Íslenskt leikhús er yndi mitt en alltaf er samt gaman að sjá hvernig aðrir fara að. Ég fór um síðustu helgi í afskaplega vel heppnaða afmælisferð til London með dætrum mínum sem höfðu skipulagt allt með slíkum ágætum að ekki mínúta fór til spillis! Hér ætla ég þó að takmarka mig við leiksýningarnar sem við sáum.
Við flugum að heiman á föstudagsmorgni og lentum á Heathrow um hádegið. Þá finnst manni að maður sé kominn á áfangastað en það er misskilningur. Það tekur langan tíma að komast út af flugvellinum, átta sig á samgöngum, kaupa lestarmiða, finna rétta lest, og svo var talsvert langur gangur frá lestarstöðinni að hótelinu. En sem betur fer var fyrsta leiksýningin ekki fyrr en kl sjö um kvöldið og því náðum við með léttum leik.
Vandamál fótboltaþjálfarans
Þessi fyrsta sýning var á verkinu Dear England eftir James Graham, uppsetningu Ruperts Goold fyrir The National Theatre sem var á stóra sviðinu þar fyrr á þessu ári en er nú komin í „Vesturbæinn“ og sýnd í Prince Edward Theatre. Við vissum það eitt að verkið fjallaði um fótbolta og hefðum líklega ekki valið það, þrátt fyrir fína dóma og vinsældir, ef ekki vildi svo til að góðvinur okkar, leikarinn Gunnar Cauthery (Roland í Benjamín dúfu) leikur í því og hefði fengið sérstakt hrós gagnrýnenda fyrir vikið. En sýningin var meira en þess virði að sjá hana, hún var óvænt, skemmtileg, orkumikil, ástríðufull, prýðilega leikin og reyndist búa yfir hollum og umhugsunarverðum boðskap.
Verkið snýst um fótboltasnillinginn og þjálfarann Gareth Southgate sem Joseph Fiennes (William sjálfur í Shakespeare in Love) leikur. Hann tekur, tregur og niðurlægður, við enska landsliðinu árið 2016 þegar það hefur staðið sig „illa“ í landsleikjum í hálfa öld og hann gerir það kraftaverk á furðu skömmum tíma að búa til sterka liðsheild úr þessum þrjósku og sjálfstæðu einstaklingum. Hann beitir ekki hörðum aga, skömmum eða háði, hann byggir upp með manngæsku og skilningi. Í leikritinu fylgjumst við með því stig af stigi hvernig landsliðsmennirnir hænast að honum og læra að meta bæði hann og hjálparkokkinn hans, sálfræðinginn Pippu Grange (Dervla Kirwan).
Á sviðinu eru margir nafngreindir fótboltamenn og ég mundi vissulega eftir einstaka liðsmanni, til dæmis Harry Kane (Will Close, fáranlega líkur Harry), því ekki hefur maður komist hjá því að horfa á fótboltaleiki, en flestir voru þeir mér algerlega ókunnir. Það er rokna spennandi samt að fylgjast með þeim og hreyfingamunstrin á sviðinu í fjöldasenum voru töfrandi – eins og sérkennilegur dans eða karlmannlegur nútímaballett. Gunnar Cauthery lék m.a. fyrrverandi fótboltastjörnuna Gary Lineker, knattspyrnulýsanda BBC, og bjó til lifandi mynd af honum. Ennþá meira fjör var þó að sjá hann túlka Boris Johnson!
Bestur var Joseph Fiennes í aðalhlutverkinu, ótrúlega líkur Southgate af myndum að dæma, blessunarlega skýrmæltur og afar aðlaðandi í framgöngu og fasi. Gareth Southgate er ennþá þjálfari enska landsliðsins þannig að þetta er ekki liðin saga heldur saga sem heldur áfram, það gerir hana líka einkar forvitnilega. Gunnar sagði okkur að Southgate hefði ekki komið á sýninguna ennþá en sent dóttur sína sem hefði verið hæstánægð. Ég get vel ímyndað mér hvað áhugamenn um fótbolta hafi mikla skemmtun af þessari sýningu, ekki síst heimamenn, og mæli innilega með henni fyrir alla sem hafa áhuga á fótbolta og vandamálum stórra liðsheilda!
Vandamál einkalífsins
Daginn eftir lá leiðin í Ambassadors-leikhúsið að sjá gamla klassík, Private Lives eftir Noël Coward. Aðalhlutverkin voru í höndum tveggja þekktra og vinsælla leikara, Patriciu Hodge (Amanda) og Nigel Havers (Elyot), og húsið var troðfullt af heimamönnum sem margir voru nokkuð við aldur (ekki margir á mínum háa aldri samt!). Amanda og Elyot eru bæði gift aftur og eru komin í frí með sínum nýju mökum. En þá vill svo til að þau eru í íbúðum hlið við hlið á hótelinu með samliggjandi svölum og það veldur heilmiklu veseni, að sjálfsögðu. Howard skrifaði leikritið tæplega þrítugur og lék sjálfur Elyot í fyrstu uppfærslunni, árið 1930, á móti vinkonu sinni á sama aldri. Leikararnir í nýju uppsetningunni eru allmiklu eldri sem setur annan svip á verkið en eflaust var ætlunin. En þau Hodge og Havers kunnu sannarlega sitt fag og Natalie Walter og Dugald Bruce-Lockhart stóðu sig vel sem nýju makarnir. Verkið er bráðfyndið og stundum hefði ég alveg kosið að þau töluðu aðeins hægar til að geta betur notið meinlegra athugasemdanna. Tilfinning okkar allra þriggja var þó sú á eftir að sýningin hefði grætt á dálitlum skammti af ofurorkunni frá kvöldinu áður. Þetta er nokkuð dæmigerð hefðbundin sýning á klassískum gamanleik, ekkert gert til að uppfæra verkið – nema þá með aldri leikaranna.
Vandamál hljóðfræðingsins
Á sunnudögum er leikhúsfrí í London en á mánudagskvöldið fórum við í „gamla“ þjóðleikhúsið, The Old Vic, og sáum Pygmalion eftir George Bernard Shaw, fyrst sýnt 1913, leikritið sem fleiri þekkja líklega sem grunninn að söngleiknum My Fair Lady. Þetta er sagan um blómasölustúlkuna Elizu (Patsy Ferran) sem talar hryllilega lágstéttarmállýsku og verður nemandi hljóðfræðingsins Henrys Higgins (Bertie Carvel, Dalgliesh í nýju þáttunum eftir sögum P.D. James) til að læra að tala gott mál. Hún þarf að geta talað almennilega ensku til að fá vinnu í blómabúð, eins og hana dreymir um, en Higgins tekst svo vel upp að í fyrstu hástéttarveislunni er hún talin útlend, enginn Englendingur tali svona góða ensku! En er hún þá ekki orðin of fín fyrir blómabúðina?
Patsy Ferran var sannfærandi Eliza, óþolandi frekja í byrjun og töfrandi sjálfstæð stúlka í lokin. Bertie Carvel bjó til jafnóþolandi Higgins, algeran dóna sem hefur þó þann kost að hann er jafndónalegur við alla, háa jafnt sem lága! Mesti senuþjófurinn var John Marquez í hlutverki föður Elizu, Alfreds Doolittle. Hann kannast þeir við sem horfðu á seríuna um Martin lækni, þar leikur hann lögregluþjóninn seinheppna.
Í sem stystu máli: Þetta leikrit er snilldarlega hugsað og skrifað, hápólitískt verk um stéttaskiptingu og mismunun eftir uppruna, og sýning Richards Jones er markviss, hröð, óstjórnlega fyndin og algerlega frábær! Stewart Laing gerir sviðið sem hvað eftir annað kom á óvart með óvæntum tilfærslum veggja og gólfs fram og aftur. Og búningarnir voru frá ritunartíma verksins, útpældir, fallegir og skemmtilegir.
Sagan um listamanninn sem heillast af sköpunarverki sínu er eldgömul, Óvíd segir hana til dæmis í Ummyndunum sínum fyrir tvö þúsund árum. Þar heitir listamaðurinn einmitt Pygmalion, honum finnst konur haga sér hneykslanlega og sker út kvenlíkneski úr fílabeini til að eignast fullkomna konu. Svo verður hann svo ástfanginn af styttunni að Venus sér aumur á honum og lætur hana lifna við. Á síðari tímum er kvikmyndin Pretty Woman (1990) líklega frægasta endurgerðin. En Shaw ætlaðist aldrei til að Eliza og Henry Higgins næðu saman – hann vildi fyrst og fremst gera hana sjálfstæða og sterka manneskju og þannig er hún einmitt í uppsetningu Richards Jones.
Silja Aðalsteinsdóttir