Það er orðið talsvert langt síðan Leikfélag Reykjavíkur frumsýndi verkið X eftir Alistair McDowall á Nýja sviði en atvikin hafa hagað því þannig að ég sá það ekki fyrr en í gær. Jón Atli Jónasson hefur gert á því ágæta þýðingu; hæfilega geimskipslega leikmynd og búninga hannaði Sigríður Sunna Reynisdóttir en ágeng lýsingin er verk Fjölnis Gíslasonar. Hljóðmyndin er ennþá ágengari og frekari, hana á Þorbjörn Steingrímsson en Una Þorleifsdóttir stýrir öllu saman af góðu innsæi.
Það er mikið rætt og ritað um einangrun og einmanaleika manneskjunnar á okkar annasömu samfélagsmiðlatímum. Við getum verið „í sambandi“ við allan heiminn á augabragði en erum svo ekki í „raunverulegu“ sambandi við neinn. Góður staður til að kalla fram tilfinningu um einangrun er geimstöð á stjörnu lengst úti í geimi, að minnsta kosti í huga breska leikskáldsins Alistairs McDowall. Hann vill sýna áhrif innilokunar á persónur sínar og setur þær niður í strandað geimskip á Plútó og lætur þær missa allt samband við „móður jörð“. Tæknimaður hópsins, Clark (Björn Stefánsson), fullyrðir að allur þeirra tæknibúnaður virki fullkomlega, og gefur í skyn að það sé eitthvað alvarlegt að á jörðu niðri. Kapteinninn þeirra um borð, Ray (Bergur Ingólfsson), deyr á voveiflegan hátt og vísindakonan Gilda (Sólveig Arnarsdóttir) tekur treg við af honum, henni líður æ verr þarna uppi; vísindamaðurinn Cole (Sveinn Ólafur Gunnarsson) tekur fyrstur eftir því að klukkan um borð gengur vitlaust og hefur af því þungar áhyggjur, en birgðavörðurinn Mattie (Þórunn Arna Kristjánsdóttir) reynir að vera hress og kjaftfor.
Við erum í óræðri (en ekki endilega fjarlægri) framtíð því það kemur fram í samtölum persónanna um borð að jörðin er eiginlega dauð, öll dýrin og gróðurinn, það eina sem var eftir þegar þau fóru burt var mannskepnan – og nú virðist ekki nást samband við hana. Smám saman missa þau fótanna, hvert af öðru, og við áhorfendur vitum ekki lengur hvað er hvað, hvar við erum og hvaða fólk þetta er. Aðeins eitt er víst: óhamingjan er allsráðandi.
Gilda er miðja verksins og Sólveig Arnarsdóttir lék hana af fágætri innsýn, skilningi, næmi og tilfinningu. Hver kækur, hver hreyfing, hver breyting á raddstyrk og tóni var markviss og áhrifamikil. Hún var heldur ekki ein, félagarnir um borð voru hver sín skýra og afmarkaða persóna; Clark Björns var galgopinn í hópnum, sprækur strákur en nokkuð villtur, nennir helst ekki að vera í fötum; Cole Sveins Ólafs kaldur og íhugull, þolir ekkert „óraunverulegt“; Ray er kominn út á ystu nöf þegar við komum um borð og Bergur sýndi geðveiki hans á sannfærandi hátt. Mattie Þórunnar Örnu er ekki einhlít persóna og skipti léttilega á milli persónuleika. Loks leikur Kría Valgerður Vignisdóttir barnið dularfulla sem birtist á ögurstundu alveg hjartaskerandi vel. Samleikur þeirra Kríu og Sólveigar var einstaklega fallegur.
X er margslungið verk sem má túlka á ólíkan hátt eftir því hvaða veruleika við sjáum í því. Hvort sem við erum á Plútó eða ekki er innilokun manneskjunni hræðilega óholl og hættuleg. Og ef eitthvað getur bjargað okkur er það kærleikurinn.
Silja Aðalsteinsdóttir