Enn einn smellurinn var frumsýndur í Tjarnarbíó í gærkvöldi, nú af leikhópnum Alltaf í boltanum, Óbærilegur léttleiki knattspyrnunnar eftir Ólaf Ásgeirsson og Svein Ólaf Gunnarsson. Leikararnir fimm eru allir karlar en á bak við eru konurnar: Viktoría Blöndal leikstýrir af sönnum krafti, Sólbjört Vera Ómarsdóttir sér um sviðsmynd þar sem goðið sir Alex Ferguson trónir fyrir miðju og viðeigandi búninga, Erna Guðrún Fritzdótt­ir um sviðshreyfingar og Ásta Jónína Arnardóttir og Juliette Louste um lýsinguna.

Þorleifur Aron, kallaður Doddi (Sveinn Ólafur Gunnarsson) er fullkomlega eðlilegur karlmaður á besta aldri fyrir utan það – eða einmitt vegna þess – að þegar Manchester United-leikir eru í sjónvarpinu getur hann alls ekki hugsað um annað. Knattspyrnan tekur völdin yfir huga hans og öllu atferli. Þetta hefur þegar valdið skilnaði hans og Silju (Birgitta Birgisdóttir í síma) og nú hefur hún eignast nýjan kærasta, pípulagningamanninn Benedikt (Albert Halldórsson). Þennan ákveðna laugardag, þegar líður að leik United og Liverpool – og Doddi og Óli Gunnar litli bróðir hans (Ólafur Ásgeirsson) eru komnir í stellingar með nóg af bjór og skotum – birtist einmitt þessi Benedikt í sendiferð fyrir Silju. Óli Gunnar gerir sér enga grein fyrir spennunni milli kviðmáganna og hvetur Benedikt til að horfa á leikinn með þeim. Hann fer út í bíl til að sækja Valdimar vin sinn, sem bíður eftir honum, og á meðan spinnur Doddi upp sögu til að losna við þessa óvelkomnu gesti. En þegar í ljós kemur að Valdimar vinur Benedikts er enginn annar en stórsöngvarinn Valdimar Guðmundsson verður Doddi að gjalti og þeir fá að vera.

Leikurinn gengur sinn gang og við fáum að heyra búta úr æsispennandi leiklýsingunni, Magnús íþróttafréttamaður (Starkaður Pétursson) er frændi þeirra bræðra og mikið átrúnaðargoð Óla Gunnars. Spennan magnast – bæði á fótboltavellinum og í samskiptum strákanna – og áhorfandinn veltir fyrir sér hvort Magnús sé að lýsa leiknum eða því sem gengur á í stofunni hans Dodda.

Leiksýningin er nokkurn veginn jafnlöng og knattspyrnuleikur og eins og oft vill verða í boltanum voru bragðdaufir kaflar inn á milli – textinn aðeins of rýr fyrir svo langa sýningu. En hann hitti oft beint í mark og var líka verulega hnyttinn. Strákarnir gerðu sér góðan mat úr honum og bjuggu til fínar týpur úr sínum mönnum. Starkaður var sannfærandi íþróttafréttamaður, hjólliðugur talandinn svo hraður að oft greindi ég ekki orðaskil – eins og vera ber. Benedikt var skemmtilega falskur og vandræðalegur í meðförum Alberts, enda á óvinasvæði og kann ekki reglurnar; Sveinn Ólafur var eins og fiskur í vatni (mjög myndarlegur fiskur) í hlutverki Dodda, vakti ýmist samúð eða innilega gremju. Og Ólafur var hreint frábær í hlutverki Óla Gunnars, gerði þessa einföldu sál alveg hjartaskerandi fyndna.

Valdimar Guðmundsson er svo sérstakur kapítali í sýningunni, listamaður sem kemur fram sem eigin persóna en er samt að leika hlutverk sem ekki er „hans“. Valdimar gerði þetta afar vel, fór með setningarnar sínar eins og þær væru raunverulega hans og fékk svo að auki að gera það sem hann gerir best: að syngja. Hann fékk líka að herma eftir þekktum persónum og þegar þessar tvær listgreinar komu saman – þegar hann tók lögin hennar Bríetar – þá hitnaði heldur betur í fullum áhorfendasalnum!

Enginn nútímamaður er líklega ósnortinn af knattspyrnu, hverjar sem tilfinningar hans eru nákvæmlega til íþróttarinnar. Sjálf ólst ég upp í Laugardalnum, var lagin að svindla mig inn á leiki sem unglingur og hef gaman af góðum fótbolta, en ég get aldrei lært þessar fjárans reglur! Það eiga tengdasynirnir erfitt með að skilja en fyrirgefa ævinlega. Óbærilegur léttleiki knattspyrnunnar er skemmtilegt verk sem tekur á ýmsum hliðum boltaástríðunnar og samkeppni hennar við aðrar ástríður, og þegar stjarna Valdimars bætist við getur þetta ekki klikkað!

Silja Aðalsteinsdóttir