Það var troðið á söguloftinu hjá Einari Kárasyni í gærkvöldi á Landnámssetrinu í Borgarnesi. Sögumaður okkar gat ekki gengið alveg frjálslega um gólf eins og hann er vanur vegna þrengslanna. En hann lét þau ekki á sig fá, sagði bara sína sögu, íhugull, nákvæmur, skýr og áheyrilegur.
Ég var nokkuð spennt að vita hvernig hann flytti síðustu nóvelluna í safni sínu, skáldsöguna Heimsmeistara sem kom út fyrir síðustu jól, upp á svið vegna þess að hún er allólík þeim fyrri. Í stað klassískrar sögumannsraddar sem er honum svo töm beitir Einar þar vitundarflæði, hverfur inn í hug persónu sinnar, hins sérstæða, mannfælna Bandaríkjamanns, og horfir á heiminn þaðan.
Enda hóf Einar frásögn sína sem hann sjálfur, höfundur í leit að efni. Hann sagði okkur í fréttamannstón frá tilkomu, uppeldi og ferli söguhetju sinnar fram yfir aldamót og kom þar margt á óvart, bæði skemmtilega og ekki. En smám saman og án þess að hattaði fyrir flutti Einar sig inn í huga viðfangsins og lýsti þaðan því sem gerðist í lífi þess. Hann notar þó aldrei fyrstu persónu, segir aldrei „ég“ (eins og honum væri þó í lófa lagið) heldur verður hann þessi fjarræna, einkennilega, smámunasama, sjálfmiðaða og æ vænisjúkari manneskja, hugsar hennar hugsanir, dregur hennar ályktanir, segir okkur áheyrendum aldrei hvernig við eigum eða ættum að bregðast við hugsunum heimsmeistarans og gerðum af því að það er ekkert annað til en viðbrögð hans. Þetta varð alveg dáleiðandi. Og það var ekki fyrr en alveg í lokin að fréttamaðurinn kom aftur og tilkynnti lát persónu sinnar og bjó þar raunar til mynd sem mun sitja lengi í minninu.
Sæunn Kjartansdóttir sálgreinir væri líklega ekki í vandræðum með að greina sálræn vandræði heimsmeistarans. Ekki aðeins var hann föðurlaus heldur vann móðir hans beinlínis myrkranna á milli til að komast af með börnin sín tvö og drengurinn kynntist aldrei hlýju, nánd og eðlilegum atlotum á „árunum sem enginn man“. Fullorðinn maður virðist hann samkvæmt sögu Einars hafa forðast náið samneyti við fólk og ekki skilið áhuga kvenna á honum sem kynferðislegan. Við fáum sterka mynd af einangruðum manni, læstum inni í eigin snilligáfu sem gefur honum afar takmarkaða hamingju þrátt fyrir heimsins hoss.
Stóra sagan af því hvernig hann verður fyrir hrikalegu einelti af hálfu stjórnvalda lands síns, sjálfra hinna miklu Bandaríkja, er svo í senn skelfileg lýsing á misbeitingu valds og algerlega óskiljanleg. Voru smámennin sem ofsóttu heimsmeistarann virkilega svona ófær um að sjá sína eigin öfund og heimsku í viðbrögðum sínum við óþekkt unga mannsins sem bara þráði að glíma við þá bestu í sinni íþrótt? Þá löngun skilja Íslendingar og buðu honum landvist og ríkisfang án þess að gera sér grein fyrir að með því reittu þeir stórveldið til reiði. Stórveldið gat vissulega ekki beitt sér gegn dvergríkinu með því að sprengja það aftur á steinöld en það beitti sér í ýmsu smálegu eins og Einar bendir á og eflaust á sá þáttur sögu heimsmeistarans, stórveldisins og dvergríkisins eftir að skýrast miklu nánar. Þar hefur Einar opnað Pandórubox.
Silja Aðalsteinsdóttir