Hið ósagðaMyndlistarmaðurinn Sigurður Ámundason frumsýndi í gærkvöldi leikrit sitt Hið ósagða í Tjarnarbíó, svartan gamanleik sem afhjúpar af miskunnarleysi sjálfselska beiskju nútímafólks. Sjálfur leikur Sigurður eitt hlutverkið í leiknum auk þess sem hann bæði leikstýrir og framleiðir sýninguna. Kvikmyndin sem við sjáum á baktjaldi er eftir hann líka, óteljandi klipp héðan og þaðan í ógnarhraðri framrás sem kölluðu fram í hugann jafnmörg hughrif og pælingar. Raunar er verkið eins konar kvikmynd sem verið er að gera; hljóðrásin hefur þegar verið tekin upp en leikararnir leika á hana á sviðinu og mæma talið. Þetta virkaði í senn spennandi, fyndið og heillandi.

Við erum stödd á veitingastaðnum T.G.I. Fridays í Smáralind þar sem þrír vinir hafa sett sér stefnumót. Fyrstur mætir Gummi (Ólafur Ásgeirsson), maðurinn sem allt snýst um. Hann hefur fengið grein eftir sig birta í virtu erlendu tímariti og nú skal haldið upp á það. Næstur kemur Dáni (Árni Vilhjálms) og síðust mætir Sif, glæsilegust og kúlust (Kolfinna Nikulásdóttir). Dáni og Sif ausa Gumma lofi milli þess sem þau panta drykki hjá Dagnýju gengilbeinu (Melkorka Gunborg Briansdóttir) og (allt of mikinn) mat hjá bandarískum kokki staðarins (Sigurður Ámundason). En smám saman læðist eitrið inn í lofið – er grein Gumma ekki ansi svipuð greinum Jane Johnson? Hefur Gummi ekki örugglega lesið hana? Þau klifa á því að svipmót sé með fræðimönnunum tveim en nefna þó aldrei dæmi. Það stefnir í hæga aftöku þegar gengilbeinan blandar sér í málið. Menntasnobbin sýna henni fyrirlitningu en hún reynist vita sínu viti auk þess sem hún greinir framkomu þeirra við vin sinn sem áreiti og einelti. Þetta verður logandi skemmtilegt og ekki spillir fyllibyttan (Kolbeinn Gauti Friðriksson) þegar hann fer að skipta sér af þessum montrössum og enn æsist leikurinn þegar kokkurinn missir sig …

Þetta er forvitnilegt verk – myndlistarverk, kvikmynd og leikhús – með hvössum, óvægnum undirtóni, sett fram á nýstárlegan hátt þannig að athygli manns er í botni allan tímann.  Það er deilt á græðgi nútímans, firringu, öfundina sem étur okkur að innan og sjálfselskuna sem gerir okkur ókleift að hefja okkur yfir hana. Leikurinn er jafn og góður, hvert þeirra mótaði sína persónu vel. Ólafur var hinn hrekklausi Gummi lifandi kominn, Árni og Kolfinna létu slægðina laumast að smám saman, slógu úr og í, gáfu í skyn en sögðu ekki berum orðum, stungu fast og sneru svo iðrunarfull við blaðinu – en líka þar voru þau óeinlæg. Melkorka var heiðarleikinn uppmálaður í hlutverki Dagnýjar en Kolbeinn og Sigurður sniðugir óróaseggir, einkum Sigurður með sinn hjólliðuga talanda á háværri amerísku.

Mér skilst að það verði mjög fáar sýningar á Hinu ósagða. Drífið ykkur!

 

Silja Aðalsteinsdóttir