Eftir Ursula Andkjær Olsen, í þýðingu Brynju Hjálmsdóttur.

Úr Tímariti Máls og menningar, 3. hefti 2024

 

Í tilefni af kvöldstund með Ursulu Andkjær Olsen birtum við hér ljóðið „Ég heiti biðstofa“ úr 3. hefti 2024.
Ursula mun lesa úr verkum sínum og ræða um ljóðlistina, þann 18. október 2024, kl. 20.00 í Mengi og í sömu viku kemur út glæný þýðing Brynju Hjálmsdóttur á bókinni Skartgripaskrínið mitt (Mit smykkeskrin) hjá Benedikt bókaútgáfu.

 

 

ÉG HEITI BIÐSTOFA

 

Nafndrukkin, nafnlaus, ég vil nudda þessum

flokkunum saman: Þannig kviknaði eldurinn.

 

Mér er heitt, á meðan þér er kalt: Þannig kviknaði eldurinn.

 

Ég ber nafn, ég er með

brunn í enninu og ekkert til að byrgja hann með:

Þannig kviknaði eldurinn.

 

~

 

Ég heiti Allt, þannig að þegar nafn mitt er nefnt, gerist allt saman.

 

Eins og glæný túlkun á upphaflegri kenningu

ákvarða ég nefnilega sjálf mitt merkingarlega innihald,

hendur Guðs.

 

Ég heiti Ekkert, þannig að þegar 1000 nöfn eru nefnd, þá kem ég,

sama hvað, þá kem ég.

 

Allt verður þykkt og RED, allt mun streyma.

 

~

 

Ég heiti Biðstofa,

augun í mér, lungun í mér heita Biðstofa,

hjartað í mér

 

með forhólfi, hjartahvolfi, hliðargátt,

flókið fyrirbæri

 

heitir Biðstofa,

 

allt heila klabbið kemur og fer, allt flýtur.

 

Ég meðhöndla sársauka minn

eins og fullorðin manneskja, ég geri ekki neitt.

Ég sit hérna, ég er með útsýni, ég geri ekki neitt.

 

Öll ílát tengjast.

 

~

 

Ég er girðingin, sem girðir af hið nafnlausa, friðlandið, alheiminn, mín

fjarlægu iður.

 

Ég get komið í heimsókn eins oft og ég vil.

Enginn getur heimsótt mig.

 

~

 

Hann heitir Regn Á Sprungnum Vörum,

kóbaltbláu fötin hans heita Regn Á Sprungnum Vörum,

landið sem hann gengur á, hvernig hann er hár og grannur, eins og hnífsblað

yfir fólki, heitir Kóbaltblátt Regn Á Sprungnum

Orðum, orð hans falla eins og Kóbaltblátt Regn:

 

”Le monde occidental est perverti. Pas les individus. La culture est
pervertie, pas l’individu.” *
(Hawad)

 

Ég þvæ mér um hendurnar, um hálsinn og andlitið,

utan frá, ég leyfi tunglinu að snerta það sem ekki má (skal)

má ekki (skal) vera inni í

 

gáttahólfi, hjartahólfi, hliðarhólfi.

 

hjartahvolfsins

~

Þau heita Óumflýjanlegt,

kona þeirra og maður þeirra með gulu augun heita Óumflýjanlegt,

börn þeirra með hálfu andlitin heita Óumflýjanlegt,

hús þeirra, með einu herbergi, og land þeirra heita Óumflýjanlegt,

hundur þeirra, föt þeirra, raddlaus meindýr þeirra heita Óumflýjanlegt,

nafn þeirra,

nafn þeirra,

hefnd þeirra er Óumflýjanleg.

 

Líf hefur ekki sömu merkingu fyrir þeim eins og fyrir okkur.

Líf hefur aldrei sömu merkingu. Má ekki (skal).

 

~

 

Þau heita Nafnlaus,

orðlausa ræðan þeirra heitir Nafnlaus,

eiginmaður þeirra heitir Nafnlaus,

eiginkona þeirra, börn þeirra heita Nafnlaus

hús þeirra, hjörtun í þeim án hólfa heita Nafnlaus,

geta ekki bankað,

endurkoma þeirra verður Nafnlaus.

 

Ég skreyti mig með

hyldýpi máluðu á ennið, ég er gæðameðvitað svín.

 

Ég ligg á svitaútsaumi þeirra.

 

~

Ég heiti Meinlaus,

það sem ég geri heitir Meinlaust,

það sem ég drekk á hverjum morgni kallast Meinlaust,

það sem ég borða hvert kvöld kallast Meinlaust.

 

Ég vildi að ég væri löng og myrk og alvarleg, ég þarfnast þess.

Gjöreyðingar mínar eru óteljandi nú þegar.

 

~

Ég sæki nafn úr umhverfinu. Frá einhverjum stað sem er svo nafndrukkinn að hann

samsvarar því nafndrukkna í mér

 

Ég nefni staðinn eftir sjálfri mér. Stað sem er svo nafnlaus að hann

samsvarar því nafnlausa í mér.

 

Við ferðumst um, hver með sín fjarlægu iður, og köstum

fram ljósi. Ó, að vera sæt þegar bálið kemur.

 

~

 

Ég heiti Biðstofa.

 

Hérna má ég alveg vera leið yfir því.

Hérna verð ég að vera leið yfir því.

Héðan slepp ég ekki fyrr en ég er búin að vera leið yfir því.

~

Ekki kjarni, biðstofa.

 

Hjartað er ómerkilegur staður sem hlutir streyma í gegnum.

 

~

 

Þú, sem ég hef notfært mér (án þinnar vitneskju) til að tákna sjálfa mig

eins og það sem ég er, þinn ósýnilegi þjónn.

 

Ég hef notfært mér þig, minn ósýnilegi, til að tákna sjálfa mig eins og

það sem ég er, Allt og Ekkert.

 

Ég stend í þakkarskuld við þig, þjónn, þegar ég tákna mig sýnilega,

nafndrukkin, Allt.

 

Ég hef notfært mér Ekkert til að kalla sjálfa mig það sem ég er, þjónn, þannig

að þegar nafn mitt er nefnt, þá gerist allt saman.

 

Ég stend í þakkarskuld við þig, ósýnilegi, þegar ég kalla sjálfa mig Allt, án þinnar, minnar

vitneskju, þannig að þegar nafn mitt er nefnt.

 

Ég hef notfært mér þig, án þinnar vitneskju, til að geta kallað sjálfa mig

Ekkert, þannig að þegar 1000 nöfn eru nefnd, þá kem ég, þá kem

ég.

 

Þú

 

~

 

Hræðist aldan sína eigin upplausn, eða líður henni eins og öllum öðrum?