Áttugasti árgangur Tímarits Máls og menningar hefur göngu sína á hefti þar sem ljóðið er á fyrsta farrými. Laumufarþegar Hauks Ingvarssonar opna heftið en hann hlaut Bókmenntaverðlaun Tómasar Guðmundssonar síðastliðið haust fyri Vistarverur. Við birtum einni ljóðið „gormánuð“ eftir Brynjólf Þorsteinsson sem hreppti Ljóðstaf Jóns úr Vör á dögunum. Sunna Dís Másdóttir fer svo með lesendur í heillandi lestarferð um ljóðaárið 2018. Sú fer, og sá fjölbreytti skáldskapur sem hér birtist, sýnir vel gróskuna sem er í ljóðlendum um þessar mundir.
Hinn þráður hefisins er grasrótarútgáfa og skrifgjörningurinn sjálfur. Kristín Svava Tómasdóttir kortleggur starfsemi ljóðaseríunnar. Meðgönguljóða sem var um skeið frjór vettvangur fyrir nýja höfunda en settur var endapunktur við á síðasta ári. Kristín Ómarsdóttir tók rithöfundinn Vilju-Tuuliu Huotarinen tali í upphafi síðasta árs og birtist viðtalið hér. Kristín hefur verið dugleg að minna okkur á mikilvægi erlendra listamanna sem setjast hér að um stund og áhrif þeirra á okkar lokaða vistkerfi. Hhermann Stefánsson skrifar heilræði til ungskálda og Auður Jónsdóttir tekur í sama streng í fyrstu hugvekju sinni, en hún mun skrifa okkur á þeim vettvangi út árið.
Við gægjumst einnig yfir í aðrar listgreinar en myndlistarmaðurinn Haraldur Jónsson birtir þrjá texta úr lengra verki og er sömuleiðis höfundur kápumyndarinnar, og Davíð Hörgdal Stefánsson varpar hrífandi ljósi á feril og höfundarverk tónskáldsins Jóhanns Jóhannssonar sem féll frá langt fyrir aldur fram á nýliðnu ári.