Rán Flygenring: Tjörnin.

Angústúra 2024.

Úr Tímariti Máls og menningar, 1. hefti 2025.

„Hundafiskur“!!! sagði þriggja ára snáði þegar afi var að lesa Tjörnina fyrir hann enn eina ferðina og dýralíf í ímyndaðri tjörn birtist, með moskítóflugum, froskum, skjaldböku, liljublómum og blöðum, hafmey og skrýtnum fiskum, einn þeirra var með stór eyru eins og á hundi.

Annars eru viðtökur Tjarnarinnar í barnabarnaskaranum nokkurn veginn svona: ársgamall snáði reyndi að éta hana en varð ekki mjög ágengt. Tveggja ára systir hans hafði þolinmæði inn í miðja bók en vildi þá fara að skoða eitthvað annað og ræða önnur mál. Tveir frændur, annar nýlega orðinn þriggja en hinn alveg að verða fjögurra, vilja lesa Tjörnina aftur og aftur og byrja á að pæla í gatinu á kápunni. Báðir vilja lesa vandlega, fara vel í gegnum allt smádótið sem birtist við gröft í geymslu og garði. Sá yngri hefur sérstakt dálæti á ormunum, kisunum og fuglunum og svo sínu sérstaka áhugamáli, dreka í drekahreiðri. Hinn var spenntastur fyrir loftsteini og eldgosi. Sex ára systir hans elskar bókina og vildi lengi lesa aftur og aftur. Það skrýtnasta var kúkurinn í garðinum og rosa flott að fá gosbrunn í tjörnina. Henni fannst sjálfsagt að setja reglur en skildi svo alveg að það gekk ekki nógu vel upp. Ellefu ára frænku þeirra fannst bókin mjög spennandi og skemmtileg, sérstaklega öll þessi fyndnu og fjölbreyttu smáatriði. Fjórtán ára gítarleikari bróðir hennar renndi í gegnum hana og fannst þetta fín og merkileg bók.

Það var sérkennilegt að hafmeyjarstytta skyldi hverfa, báðar stærri stelpurnar tóku það sem loforð um að kæmi framhald, það gengur ekki að skilja svo mikilvægt mál eftir óleyst. Svo þarf náttúrlega að sjá hvernig fuglahús verði smíðað.

Hvað heillar börnin svo þau vilji njóta Tjarnarinnar aftur og aftur? Hjá því barni sem ég les oftast fyrir, yngri þriggja ára snáðanum, er það aðeins risastór og glæsileg bók um risaeðlur sem kemst í hálfkvisti við Tjörnina.

Sagan er sögð í gegnum sögukonuna Fífu sem segir af bjástri sínu og Spóa vinar síns, og hluti textans birtist í talblöðrum. Kannski er það fjölbreytni í bland við furðurnar sem leynast í hversdagslegu og kunnuglegu umhverfi sem nýtur sín vel í útleitnum og sprellfjörugum teiknistíl Ránar Flygenring. Einhverju nýju er veitt eftirtekt við hvern lestur, ásamt furðulegheitum sem strax blöstu við: „Ánamaðkakapphlaup!!!“ „Ormur!!!“ „Fluga!!!“ hrópa litlu snáðarnir við hvern lestur og sjá að ormar geta verið allskonar. Nýjar kisur og fuglar á hverri síðu. „Krummi! Ég er hræddur við krumma í vinnunni hjá afa!“ segir sá yngri þriggja ára. Bókin geymir værukæran sóldýrkanda, kona með barn í aftursæti talar í síma undir stýri, fullt af dóti kemur í ljós þegar grafið er í geymslu og garð, fjölbreytt mannlíf er í kringum garðinn og alltaf birtast nýjar kisur og fuglar á garðveggnum.

Það er ekki sjálfgefið að bækur heilli bæði börn, foreldra og afa og ömmur. Ég man eftir bókum sem mér hafa þótt arfavitlausar og óspennandi en börn geta verið stórhrifin af. Sérstakur galdur Tjarnarinnar birtist í lifandi og síbreytilegu samspili mynda og texta og ekki síður sjálfstæðu lífi myndanna út um allan myndflötinn, svo bæði börnin og fullorðna fólkið, jafnvel afar og ömmur í þann veginn að ganga í barndóm, eru alltaf að sjá eitthvað nýtt, ekki síst á jöðrum myndanna. Hver tók til dæmis eftir fundarboði á aðalfund húsfélagsins á hurð í geymslunni? Samt er söguþráðurinn frekar einfaldur á ytra borði: Krakkarnir, með skemmtileg nöfn blóms og fugls, Fífa og Spói, taka eftir smádæld í hversdagslegum garðinum og fara að rannsaka málið þegar í ljós kemur að fullorðna fólkið veit ekkert í sinn haus og á engin svör við ráðgátunni. Jafnvel borgarstjórinn kemur af fjöllum. Þau hleypa ímyndunaraflinu af stað en taka svo til sinna ráða, grafa uppúr dældinni og í ljós kemur gömul, steinsteypt tjörn sem þau fylla af vatni. Þá verður líf í tuskunum sem Fífu finnst að þurfi að koma reglu á þannig að regluverkið hrekur fjörið í burtu. Hún dettur ofaní og er nærri drukknuð þegar fuglar bjarga henni. Þá áttar hún sig á að það þýðir ekkert að setja strangar reglur. Það er miklu skemmtilegra að gefa lausan tauminn og finna alltaf uppá einhverju nýju.

Þessi stutti þráður segir ekki margt en undir honum leynast töfrar og lífskraftur náttúrunnar. Það leynist margt óvænt undir yfirborði eða vatnsfleti sögunnar.

Um þessar mundir fer fram djúpstæð gerjun og endurmat á allri sambúð manns og náttúru. Fólk er að komast að raun um afleiðingar yfirgengilegrar náttúrudrottnunar og hlutgervingar svokallaðra „auðlinda“ náttúrunnar um víða veröld, með þá hugsun að leiðarljósi að hún sé fyrst og fremst auðspretta frekar en sú lifandi heild sem manneskjan er hluti af og ætti ekki að taka sér vald yfir í hagnaðarskyni. Í raun hefur fólk á Vesturlöndum afsalað sér skynsemi sinni og sjálfsforræði í smættandi hendur meginstraums nýfrjálshyggjuhagfræði, hagmennisins homo economicus. Vistkreppa heimsins felst í fjölþættum afleiðingum yfirþyrmandi neysluhyggju og ofnýtingar með rætur í iðnbyltingu og gegndarlausri nýlendukúgun, afleiðingum þess að kreista eilífan hagnað úr náttúrunni af fullkomnu skeytingarleysi. Þessar afleiðingar eru fjölþættar og ógnvekjandi, hverfast ekki bara um loftslagshamfarir heldur einnig mengun, auðlindaþurrð, gereyðingu tegunda, hnignandi lífríki og vistkerfi. Þetta er ógn við líf mannkyns á jörðinni og breytist ekki nema með gerbreyttri afstöðu mannfólks til náttúru og umhverfis. Málsmetandi fólk um víða veröld hefur hamrað á þessu öllu. António Guterres, aðalritari Sameinuðu þjóðanna, hefur tæpitungulaust talað um hreinan sjálfsmorðshernað gegn náttúrunni, að landeyðing og ofnotkun jarðefnaeldsneytis og margvísleg gereyðingarstarfsemi valdi nú hamförum í lífríki jarðar:

Skeytingarlaus íhlutun mannkyns í náttúruna mun skilja eftir sig varanleg ummerki — rétt eins og þegar vísindamenn dagsins í dag rannsaka menjar fyrri útrýminga. Við erum komin vel áleiðis inn í útrýmingu mannaldar. Hlutfall aldauða tegunda er tugum til hundruðum sinnum hærra en meðaltal síðustu 10 milljón ára, og eykst. Yfir milljón tegundir plantna, spendýra, fugla, skriðdýra, froskdýra, fiska og hryggleysingja eru í hættu, sumar á næstu áratugum.

Frumbyggjar og aðrir viðkvæmir hópar eru meðal þeirra sem verst verða úti. Skemmdir á hinum flókna lífsvef sem heldur okkur uppi hafa þegar haft áhrif á líf og lífsskilyrði milljóna og valdið hungri, veikindum og atvinnuleysi. Hrun vistkerfa gæti kostað nærri þrjár billjónir dollara á ári um 2030. Mestu áhrifin verða á sum af fátækustu og skuldugustu löndunum.[1]

Vísindamenn og fræðimenn, til að mynda í umhverfishugvísindum, fjalla um þessa stöðu og nauðsyn þess að draga úr kolefnisútblæstri og virða líffræðilega fjölbreytni og heilbrigði vistkerfa sem undirstöðu lífs á jörðinni. Loftslagshamfarirnar eru að sönnu viðurkenndar að mestu en aðgerðir enn í skötulíki. Vægi líffræðilegrar fjölbreytni er smátt og smátt að öðlast sess í umræðunni. Það þarf hins vegar að ganga miklu lengra, umbylta hugarfari og viðurkenna að náttúran er lifandi afl og veruleiki sem við erum hluti af og verðum að virða, og ættum helst ekki að kasta eign okkar á hana.

Benda má á ýmsar leiðir til úrbóta. Útilokað er annað en að hagkerfi heimsins hjaðni og dregið verði úr orkunotkun, því þar eru rætur loftslagshamfaranna, ofneyslunnar og niðurbrots vistkerfanna sem líf okkar veltur á. Hjöðnun, hringrásarhagkerfi og velsæld sem byggir á allt öðru en neyslu eru hugmyndir sem nú vex ásmegin. Í raun er ekkert í boði annað en djúpstæð umskipti á lífsháttum og afstöðu til náttúrunnar. En viðskiptalífið og drjúgur hluti stjórnmálafólks (oft í ógeðfelldu bandalagi) eru pikkföst í gömlum mynstrum og lífsháttum, trú á skammsýnar skyndilausnir tæknihyggju og skringilegan grænþvott á borð við kolefnisjöfnun. Ýmsar tæknileiðir gera vissulega gagn en brýnast er að fólk fari að byggja upp heildræna sýn á náttúru og umhverfi og haga lífi sínu í samræmi við þá ábyrgð sem því fylgir.

Tjörnin er ísmeygilegt framlag til þessa endurmats. Undir fjölbreytni bókarinnar, sem út af fyrir sig er heillandi, leynist siðferðisleg afstaða til hins kvika lífríkis og hugmyndaflæðis sem svarar til líffræðilegrar fjölbreytni og veruleika óræðrar náttúru sem er alltaf stærri en við sjálf. Þegar betur er að gáð má sjá að allar tegundir lífvera sem Guterres nefnir koma fyrir í bókinni, sem mætti kannski skoða sem örheim sem speglar þann stóra, míkrókosmos og makrókosmos, plöntur, spendýr, fuglar, skriðdýr, froskdýr, fiskar og hryggleysingjar.

Hugvitsamlega hannað kápuspjald birtir strax athafnir barna í iðandi lífheimi í kringum tjörn og tjarnarlaga gatið á spjaldinu gefur til kynna fjölbreytta leyndardóma þar fyrir innan. Í fyrstu opnunni segir Fífa lesandanum eða litlum áheyranda eða meðskoðanda að garðurinn hennar sé bara „mjög venjulegur garður. Ég þekki hann betur en handarbakið á mér.“ Eignarhaldið skiptir máli. Á næstu opnu er garðurinn skoðaður betur og Fífa tekur fram að hún eigi hann með öllum í húsinu, meðal annars Spóa, besta vini sínum. Garðurinn sem lifandi heimur verður sýnilegri, félagsleg heild eða kannski vistkerfi, fleira fólk, athafnir fólks, gömul kona að veifa í garðhliðinu, maður að slá, sóldýrkandi að njóta lífsins, hrífa og svartur ruslapoki með garðúrgangi, trampólín, allt mjög dæmigert, líka köttur í veiðihug og nokkrir fuglar, til að mynda maríuerla að spjalla við styttu af hafmeyju, og vinirnir Fífa og Spói blása á biðukollur og sápukúlur. Þá kemur rigningardagur með kostulegum uppátækjum barnanna, laufblaðaskútugerð og ánamaðkakapphlaupi, og loks vetrardagur með jafnskrýtnum leikjum. Garðurinn birtist í fáum megindráttum, en með ótal smáatriðum, með fugla og ketti í áberandi hlutverkum eru börnin í lifandi samleik við umhverfi sitt, sem um leið er kankvís leikur þar sem höfundur lætur smáfurður vegast á við hið hversdagslega. Þannig er lagt upp með sögu sem er vís til að víkja af alfaraleið.

Þá kemur stóra áskorunin á hversdagsleikann, dældin sem börnin taka allt í einu eftir. Ævintýrahugur þeirra fer á flug í víðum forsögutíma og geimrúmi með hugmyndum um tröllskessusæti, tófugreni, drekahreiður, geimverur, loftstein og fleira. Fullorðna fólkið stendur á gati þangað til pabbi Fífu segir þeim að finna bara skóflu og athuga málið sjálf. Eftir kostulega leit í geymslunni sem skilur allt eftir á rúi og stúi, hrúgu af dæmigerðu geymsludóti sem litlir áheyrendur hafa gaman af að fara vandlega í gegnum og nefna helst flesta hluti, hefjast þau handa og í ljós kemur lífríki grassvarðarins og moldarinnar, nokkur skordýr og þrjár tegundir ánamaðka í bland við drasl, að mestu manngert, sem upp úr jörðinni kemur. Baráttan við grjóthnullunga er strembin undir eftirliti fugla og skordýra og loks kemur í ljós ómerkileg steypuhola. „Ekkert drekahreiður, ekkert rómverskt baðhús, engin norsk stafkirkja,“ segir Spói vonsvikinn. „Bara grá og asnaleg STEYPUHOLA!“ segir Fífa. Vonbrigðin virðast meira að segja skína út úr áhorfendum: fugli og þrem skordýrum. En þá segir værukæri sóldýrkandinn: „Mér sýnist þetta vera steyptur tjarnarbotn.“

Þá fer allt af stað. Náttúrleg athafnasemi barnanna kviknar í öðru veldi við tilhugsunina um töfrum slungna tjörn. Þau ímynda sér lifandi, suðræna tjörn með furðulegu lífi: froskum, fiskum, líklega hundafiskum, skjaldböku, sofandi hafmey og vatnaliljum. „Ég þekki enga sem hafa fundið tjörn í garðinum sínum,“ segir Fífa sögukona og þau drífa í að sækja vatnsslöngu til að fylla hana af vatni. „Þetta er LÍFIÐ!“ segir gljáfætlan sem birst hafði í uppgreftrinum og fékk sér spássertúr á vatnsslöngunni.

Það tók heilan dag að fylla tjörnina, efasemdaraddir hversdagsskynseminnar heyrðust um húsfund og lúsmý og þegar tjörnin er loksins full af vatni er sviðið frekar autt, hafmeyjan horfir á í forundran og krakkarnir undirstrika eignarhaldið, segja: „Tjörnin okkar“ og spegla sig í gárum hennar. En svo fyllist garðurinn af lífi í einni sjónhendingu, fuglar, fiskar, kettir, skordýr, hundur og allskonar fólk þyrpist að, ljósmyndari, pikknikkfólk, fólk í sólbaði, maður í hjólastól með vínglas í hönd, annar með veiðistöng, sumir takandi sjálfur á símana sína, lifandi litaskrúð mannlífsins og hundur að skíta úti í horni.

Fífu var allri lokið: „Þau flykkjast að vatninu eins og mý að mykjuskán, þau taka myndir og grilla kótilettur, þau masa og brasa, spila háværa tónlist, henda rusli í grasið og steinum í tjörnina, þau vaða út í, synda og sulla … þau traðka á blómunum og kúka í beðin, þau drekka tjörnina, þau menga tjörnina, þau eyðileggja allt!

Hún setti strangar reglur í takt við hefðbundna skynsemi eða forræðishyggju. Með hástöfum voru fuglar, kettir og skordýr harðbönnuð og svo mátti náttúrlega ekki kúka á lóðinni. Fífa rak fólk og dýr burt, reiður köttur og niðurlút önd, strákur, hundur og ánamaðkur fóru út um garðshliðið og því var lokað. „Engir skítugir fuglar og ekkert fólk með vesen,“ segir Fífa sögukona hróðug.

Þegar börnin höfðu garðinn sinn bara fyrir sig ein ríkti auðn, tóm og einsemd. Meira að segja hafmeyjan var horfin og Spóa fór að leiðast. Fífa ætlaði að njóta þess að vera ein við stjórn, sitjandi í hásæti, því það væri „tjörninni fyrir bestu“. Slík forræðishyggja, drottnunarvald yfir sjálfsprottnu lífi eða samspili fólks og náttúru gengur ekki upp í anarkískum töfraheimi Ránar Flygenring.

Þá kom fugl sem truflaði kerfið, virti ekki eignarhald Fífu svo hún datt ofan í tjörnina þegar hún hugðist reka hann í burtu – og allt breyttist. Lífsháski Fífu þegar hún sekkur og sekkur í tjörninni minnir á hugmyndir um sýnir á dánarbeði, sýn inn í nýjan heim eða kannski birtist bara ný náttúrusýn eða vitrun. Djúp tjarnarinnar opinberaði Fífu fjölbreytileika náttúrunnar, lífríkisins. Í kringum hana syntu allskyns lífverur, selir, fiskar, marglyttur, krossfiskar og allt í kring var mannlíf, barn í móðurkviði og börn í fjölbreyttum leikjum. „Lestu reglurnar! Þetta er minn garður, MÍN TJÖRN!“ hafði Fífa orgað um leið og hún datt ofaní. Iðandi lífið er allt í kringum hana þar sem hún sekkur dýpra og dýpra, þangað til fuglsklær birtast eins og guð úr vélinni og síðan draga fuglar hana uppúr og Fífa endurfæðist á tjarnarbakkanum. Á þeirri mynd er skuggsýnt, aðeins blóm og fuglar fylgjast með, girðingin kringum tjörnina er brotin, hásæti Fífu baksviðs og hafmeyjan (styttan) gægist furðu lostin upp úr vatnsborðinu. Fífa er ringluð og spyr hvar hún sé og fuglarnir svara: „Þú ert bara hér í garðinum okkar“. Hér er kannski kjarni sögunnar, sem hafnar eignarrétti yfir tjörninni sem er lífríki, kannski táknmynd vistkerfa heimsins. Og Fífa hreyfir engum mótmælum. Þegar reglurnar sem hún setti eru farnar veg allrar veraldar getur mannlífið í kringum tjörnina einmitt speglað kvika fjölbreytni náttúru sem fékk að lifna, krydduð með dulúð.

Nú langar börnin ekkert að stjórna tjörninni lengur, reglunum, hásætinu og girðingunni er fleygt inn í geymslu og þeim dettur í hug að smíða fuglakofa.

Tvær síðustu opnurnar eru eins konar paradísarmynd af garðinum. Gosbrunnur er kominn í tjörnina þar sem fuglar syntu og böðuðu sig, fólk að hafa það huggulegt, í sólbaði, pabbi Fífu að laða til sín fugla, Spói byrjaður að smíða fuglakofann, maður að grilla, konur við borð að gæða sér á kaffi og kökum, einn fuglinn liggur makindalega á bakinu á pínulitlum fleka á tjörninni. „Svo er líka mjög margt annað sem þarf að rannsaka í garðinum okkar. Garðurinn okkar er nefnilega enginn venjulegur garður,“ eru lokaorð Fífu sem sögukonu, sem í upphafi hafði sagt að hann væri mjög venjulegur. Þó eru það ekki alveg síðustu orðin, því neðst til vinstri, þar sem hún stendur hjá pabba sínum sem var að laða til sín fugla, rekur hún augun í að hafmeyjan er horfin af stallinum: „Nei, ha!? hvað gerðist hér?“ spyr hún og þar er kannski lagt upp í aðra sögu um lífið í garðinum og tjörninni?

Afi gamli les frekar stopult í Tjörninni fyrir barnabörnin, foreldrarnir eðlilega þeim mun oftar, en við hvern lestur stækkar heimur bókarinnar. Í raun býður hún, með merkingarauðlegð lífríkisins sem leiftrandi og anarkískur teiknistíll Ránar endurspeglar snilldarlega, upp á nýjar og nýjar uppgötvunarferðir í gegnum bókina, þar sem hægt er að finna ný og ný smáatriði, nýtt og nýtt samhengi, og umfram allt spurningar og umhugsunarefni. Hefurðu prófað ánamaðkakapphlaup? Af hverju er svona mikið drasl í geymslunni? Af hverju kemur næstum jafnmikið drasl uppúr jörðinni? Af hverju er svona mikið af fuglum og smádýrum? Getur verið að lítil tjörn geti verið svona djúp, með selum og allskonar dýrum? Þarf endilega að hafa reglur um allt? Af hverju björguðu fuglarnir Fífu? Var það kannski þess vegna sem henni datt í hug að smíða fuglakofa? Af hverju er garðurinn allt í einu ekkert venjulegur?

Tjörnin dregur upp lifandi og fjölbreytta náttúru sem leynist allstaðar og er óútreiknanleg, í samleik við hugmyndaflug barnanna og skapandi hugsun sem er þeim eðlislæg. Það er náttúra þeirra í samræmi við gamla merkingu orðsins náttúra, sem er eðli. Sjálfsprottin fjölbreytni leynist í öllu, því að í raun er ekkert venjulegt í náttúrunni. Sagan bregður upp samvistum tegunda í lífríki þar sem mannfólk er bara ein tegund af mörgum. Alltumlykjandi vatnið er lykilatriði, umgjörð og uppspretta hins fjölbreytta lífs, míkrókosmos eða örmynd heimsins, en um leið opinberun, í lotningu fyrir náttúrunni. Í veröld sögunnar tekur náttúran völdin, víkkar sjónsvið Fífu og Spóa með lifandi fjölbreytni. Hún er ekki hættulaus og getur búið yfir ógnum, en þær losna helst úr læðingi þegar hún er beitt mannlegri forræðishyggju sem anarkí er eina svarið við. Sagan rekur dramatískan uppgötvunar- eða lærdómsferil Fífu sem hún deilir svo fallega með Spóa vini sínum. Hún uppgötvar lifandi veröld náttúrunnar og um leið ábyrgð sína, uppgötvunin leysir drottnunina af hólmi. Þess vegna endar bókin í samhljómi, án þess að sköpunin og forvitnin hverfi, því þar leynast frækorn hugarfarsbreytinga.

Já, og hundafiskar eru til, allavega er hákarlategundin squalus acanthias kölluð dogfish á ensku þó að íslenska heitið sé víst deplaháfur. Það er ekki endilega hann sem svamlar í ævintýratjörninni en í stöðugri og verðandi uppgötvun hugarflugsins má sá fiskur alveg heita hundafiskur.

Viðar Hreinsson

 

[1] Sjá hér: https://press.un.org/en/2021/sgsm20959.doc.htm.