Ein minningarperlan úr leikhúsi í áranna rás er Himnaríki Árna Ibsen, „geðklofni gamanleikurinn“ sem Hafnarfjarðarleikhúsið Hermóður og Háðvör frumsýndi haustið 1995. Gaflaraleikhúsið rétt missir af að halda upp á þrítugsafmæli þeirrar sýningar með sýningu sinni á gamanleiknum Tómri hamingju á Nýja sviði Borgarleikhússins en Tóm hamingja er „geðklofin“ á sama hátt og Himnaríki: verkið er leikið tvisvar á klofnu sviði og sjá áhorfendur annaðhvort það sem gerist utandyra fyrir hlé og það sem gerist innan dyra eftir hlé eða öfugt. Við nafna mín vorum fyrst inni og í hléinu var margt mjög óljóst í áætlunum og ráðagerðum persónanna sem laukst upp fyrir okkur úti eftir hlé. Þetta er prýðilega spunnið í texta en auðvitað ákaflega vandasamt að stilla tímann nákvæmlega af í hverju atriði þannig að persóna sem fer út á ákveðnum stað komi inn í hárréttar aðstæður þar. Ég varð ekki vör við nema óverulega hnökra á þessu á sýningunni í gærkvöldi þótt hún væri leikin á miklum hraða.
Sagan gerist í ráðherrasumarbústað á gamlárskvöld, veður er milt þrátt fyrir árstíma – enda eins gott því talsvert er striplast. Hrafnhildur (Steinunn Arinbjarnardóttir) hefur fengið bústaðinn lánaðan hjá pabba sínum forsætisráðherranum til að eiga þar hárómantíska stund með kærustunni Þórdísi (Vigdís Halla Birgisdóttir). Þórdís á líka erindi við Hrafnhildi en af allt öðru tagi. Tilviljun verður til þess að hún kemur með sameiginlega vini þeirra í bústaðinn, Markús (Arnór Björnsson) og Hjálmar (Ásgrímur Gunnarsson), því að skyndilega varð brýnt að bjarga Hjálmari sem virðist vera á vondum stað í lífi sínu. Kristmundur bróðir Hrafnhildar (Óli Gunnar Gunnarsson) er svo á eigin vegum í bústaðnum þetta kvöld og sáróánægður með að hin skuli koma og spilla öllu fyrir honum. Ekki er kærasta hans ánægðari með að vera skilin eftir úti í bíl og það hitnar í kolunum þegar áhrifavaldurinn Svana (Berglind Alda Ástþórsdóttir) stormar á svið í leit að Kristmundi. Á staðnum leynist líka einn ráðherra (Benedikt Karl Gröndal) sem kannski á að vera leynigestur í sýningunni en ég get ómögulega sleppt því að nefna hann þó að hann sé ekki með á leikskrárblaðinu.
Ekki er rétt að fara lengra út í efnið en óhætt að segja að á sögutíma spinnast saman ótal þræðir og persónuleiki söguhetja opinberast smátt og smátt. Öll eru þau á þrítugsaldri (nema ráðherrann) og öll dreymir þau um auð og hamingju en eru misfús til að leggja eitthvað á sig til að öðlast það sem þau þrá. Stúlkurnar eru mun metnaðargjarnari og markvissari en drengirnir, Hrafnhildur stefnir í pólitíkina, Þórdís á frekara nám og jafnvel þvengmjóa ljóskan Svana reynist geyma allt aðra manneskju en þá sem hún sýnir heiminum á samfélagsmiðlum. Berglind Alda fór afar vel með þessa skemmtilega samsettu persónu sem var í raun jafn „geðklofin“ og leikurinn allur. Benedikt Karl er reyndasti leikarinn í hópnum, sérstaklega lærður í látbragðsleik ef ég man rétt, og fær góð tækifæri til að sýna listir sínar í sýningunni. Það er áhugavert að höfundarnir skuli vera harðari við karlana en konurnar í verkinu en niðurstaðan er skýr: hamingjan felst ekki í auði og frægð heldur er hennar að leita í hinu látlausa hversdagslífi – og í því að vera góður við mömmu sína.
Arnór, Ásgrímur og Óli Gunnar skrifuðu leikritið sem hópurinn allur og leikstjórinn, Björk Jakobsdóttir, ydduðu svo og þéttu. Það tekst svo vel að ekki er dauð stund allan tímann. Mér fannst þó útihlutinn betur heppnaður, einkum vegna þess að þar er ákveðin miðja, heiti potturinn, sem atburðir hverfast um, en inni er sviðið allt á breiddina, með eldhúsi, stofu og svefnherbergi og langur gangur þar á milli. Leikmyndin er verk Svanhvítar Theu Árnadóttur. Máni Svavarsson á hljóðmyndina sem er nokkuð groddaleg í stíl við verkið en lýsingin er í höndum Freys Vilhjálmssonar. Sniðugt var að leyfa persónum að fá sinn sérstaka ljóspoll til að segja frá áramótaheiti sínu, þau heit voru býsna fróðleg.
Það er óhæfa að Gaflaraleikhúsið skuli þurfa að leita skjóls í Borgarleikhúsinu. Hafnfirðingar þurfa undir eins að reka af sér slyðruorðið og skaffa þeim gott húsnæði í Hafnarfirði þar sem þau eiga heima.
Silja Aðalsteinsdóttir