Leikfélag Reykjavíkur frumsýndi í gær barnaleikritið Fíasól gefst aldrei upp á stóra sviðinu. Textinn er unninn upp úr fimm geysivinsælum bókum eftir Kristínu Helgu Gunnarsdóttur sem komu út á tímabilinu 2004–2018, og ekki er það síst síðasta bókin, samnefnd leikverkinu, sem setur svip sinn á sýninguna. Leikgerðina unnu þær Maríanna Klara Lúthersdóttir og Þórunn Arna Kristjánsdóttir sem einnig er leikstjóri. Bragi Valdimar Skúlason hefur samið fjölda laga og textana við þau líka, tónlistarstjóri er Karl Olgeirsson en í hljómsveitinni eru börn úr Skólahljómsveitum Vesturbæjar og Miðbæjar. Ærslafullir dansarnir eru eftir Valgerði Rúnarsdóttur og fjölbreytta búninga fyrir öll tækifæri hannar Júlíana Lára Steingrímsdóttir – hún fékk að sleppa ímyndunaraflinu laflausu á hrekkjavökunni! Ævintýraveröld Evu Signýjar Berger hringsnýst á hringsviðinu: litríkur og spennandi heimur þar sem finna má heimili söguhetju á tveim hæðum, kennslustofu og opið svæði sem nýtist bæði fyrir inni- og útisenur og þar sem atburðir gerast á ólíkum tímum sólarhrings. Þá skiptir lýsingin máli og fumlaus hönnun hennar er í höndum Pálma Jónssonar.
Sjálfsagt eru þeir ekki margir á þessu landi sem ekki þekkja Fíusól, hvort sem þeir hafa lesið hana sem krakkar eða lesið sjálfir upp úr bókunum fyrir börn sín eða barnabörn. Tvær ungar leikkonur skipta hlutverkinu á milli sín og í gær var það Hildur Kristín Kristjánsdóttir sem þeyttist um sviðið, ýmist ofsaglöð, æst, fokreið eða döpur, messaði hátt og skýrt yfir troðfullum sal hrifinna gesta, dansaði og söng. Hún var gersamlega hrífandi. Óttar Kjerúlf Þorvarðarson lék í gær besta vininn, Ingólf Gauk og var sannfærandi andstæða og samstæða við stelpuna.
Fíasól er yngsta dóttir Láka pabba (Sveinn Ólafur Gunnarsson) og Dúnu mömmu (Birna Pétursdóttir), eldri eru Bidda (Rakel Ýr Stefánsdóttir) og Pippa (Bríet Sóley Valgeirsdóttir lék hana í gær). Þó að þetta sé hamingjusamt heimili er það ekki beinlínis rósamt. Bæði er nú Bidda með unglingaveiki á allháu stigi og Lolli kærasti (Sölvi Dýrfjörð) eiginlega fluttur inn og svo er aldrei kyrrt þegar Fíasól er í húsinu. Marteinn kennari (Vilhelm Neto) er hress og beitir spennandi kennsluaðferðum en skólinn er samt ekki að öllu leyti griðastaður. Bæði er stærðfræðin Fíusól erfið og svo eru ekki allir í bekknum vinveittir henni; þar eru inn á milli andstyggileg hrekkjusvín eins og Daddi (Hlynur Atli Harðarson) og Tóti (Gunnar Erik Snorrason). En það sem Fíasól uppgötvar á leiðinni gegnum sýninguna er að þeim sem hrekkja og stríða líður kannski sjálfum illa og það þarf bara að taka á því.
Í leikverkinu er eins og í bókunum fjöldi uppákoma sem taka mislangan tíma og verða missterk eða minnisstæð, til dæmis varð ekki eins mikið úr „tækjalausa deginum“ og í bókinni. En aðalumfjöllunarefnið er það sama og í lokabókinni frá 2018, nefnilega samskipti Fíusólar við umboðsmann barna og stofnun baráttufélags fyrir réttindum barna, og það næst afbragðsvel. Félagsstofnunin sprettur af algerlega eigingjörnum hvötum, Fíasól vill bara fá að ráðstafa sínu aflafé sjálf! En orðrómurinn um hinn dularfulla umboðsmann fer eins og logi um akur í skólanum og áður en varir er Fíasól komin á kaf í mannréttindabaráttu skólasystkina sinna. Kjarni þeirrar baráttu snýst um vandamál óvinkonunnar Teddu (skínandi vel leikin af Rafney Birnu Guðmundsdóttur).
Þrátt fyrir mikinn fjölda leikara sem flestir voru börn og þrátt fyrir orkusprengjuna í miðjunni var furðu afslappaður bragur á sýningunni. Þar áttu þau sinn góða þátt Sveinn Ólafur og Birna í hlutverkum foreldranna, traust og örugg með sig en líka sæt og sjarmerandi. Og ég býð Birnu sérstaklega velkomna í Borgarleikhúsið þar sem ég hef ekki séð hana áður en minnist hennar með mikilli gleði úr sýningum LA á Akureyri. Þau voru meiri ólíkindatól Amma Gogó (Sigrún Edda Björnsdóttir) og Afi Donni (Bergur Þór Ingólfsson) en afar og ömmur hafa líka leyfi til þess! Krakkahópurinn var vel agaður, lék, söng og dansaði af lífi og sál.
Leiktextinn er vel gerður og afskaplega vel fluttur af ungum og eldri. Þórunn Arna leikstjóri hefur ekki síður lagt áherslu á orð en hreyfingar. Þetta skiptir máli því að það er skýr meining í verkinu frá höfundar hendi (þó að fyndnin og fjörið hafi oftast yfirhöndina) og hún þarf að komast vel til skila.
Söngtextar Braga Valdimars komust líka vel til skila og eru fjarskalega skemmtilegir eins og hans er von og vísa. Hann fer á kostum í laginu um stærðfræðiprófið: „Ef X plus þrír / er kvaðratrót af sjö plús sex / sem jafngildir ufsilon / hvað er þá X?“ Lögin eru sum keimlík en önnur standa vel sjálf. Ég spái því að „Draumaslóð“, sorgarlagið, þegar Fíasól og fjölskylda hennar verður fyrir því að missa heimilishundinn úr elli og lasleika, muni lifa áfram: „Allt leitar jafnvægis / allt á sinn stað / – stundum er gott að muna það.“ Og lokalagið fína, „Baráttusöngur barna“ fær vonandi að hljóma sem oftast um alla framtíð.