ísleifur), býsna hreykið af sér! Þegar Ella finnur Barnið kemst hún að því að það er bugað af sorg vegna þess að pabbi þess hefur ekki komið að sækja það og leiða það um heiminn eins og lofað var. Fortölur Ellu og þeirra systkina mega sín lítils en þá koma bæði Tárið og Innkaupapokinn í góðar þarfir.

Mundu töfrana/Innkaupapokinn er verk um sorg, sorgarviðbrögð og sorgarúrvinnslu og það gengur nærri áheyranda eins og mörg önnur verk Elísabetar, á hátt sem í senn er barnslegur og gamansamur, og persónurnar urðu manni hjartfólgnar í einlægri túlkun leikaranna. Sviðið eftir hlé var afar smekklegt og búningar frumlegir og fallegir þar sem það átti við. Til dæmis var kjóllinn hennar Ellu gullfallegur og jakkaföt Társins hreinlega töfrandi! Búningar Árna og Benna Hemm Hemm hjálpuðu þeim að skapa sérstæðar persónur bróðurins og Töfra-Garðars. Þetta er sýning sem aðdáendur Kriðpleirs og Elísabetar Jökulsdóttur mega alls ekki missa af og hún á skilið að laða að nýja hópa aðdáenda beggja aðila.

Silja Aðalsteinsdóttir