Nýjustu töfrar og vísindi heitir glæný sýning Lalla töframanns (eða Lárusar Blöndal Guðjónssonar) sem var frumsýnd í Tjarnarbíó í dag, og hún lofar að hún fái börn til að hugsa.

Lalli byrjar á að hita upp, fyrst sjálfan sig með nokkrum laufléttum töfrabrögðum þar sem einn hlutur verður skyndilega allt annar hlutur – til dæmis varð dálítill blaðsnepill að litlum bolta sem skoppaði upp og niður og engin leið að sjá hvernig það gerðist. Svo hitar hann salinn upp með dálítið viðameiri töfrabrögðum og þegar allir eru orðnir heitir getur hann gert allt sem hann vill með okkur – því salurinn var mjög reiðubúinn!

En þá hefur hann meiri áhuga á að sýna okkur hvernig töfrarnir tengjast vísindum, hvernig augun blekkja okkur af því að við sjáum það sem við höldum að við sjáum, það var ansi skemmtilegt. Svo kom að tilraunum með orkuna, einkum vindorku í ýmsum myndum. Hann sendi blöðrur á flug um salinn og eina þeirra alla leið „til tunglsins“! Hann gerði tilraunir með vindorku úr iðnaðarryksugu  og svo var komið að tryllitækinu „hljóð-og-höggbylgjuverpi“ sem Lalli bjó til alveg sjálfur og sem gat hreyft tjöld úr talsverðri fjarlægð og sent reykhringi alveg aftur á aftasta bekk.

Lokaatriðið var svo listilegt töfrabragð sem ung stúlka úr áhorfendahópnum, Dúna, tók þátt í af sönnum hetjuskap. Því má ekki lýsa með orðum því það verður maður að sjá!

Dúna beislaði sína eigin orku í töfrabragðinu en það sagði Lalli að væri það erfiðasta af öllu. Hann hefði sjálfur átt hræðilega erfitt með orkuna sína þegar hann var í skóla, hún var svo mikil. Og þá er erfitt að sitja kyrr og einbeita sér að fyrirbærum eins og bókstöfum – hvort var þetta A eða D eða H eða D? Þessi umræða í sýningarlok var afskaplega uppbyggileg og holl fyrir unga áhorfendur og hefði vel mátt koma fram fyrr, jafnvel vera þema í sýningunni sem heild, því að í lokin er athyglisgáfan kannski farin að bila hjá ungu fólki.

Öllum varð þó ábyggilega ljóst undir þessari fróðlegu sýningu að vísindi og töfrar eru samtvinnuð, oft jafnvel einn og sami hluturinn.

Silja Aðalsteinsdóttir

PS: Stúlkan á myndinni með Lalla er ekki Dúna.