Þórey Birgisdóttir frumsýndi í gærkvöldi í Tjarnarbíó þýðingu sína og leikstjórans, Önnu Maríu Tómasdóttur, á einleik Bretans Garys Owen, Ífigenía í Ásbrú. Hljóðmynd gerir Kristín Hrönn Jónsdóttir og mikilvæg lýsingin var verk Ástu Jónínu Arnardóttur.
Það er gaman að vera leikhúsrotta og fá að sjá og heyra hverja mögnuðu kvennasöguna á fætur annarri í leikhúsinu þessi misserin. Ég minni bara á Yermu, Orð gegn orði, Taktu flugið, beibí, Ellý, Saknaðarilm, Með Guð í vasanum, Stelpur og stráka og Til hamingju með að vera mannleg á síðustu mánuðum. Þetta nýjasta, um Ífigeníu sem býr í Ásbrú á Vellinum, fer neðar í mannfélagsstigann en hin áðurnefndu. Iffí (Þórey Birgisdóttir), sem heitir eftir ömmu sinni, „bara tvær á landinu sem heita Ífigenía“, er drykkfelld og skemmtanafíkin stelpa – „lausgirt“ hefði einhvern tíma verið sagt um hana. En henni finnst við eiginlega skyldug að heyra sögu hennar og hún segir okkur hana beint, lætur hana vaða framan í okkur.
Sagan sú hefst kvöld eitt þegar hún fer á skemmtistað með vinkonu sinni og samleigjanda og vininum Kidda. Hún sér þar mann sem hana munar í, hún nær augnsambandi við hann, platar Kidda í burt og veiðir gaurinn. Síst af öllu á hún von á einhverju en hún verður ástfangin. Hún undrast að hann skuli ekki hafa samband næsta dag – og ekki heldur næstu daga og vikur – en þá ákveður hún að leita hann uppi …
Meira má í rauninni ekki segja til að spilla ekki meira fyrir en orðið er en framundan er dramatísk atburðarás sem bæði er átakanleg og hrífandi. Gary Owen sækir nafnið á söguhetju sinni til Evripídesar sem samdi leikrit um Ifígeníu, dóttur Agamemnons konungs Grikkja, um það bil 400 árum fyrir Krists burð. Það verk fjallar um fórn stúlku fyrir föðurlandið – en getur gella af Suðurnesjum gert eitthvað sem jafnast á við það?
Þórey flytur textann á því sem næst auðu sviði og hefur fátt til að hjálpa sér, það eina sem hún getur gert er að skipta um stól – setjast ýmist í þann sem hún dregur inn á sviðið eða hjá áhorfendum í sal. Helstu önnur hjálpartæki eru bjórflöskur! En hún þarf ekkert fleira því að hún hefur andlit sem talar, rödd sem heldur manni bergnumdum og líkama sem ýmist er stoltur og ögrandi eða beygður og bugaður, allt eftir því hvar hún er stödd í sögu sinni. Ég var svo gagntekin að ég heyrði bara í Þóreyju en félagi minn sagðist aldrei hafa heyrt eins mikið grátið á leiksýningu.
Hljóðmyndin og lýsingin láta lengi vel lítið yfir sér, en þegar þyngist yfir frásögninni taka þær fullan þátt í henni uns allt rennur í eitt, rödd, hljóð og ljós, eins og voldugur andardráttur. Glæsilegt. Þetta verk á erindi við alla, ekki missa af því.
Silja Aðalsteinsdóttir