Arndís Þórarinsdóttir: Kollhnís.
Mál og menning 2022. 269 bls.
Úr Tímariti Máls og menningar, 2. hefti 2023.
„Allar hamingjusamar fjölskyldur eru eins, en sérhver óhamingjusöm fjölskylda er óhamingjusöm á sinn einstaka hátt.“ Þessi fleygu upphafsorð Önnu Kareninu varpa annars vegar ljósi á hversu algengt það er að fjölskyldur glími við flókin mál og erfiðleika innan sinna vébanda. Hins vegar eiga þau við einangrunina sem fólk upplifir þegar það gengur í gegnum slíka erfiðleika. Þrátt fyrir að víða sé fólk á öllum aldri að ganga í gegnum svipaðar eða að minnsta kosti sambærilegar áskoranir, upplifir það sig eitt í heiminum og eitt gagnvart vandanum sem þau standa frammi fyrir. Fullorðið fólk hefur oftar tólin til að glíma við flóknar aðstæður en börn sem ganga í gegnum erfið tímabil heima fyrir hafa færri bjargráð og takmarkaðri þroska til að takast á við slíkt. Það leysir kannski ekki vandann að vita af fleirum í sömu stöðu en það getur hjálpað fólki að hjálpa sér sjálft ef það getur speglað sig í öðrum í sambærilegum aðstæðum.
Verðlaun og tilnefningar
Kollhnís eftir Arndísi Þórarinsdóttur, saga um fimleikastrákinn Álf úr Kópavogi, hlaut í upphafi árs Íslensku bókmenntaverðlaunin í flokki barna- og unglingabóka. Arndís er afkastamikill og margverðlaunaður rithöfundur og gaf út sína fyrstu bók árið 2011. Þekktust er hún sjálfsagt fyrir að vera höfundur Brókaflokksins um Nærbuxnaverksmiðjuna eins og hún kallar hann. Hún hefur fimm sinnum verið tilnefnd til íslensku bókmenntaverðlaunanna, oftast í flokki barna- og unglingabóka. Tvisvar sinnum hefur hún hlotið verðlaunin, auk tilnefninga til fjölda annarra viðurkenninga á borð við barna- og unglingabókmenntaverðlaun Norðurlandaráðs. Flestir lesendur hennar eru börn og unglingar en hún gaf einnig út ljóðabók árið 2020. Í fyrri bókum hennar um nærbuxnaverksmiðjuna er eins og gefur að skilja mikið um ærsl og sprell en í Kollhnís kveður við alvarlegri tón. Kafað er í sálardjúp stráks við upphaf unglingsáranna og þroskaferli hans.
Fjölskylda eins og allar hinar
Bókin fjallar um Álf, ungan strák í Kópavoginum, og fjölskyldu hans. Þetta er vísitölufjölskylda að mörgu leyti; foreldrar með tvö börn og amma sem passar öðru hvoru. Helstu áskoranirnar sem Álfur stendur frammi fyrir eru hvort honum takist að ná markmiðum sínum í fimleikum og komist í keppnisferð til Suður-Ameríku, eða hvernig árangri hann og vinur hans ná með myndböndum á samfélagsmiðlum. En eins og svo oft vill verða er fjölskyldulífið ekki alveg slétt og fellt. Læknar hafa nýlega tilkynnt foreldrum Álfs að Eiki litli bróðir hans sé með einhverfu. Álfur þykist hins vegar vita að það er ekki neitt að Eika, maður þarf bara að kunna á honum lagið. En þetta er ekki það eina sem er skrýtið við fullorðna fólkið. Það er líka eins og allir nema Álfur séu búnir að gleyma Hörpu, móðursystur hans, sem er ekki í neinu sambandi við systur sína. Álfi finnst þetta ósköp einfalt, Eiki er ekkert veikur, það þarf bara að kunna á dyntina í honum og Harpa er svalasta frænkan af þeim öllum. Dagsdaglega leggur hann sig þó helst eftir því að njóta samverunnar með besta vini sínum, Ragnari. Hann er alltaf aðeins vinsælli og hæfileikaríkari en Álfur, að minnsta kosti að mati Álfs.
Með skandínavískum blæ
Kollhnís er raunsæ saga sem fjallar um alveg „venjulega fjölskyldu“ svo langt sem það nær, sem í raun er óvenjuleg á einstakan hátt í anda Tolstoys. Sagan sver sig í ætt við félagslegt raunsæi Skandínavískra barnabóka sem voru vinsælar á Íslandi á áttunda og níunda áratugnum. Barnungum lesendum er gefið færi á að lesa um flókna hluti á borð við fíkn, fjölskylduvanda og fordóma frá sjónarhóli ungra aðalpersóna. Bókinni er ætlað að hjálpa hinum unga lesanda að átta sig á hvað er að gerast og hvernig best er að vinna úr flóknum aðstæðum sem komið geta upp, með því að sýna þeim börn í sömu stöðu en ekki segja þeim hvernig þau eiga að haga sér. Þetta einkenndi barnabókaútgáfu upp úr 1970 á Íslandi, með verkum eins og Mamma, pabbi, börn og bíll eftir Anne-Cath Vestly og sögurnar um Elvis eftir Mariu Gripe. Við höfum oft tilhneigingu til að vilja hlífa börnum við flóknum málum, ekki að sýna þeim viðkvæm börn og óviss, heldur sjálfsörugg og ráðagóð börn, líkt og Ronju eða Randalín. En eins og við vitum gengur ýmislegt á í fjölskyldum og það er virðingarvert af höfundi að leyfa skilningsferli aðalpersónunnar að vera í forgrunni. Í þessu tilviki er það einhverfa og viðbrögð samfélagsins við einhverfum einstaklingum sem valda flækjunni.
Sálin hans Álfs míns
Það er einhverfugreining Eika sem setur af stað aðalatburðarrás bókarinnar. Í uppnámi eftir fréttir af greiningunni ræða foreldrar Álfs og Eika ýmsa möguleika í stöðunni og gera sitt besta til að ná utan um ástandið. Þau vita ekki enn sjálf hvaða áhrif það mun hafa á aðra í fjölskyldunni að eiga barn með taugaþroskaröskun. Í hamaganginum ferst það fyrir að halda Álfi upplýstum um gang mála og hann heldur því lengi vel að fjölskyldan sé að undirbúa sig undir að flytja til Grundarfjarðar. Ógnin sem steðjar að stafar ekki beint frá greiningu Eika, heldur misgáfulegra viðbragða heimsins við henni og samskiptaleysi innan fjölskyldunnar.
Á eigin vegum
Ferlið sem fjölskyldan gengur í gegnum er sjálfsagt kunnuglegt fyrir marga aðstandendur einhverfra og taugsegin fólks, það er að segja einstaklinga með taugaþroskaraskanir. Greiningin sjálf er ákveðið áfall og felur í sér sjúkdómsvæðingu þó að sá eða sú sem greinist breytist ekkert við hana. Eiki er löngu kominn á þann aldur að hann eigi að vera farinn að tala og neitar að borða nema hann fái matinn sinn skreyttan með kökuskrauti. Það breytist ekki við greininguna en hún gerir aðstandendum hans erfiðara fyrir að stinga höfðinu í sandinn.
Síðustu misseri hefur mikið verið rætt um framsetningu fatlaðra í sviðslistum og mikilvægi þess að upplifa allan regnboga mannlífsins gegnum spegil listanna. Það er ekki sama hvernig það er gert og oft falla höfundar og annað skapandi fólk í gryfjur á borð við að gera fólk með taugaþroskaraskanir að einvíðum illmennum eða allt að því yfirskilvitlega vitrum galdraverum. Þessi í stað ættu þau að fá að vera fólk á eigin forsendum, fjölbreyttar persónur alveg eins og fólk með dæmigerðan taugaþroska. Síðan er einnig hætt við að höfundar veigri sér við að fjalla um fólk með fatlanir, hvort sem þær eru líkamlegar eða andlegar í stað þess að skrifa um það eins og alla aðra. Í Kollhnís er lögð mikil áhersla á að Eiki sé bæði venjulegur bróðir og sonur, sem er einhverfur, og að eitt þurfi ekki að útiloka annað. Arndís gætir sín á að predika ekki yfir lesandanum, heldur leyfir honum að fylgjast með könnunar- og uppgötvunarferli aðalpersónunnar.
Hver vegur að heiman er vegurinn heim
Sagan er sögð í fyrstu persónu út frá sjónarhorni Álfs og mótast af hans heimssýn og sýn á fólk og atburði. Í uppbyggingu sögunnar eru nokkrir þræðir sem vinnst ofan af og spurningar sem krefjast svars. Hvers vegna Harpa og systir hennar tala ekki lengur saman, hvort Álfur og Ragnar komist í fimleikaferðina til Brasilíu og hvort strákarnir þurfi að flytja til Grundarfjarðar með foreldrum sínum vegna greiningar Eika. Aðalsöguþráður bókarinnar er þó þroskasaga Álfs, frá barnslegri fullvissu, gegnum efann sem fylgir því að kynnast flóknum heimi hinna fullorðnu og í átt að einhvers konar sátt. Höfundur er laginn við að láta lesandann sjá málin frá sjónarhorni Álfs, þrátt fyrir að lesendum verði fljótt ljóst, sér í lagi þeim þroskameiri, að ekki er allt með felldu. Það kemur smám saman í ljós að ekki nægir að horfa á málin með skilningi barnsins. Hægt og rólega bætir Arndís púslum á borðið svo hinar hliðar málsins birtast lesanda. Það er gert af næmni svo lesendum líður ekki eins og verið sé að tala niður til þeirra, heldur fá þeir að fylgjast með öllum litlu atriðunum sem breyta sýn Álfs. Þar er flest sýnt en ekki sagt. Álfur er óáreiðanlegur sögumaður og lesandinn áttar sig á því að sjónarhorn hans getur reynst bjagað. Fjarlægðin milli Álfs og heims fullorðna fólksins minnkar statt og stöðugt eftir því sem líður á bókina og Álfur lærir meira á heiminn í kringum sig. Sögulokin eru líka margþættari en svo að Álfur sætti sig einfaldlega við greiningu bróður síns og hætti að reyna að „laga“ hann. Hann áttar sig frekar á því að einstaklingar með taugaþroskaraskanir eru víða, jafnvel meðal fólks sem hann lítur upp til. Hann áttar sig einnig á því að fólkið sem hann taldi vera með allt á hreinu og hafa öll völdin eiga líka sína djöfla að draga, eins og foreldrar hans eða besti vinur.
Eitthvað fyrir alla
Í sögunni eru mörg skemmtileg augnablik sem höfða bæði til fullorðinna og barna. Sem dæmi má nefna þegar hin taugatrekkta móðir Álfs grípur til þess ráðs að setja alla fjölskylduna á nýtt mataræði. Hún úthýsir öllu sem inniheldur glúten og mjólkurvörur en útbýr þess í stað græna hristinga fyrir alla í morgunmat. Þetta er skondið bæði fyrir börn og fullorðna, en á mismunandi hátt. Því má segja að í sögunni megi finna tvíþætt ávarp, í stað þess að sagan sé sett fram eingöngu á forsendum barnsins. Annað dæmi um slíkt er saga Hörpu, frænku Álfs. Öllum lesendum verður strax ljóst að hún á við einhvers konar vandamál að stríða en eldri lesendur átta sig líkast til fyrr á því hvernig er í pottinn búið. Hápunktur frásagnarinnar tengist vandræðum Hörpu og felur í sér spennandi sögu þar sem Álfur fær tækifæri til að vera hetja, en fyrir fullorðna lesendur bætist við þá sögu önnur vídd í krafti skilnings á fíkn og þunglyndi. Sögumaður tekur sér stöðu með barninu og miðar frásögnina við unga lesendur, en felur einnig í sér skilaboð og smáatriði fyrir fullorðna sem ef til vill eru barninu hulin. Það er ekki bara grínið í bókinni sem höfðar bæði til fullorðinna og barna. Skilningsferlið sem Álfur gengur í gegnum við að sætta sig við greiningu bróður síns er ekki síður áhrifaríkt fyrir fullorðna einstaklinga.
Verðlaunabækur og aðrar bækur
Barnabækur eru áhugaverðar að því leytinu til að neytendur þeirra eru ekki sömu og kaupendur. Þeir sem lesa bækurnar og njóta þeirra eru ekki fullkomlega sjálfráðir yfir lesefninu og markaðurinn þarf frekar að höfða til fullorðinna kaupenda en barnungra lesenda. Það getur því verið áhugavert að skoða hvaða barnabækur hljóta náð fyrir augum markaðarins og jafnvel verðlaunanefnda með það í huga að þar eru ekki hinir ætluðu lesendur bókanna. Kollhnís hefur réttilega verið hrósað vegna þess að höfundur hennar veigrar sér ekki við flóknar tilfinningar og í henni er ekki talað niður til barna. Í Kiljunni kallaði Sunna Dís Másdóttir hana fullorðins-barnabók og það er kannski þar sem hnífurinn stendur í kúnni. Þetta er bók um barn en raunsæisleg sviðsmyndin og einlægar persónurnar skortir stundum töfra og spennu sem oft eru mikilvægir þættir í barnabókum sem ungir lesendur taka ástfóstri við.
Stútfull af vítamínum
Kollhnís er vönduð skáldsaga um barn. Höfundur skrifar af næmni um tilfinningalíf stráks á mörkum æsku og táningsaldurs þar sem áhyggjuleysi bernskunnar verður senn lagt að baki. Það er gaman að sjá fullorðið fólk í barnabókum sýna bresti sína og gefa börnum innsýn í mistökin sem það getur gert, án þess þó að gera lítið úr áhrifunum sem það getur haft á fjölskyldu þess, sér í lagi börn. Með þröngu sjónarhorni og óáreiðanlegum sögumanni sýnir höfundur lesandanum mikið traust og hann verður virkur þátttakandi í að skapa söguna. Bókin hefur að geyma skýran boðskap um fjölbreytileika, víðsýni og umburðarlyndi en nær að halda sig réttu megin við línuna með því að sýna lesandanum hvernig er í pottinn búið, án þess að boðskapurinn taki of mikið af frásagnargleðinni. Því er enn líklegra að eftir sitji lærdómur og meiri samkennd með öðrum.
Verðlaunin og athyglin sem bókin hefur fengið fram yfir aðrar barnabækur hefur vakið mig til nokkurrar umhugsunar um gildin sem liggja að baki mati fullorðins fólks á bókum sem það fær að velja fyrir aðra. Foreldrar kjósa líklega heilnæma fiskmáltíð og grænmeti fram yfir aðra rétti fyrir börnin sín, eða jafnvel grænan hristing. Barnabækur hafa mikið uppeldisgildi og geta verið frábært tól til að efla þroska og styrkja börn í tilfinningalegri úrvinnslu. Því má þó ekki gleyma að þær hafa einnig mikið afþreyingargildi þó smekkur barna sé stundum annar en fullorðinna