Fyrsta frumsýning leikársins var í Tjarnarbíó í gærkvöldi: Sund eftir Birni Jón Sigurðsson sem MurMur framleiðir. Hún setur fína viðmiðun fyrir framhaldið því hún er óvænt, unnin af hugmyndaríkri vandvirkni, fyndin og sexí.
Á sviðinu í Tjarnarbíó er sundlaug. Við sjáum hana að vísu ekki en sjáum og heyrum laugargesti steypa sér ofan í hana. Hún er í hvarfi við heitu pottana sem eru tveir, annar mun heitari en hinn sem er þægilegur pollur til að slaka á, spjalla, daðra og dorma í. Þetta eru fallegir pottar og smart, eins og þau benda okkur á amerísku hjónin þegar þau koma í sund (Þórey Birgisdóttir, Andrean Sigurgeirsson), rosalega hrifin. Framar á sviðinu til vinstri er stórt fiskiker með ísköldu vatni. Ofan í það fara bara hetjur. Þetta ótrúlega svið er hugsað og hannað af Kristni Arnari Sigurðssyni og það tók sér léttilega aðalhlutverk í leiknum.
Upp á þetta svið veltast og byltast í upphafi eins og þungfær sjávarspendýr á landi, selir eða rostungar, fimm leikarar sem leika sér að því í framhaldinu að gera leikfimisæfingar, pósa, dansa, syngja og leika, allt eftir kröfum verksins. En um leið og sólin skín lamast þeir og leggjast flatir! Auk þeirra sem þegar voru nefnd eru á sviðinu Eygló Hilmarsdóttir, Erna Guðrún Fritzdóttir og Kjartan Darri Kristjánsson en yfir þeim ríkir sundlaugarvörðurinn, Friðrik Margrétar-Guðmundsson tónskáld, sem líka semur og sér um tónlist og skemmtilega hljóðmynd.
Við erum á gægjum í sundlauginni og fylgjumst með því sem þar gerist frá degi til dags og jafnvel fram á kvöld. Við sjáum þegar gamlar vinkonur (Eygló og Erna) hittast eftir langan aðskilnað og skiptast á upplýsingum um ævikjörin. Á þá upprifjun hlustar pilsaveiðari í neðri pottinum (Kjartan Darri) og ætlar aldeilis að notfæra sér upplýsingarnar í daðri sínu við konuna í opna sambandinu (Eygló) en er ekki eins útfarinn í viðreynslu og hann lætur. Kvenfólkið rýkur upp til handa og fóta þegar maður (Kjartan Darri) kemur með ungbarn í sund og sagan af tilurð þess var bæði fyndin og sorgleg. Atriðið með amerísku hjónunum var drepfyndið en ég gæti trúað að fleiri en ég yrðu jafnvel ennþá hrifnari af söngatriðinu í gufubaðinu. Þau fengu öll að láta ljós sitt skína og mátti ekki á milli sjá hvort þeim var eðlilegra að leika eða dansa.
Sund er kynnt sem súrrealískt dansleikhús og það er hárrétt skilgreining. Kristinn Arnar sér leikurunum líka fyrir glæsilegum baðfötum, einkum þó stúlkunum, og þau bjuggu til alveg ótrúlega fallegar myndir eða tableaux í uppstillingum í lokin. Andrean sér um kóreógrafíuna sem var samfellt listaverk allt í gegn og Fjölnir Gíslason ljósahönnuður átti sinn góða þátt.
Birnir Jón leikstýrir verki sínu líka og má vera hreykinn af. Íslendingar sem stunda sund – og allir hinir líka – munu kannast við margt í þessu verki og skemmta sér konunglega.