Ég varð djúpt snortin á sýningu Óperudaga á Gleðilega geðrofsleiknum eftir Guðmund Stein Gunnarsson sem Sibylle Köll stjórnar. Umhverfið hafði sín áhrif. Sýningin var sett upp í MR, gamla menntaskólanum mínum, og þó að hún byrjaði á Sal og þættist ætla að vera venjuleg sýning fyrir sitjandi áhorfendur þá entist það ekki nema á að giska korter. Þá var aðalpersónan, Hugi (Eggert Reginn Kjartansson, tenór), horfinn úr salnum í alvarlegu geðrofi og Svandís, vinkona hans eða unnusta (Björk Níelsdóttir, sópran), farin á eftir honum, hrópandi á göngunum. Smám saman eltu allir áhorfendur Svandísi niður á neðri hæð hússins (margir hikuðu lengi, héldu að þetta hlyti að lagast) og þar inn í kennslustofur þar sem fárveikt fólk söng orðlaus tónasamtöl, ýmist döpur, leið eða reiðileg. Sífellt fjölgaði þátttakendum í óperunni, að því er virtist, uns svo kom að maður var sjálfur óviss um hvort maður ætti að taka undir eða láta vera. Og þegar aftur var komið á Sal og hámarki sýningarinnar náð var gagnvirknin orðin verulega óþægileg.

Þetta minnti á leiksýninguna Tæringu sem Leikfélag Akureyrar setti upp í Kristnesi 2020. Þar gengu áhorendur um hælið, litu inn til sjúklinga á sjúkrastofum og fylgdust með daglegum athöfnum þeirra. En berklar eru eitt en geðveiki annað og Gleðilegi geðrofsleikurinn er jafnvel ennþá óþægilegri en Vertu úlfur. Um leið var þetta upplifun sem býr lengi með manni því innlifun bæði aðalleikara og ekki síður vistmannanna tíu í kórnum sem sungu hinar orðlausu eða orðfáu aríur var verulega áhrifamikil.

Tónlistin var sérstök blanda af verulega fallegri lagrænni músík, kunnuglegu tónlesi og hálflagrænum tónum sem ég skynjaði sem orðlaus samtöl. Samanlagt var þetta áhrifamikil heild. Eggert Reginn er bæði glæsilegur og góður söngvari og Björk afar aðlaðandi og fín söngkona og kórfélagar höfðu hver öðrum fallegri raddir.

Sérstaklega verður að geta um allan umbúnað sem var vel hugsaður og spennandi. Bæði voru búningar vistmanna áhugaverðir og margir verulega flottir og skólastofurnar þar sem sjúklingar dvöldu og tóku á móti gestum voru innréttaðar af litríkri og skemmtilegri hugkvæmni sem rímaði vel við hljóðin sem þar voru framin. Margir hafa lagt þar hönd á plóg, m.a. Sibylle leikstjóri, Bryndís Ósk Þ. Ingvarsdóttir og þátttakendur í kórnum: Guðrún Margrét Halldórsdóttir, Tanja Líf Traustadóttir, Dagbjört Ósk Jóhannsdóttir og Ellert Blær Guðjónsson.  Fimm manna fínustu hljómsveit stjórnaði Hrönn Þráinsdóttir af öryggi.

Allt í allt var þetta verulega athyglisverð og eftirminnileg leikhúsreynsla sem ég er þakklát fyrir.

 

Silja Aðalsteinsdóttir