Kammeróperan frumsýndi í gær á Nýja sviði Borgarleikhússins Brúðkaup Fígarós eftir W.A. Mozart. Texta Da Ponte þýddi Bjarni Thor Kristinsson og aðlagaði stórskemmtilega auk þess sem hann leikstýrir uppfærslunni. Tíu manna hljómsveit er bakatil á sviðinu og tónlistarstjóri er Elena Postumi. Leikmyndina hannaði Eva Björg Harðardóttir, Andri Unnarson sá um búninga en lýsingin var í höndum Friðþjófs Þorsteinssonar. Öll umgjörð var til mikillar prýði.
Kammeróperan lætur ekki nægja að flytja óperuna til í tíma, þau láta hana gerast í Mosfellsbæ. Þar hafa hjón sem kenna sig við greifadóm sett á fót vínrækt og var kynningin á þeim og vínræktinni leyst á snilldarlegan hátt í upphafi sýningar. Sagan hefst svo á því að vinnumaður í vínræktinni, Fígaró (Unnsteinn Árnason) sýnir unnustu sinni Súsönnu (Jóna G. Kolbrúnardóttir) herbergið sem þeim hefur verið úthlutað á býlinu. Hann er hæstánægður með það en hún ekki og bendir honum á að þar séu þau í háskalegu nábýli við greifann (Oddur Arnþór Jónsson) sem sé alltaf að reyna við hana. Þetta sjá fleiri en Súsanna því að greifynjan (Bryndís Guðjónsdóttir) er alveg miður sín yfir kvensemi bónda síns. Sagan sem á eftir fer er svo flókin að hún er „eins og söguþráður í gamalli óperu“ eins og greifafrúin segir réttilega!
Eitt af því sem flækir er gömul skuld Fígarós við Marcellinu (Hildigunnur Einarsdóttir). Hann hafði á sínum tíma skrifað undir loforð um að kvænast henni ef hann gæti ekki greitt skuldina á vissum tíma. Nú er sá tími kominn og hún kemur með lögmanninn Bartolo (Jón Svavar Jósefsson) með sér til að innheimta skuldina. Greifinn verður hæstánægður með að losna við keppinaut um ástir Súsönnu en Fígaró líst ekki á blikuna – enda konan nógu gömul til að vera móðir hans. Öllum til undrunar reynist hún einmitt vera móðir hans sem yfirgaf hann nýfæddan og það verða fagnaðarfundir með móður (og raunar föður líka!) og syni. Hinn ungi og kynþokkafulli Cherubino (Kristín Sveinsdóttir) flækir líka málin með því að elska allar konur jafnmikið, hvort sem þær eru greifafrú eða Barbarina dóttir garðyrkjumannsins (Vera Hjördís Matsdóttir), og þetta pirrar greifann svo mikið að hann vill senda hann burt. Það vilja konurnar ekki! Þá er ónefndur Basilio sem Eggert Reginn Kjartansson syngur og Ragnar Pétur Jóhannsson sem fékk alltof lítið að syngja sem garðyrkjumaðurinn. Og fólk felur sig bak við sófa, undir teppi eða inni í skáp eða hoppar út um glugga í innilegri lönguvitleysu. Uns allt fellur í ljúfa löð að lokum og greifynjan fyrirgefur bónda sínum. Þetta lokaatriði margfaldaði Ragnar Kjartansson í vidjóverkinu Sælu (2011) eins og frægt varð, þar er arían endurtekin í samfellt tólf tíma og er þá greifanum ef til vill fyrirgefið að fullu.
Þessa flóknu sögu skreyta svo einhverjir fegurstu tónar sem samdir hafa verið á jörðinni, og það er hreint undur hvað við eigum af góðum söngvurum sem skiluðu þeim með lofsverðum sóma. Ekki kom á óvart hvað Oddur Arnþór var glæsilegur greifi eða hvað hann fór vel með hlutverkið. Greifynjan kom meira á óvart en Bryndís var alveg einstaklega gjörvuleg í hlutverkinu og plokkaði hjartastrengina unaðslega, til dæmis í aríunni þar sem hún minnist liðinna yndisstunda með manni sínum. Jóna er eins og sköpuð fyrir hlutverk Súsönnu, hún er einstaklega lífleg á sviði og syngur fantavel. Það var gaman að sjá þær saman, hana og Bryndísi, hvað þeim svipaði saman í mörgu. Það skiptir máli af því að greifinn á að taka feil á þeim!
Unnsteinn var hress og kekk Fígaró og söng sínar aríur af röggsemi, til dæmis þegar hann ögrar greifanum og býður honum í dans. Kristín var yndislegur Cherubino og söng ástararíuna sína af innileika og sjarma. Hildigunni, Jóni Svavari, Eggerti og Veru varð furðu mikið úr litlum hlutverkum enda einstaklega góðir og skemmtilegir söngvarar.
Það er óhætt að óska Kammeróperunni innilega til hamingju með þessa sýningu, hún gleður, skemmtir og gerir mann stoltan af sínu fólki. Sérstaklega vil ég óska Bjarna Thor til hamingju og óska þess að honum auðnist að íslenska fleiri óperur. Þessi tókst alveg fullkomlega!
Silja Aðalsteinsdóttir