eftir Brynjólf Þorsteinsson
Úr Tímariti Máls og menningar 1. hefti 2022
Pranking My Wife
Ég giftist konunni minni á fallegum síðsumardegi. Við héldum sveitabrúðkaup, allir okkar nánustu komu saman í Hvalfirðinum og við dönsuðum og drukkum og skemmtum okkur fram á rauða nótt. Mamma táraðist yfir skálaræðunni sinni og ég komst við, djúpt snortinn, kampavínsdrukkinn, það er fallegt að vera umkringdur ást og velvilja í hlöðu, sitja við háborð og hugsa: Þetta er rétt. Ég gerði rétt. Þetta er besti dagur lífs míns.
Skilnaðurinn kom mér á óvart.
Stundum þegar ég sit einn í baðsloppnum og horfi tómur á sjónvarpið, kannski ekki búinn að fara út fyrir hússins dyr í einhverja daga, neglurnar óklipptar, svitalyktin yfirgnæfandi, dettur mér í hug að hún sé að hrekkja mig. Þetta sé einn langur hrekkur af áður óþekktri stærðargráðu, einhverskonar meistaraverk í prakkaraskap, og ég brosi, kannski í fyrsta sinn um langa hríð. Tilhugsunin vekur með mér von um að hún komi aftur hvað úr hverju með símann á lofti, takandi upp myndband af óhreinu diskunum, pítsukössunum, notuðu bréfþurrkunum og fituga hárinu, þungu baugunum, og tilkynni hlæjandi að þarna hafi ég aldeilis verið tekinn og étinn. Sú von endist þó aldrei nema í skamma stund, því fyrrverandi eiginkona mín hefur megna óbeit á hrekkjum.
Ég hef alltaf verið hrekkjóttur. Sem barn fór ég mikinn með hurðasprengjum og prumpublöðrum og öðrum verkfærum til þess gerðum að koma fólki að óvörum, framkalla svipbrigðin sem ég lifi fyrir – lifði fyrir: Óttann í augunum og opna munninn, ópið, kippinn eða stökkið, og skömmina, skilningin sem færist yfir andlit fórnarlambsins eins og skýjabakki: Þarna var ég tekinn og étinn. Einu sinni falsaði ég einkunnaskjal úr samræmdu prófunum og felldi vin minn í öllu, setti það inn um lúguna heima hjá honum. Þetta gerði ég af slíkri list að fáir fullorðnir hefðu getað leikið eftir, hvað þá unglingar, og ég man að ég hugsaði: Þetta er köllun mín í lífinu. Svo var það þegar stuðningsfulltrúi bekkjarins handleggsbrotnaði, við vorum á leiðinni í skólaferðalag þegar hún rann á bananahýði í rútunni. Það komst aldrei upp um sökudólginn, sem betur fer, því sökudólgurinn var ég. Þetta var heilmikið mál og ég hafði í sannleika sagt ekki búist við þessum afleiðingum, hélt að þetta bellibragð virkaði ekki nema í teiknimyndum. Ég sérhæfði mig þó í að bregða fólki. Tamdi mér þolinmæði og stúderaði andartakið eins og munkur. Faldi mig í skápum, bak við hurðir, undir rúmum, oft langtímum saman, og spratt svo fram með látum þegar færi gafst. Ég lærði þó snemma að undanskilja foreldra mína í þessum efnum. Einu sinni skreið ég inn í eldhússkáp og stökk út þegar mamma byrjaði að elda kvöldmatinn og henni brá svo mikið að hún sló mig. Það var ósjálfrátt viðbragð og alveg óvart, hún var miður sín, en ég lagði ekki í að bregða henni aftur eftir það. Faðir minn var sjaldan heima, sjálfur hefði ég hrokkið í kút ef hann hefði mælt við mig eitt einasta orð.
Fólk hefur alltaf elskað hrekki, tilbeðið guði sem sérhæfðu sig í þeim: Sléttuúlfinn í Norður-Ameríku, köngulóna Anansi í Vestur-Afríku, krákuna í Ástralíu. Prómeþeifur var klækjóttur guð og hann færði okkur eldinn samkvæmt grískri goðafræði. Loki á ekki lítinn þátt í eyðingu heimsins í Ragnarökum. Og hvað er JHVH sjálfur annað en stórkostlegur hrekkjalómur? Abraham með hnífinn á lofti, í þann mund að reka son sinn Ísak á hol: Er til skýrara dæmi um það að vera gyðing-kristilega tekinn og étinn?
Á Youtube-rásinni minni, PRANKING MY WIFE, hef ég sankað að mér meira en tvöhundruð þúsund fylgjendum. Þetta byrjaði, eins og allt, smátt. Ég stillti símanum mínum upp inni á baðherbergi, faldi mig bak við sturtuhengið og þegar konan mín kom inn til að bursta tennurnar reif ég það frá og öskraði eins og vitstola maður, deildi myndbandinu svo á Snapchat. Ég fékk sterk viðbrögð, marga broskarla grenjandi úr hlátri, og mundi skyndilega: Þetta er köllun mín í lífinu. Hrekkirnir þróuðust sífellt – fötur fullar af vatni uppi á hálfluktum hurðum, afsagaðir stólfætur, fullir skór af jógúrt – og ég færði mig yfir á Youtube. Fólk elskaði þetta. Sérgrein mín var þó alltaf bregðuhrekkurinn. Stundum stillti ég símanum mínum upp í íbúðinni og fór út, deildi svo myndböndum af konunni minni að læðast um skíthrædd, handviss um að ég væri einhvers staðar í felum. Og fylgjendurnir hrönnuðust upp.
Einn daginn kom ég heim eftir vinnu og fann að eitthvað var breytt, varanlega, það var í loftinu. Á eldhúsborðinu var langt bréf. Það var erfiður lestur og bréfritari gætti ekki alltaf fyllstu sanngirni. Hún var farin. Hún hafði ekki í hyggju að snúa aftur.
Sagt er að skilnaður hafi sömu áhrif á sálina og dauði nákomins. Í mínu tilfelli var missirinn tvöfaldur. Þegar ég skrifaði undir skilnaðarpappírana var ég ekki bara að skrifa undir lok hjónabandsins, heldur einnig Youtube-rásarinnar minnar. Heil smáþjóð af fólki treysti á mig til að létta því lundina í amstri hversdagsins, það treysti á PRANKING MY WIFE.
Ég syrgði og syrgði, þessir dauðar voru mín eigin Ragnarök. En nýr heimur rís í lok Völuspár. Versti óvinur sorgarinnar er tíminn. Það eru fleiri fiskar í sjónum, framtíðarwives til að pranka. Í kvöld fer ég á mitt fyrsta stefnumót í meira en tíu ár.
Undir stýrinu
Hrund þekkti enga leigubílstjóra persónulega. Hafði aldrei gert. Hún átti vingott við rúmlega áttahundruð manns samkvæmt Facebook og enginn þeirra keyrði bíl fyrir peninga. Það sem meira var: Hrund þekkti engan sem þekkti leigubílstjóra persónulega. Hún var búin að spyrjast fyrir. Þá kviknuðu fleiri spurningar í huga Hrundar, stærri og þyngri, erfiðari að ná taki á: Eru leigubílstjórar til í alvörunni? Er hægt að segja það með vissu, ef enginn veit hvað verður um þá eftir vakt? Eru þetta manneskjur af holdi og blóði eða eitthvað óræðara? Draumur samdulvitundar sem óskar þess eins að komast klakklaust frá A til B? Undirtegund af rasískum englum? Næsta skref var náttúrulega að komast að því hvort hún þekkti nokkurn sem þekkti nokkurn sem þekkti leigubílstjóra persónulega. Sú rannsókn var víðfeðm og flókin og það verður ekki sagt að Hrund hafi nálgast verkið af köldu hlutleysi vísindamannsins – hún var ekki vongóð. Enda dagaði rannsóknin uppi. Sökin að vísu ekki hennar, þrátt fyrir bölsýnið, heldur fólksins sem hún þekkti, það var alls ekki tilbúið að leggja á sig minnstu vinnu fyrir kunningja sinn, Hrund, sem kinkaði jafnan kolli hér áður fyrr þegar hún taldi sig heyra enduróminn af fjögurhundruð ára gömlum orðum Johns Donne í samtímanum, enginn er eyland, en veröldin er breytingum háð og sjávarborðið þar með talið, það reis og reis og skildi að. Hrund var ekki gefin fyrir bleytu.
„Mikið að gera í kvöld?“ spurði hún ósjálfrátt. Kaldur skuggi varpaðist yfir hana, tilfinning um að hlutirnir væru fyrirfram ákveðnir.
„Nei, það er ósköp rólegt,“ svaraði leigubílstjórinn, hljómurinn í röddinni vísbending um að honum liði eins, að engu yrði breytt. „Eins og yfirleitt á miðvikudagskvöldum.“
Þörf gerði vart við sig í brjósti Hrundar, að snerta manninn fyrir framan sig – „Einmitt,“ sagði hún.
„En það er nú bara svolítið þannig þessa dagana. Eins og þú kannski veist.“
Að finna efnisleika hans, teygja höndina yfir sætisbakið og leggja á öxl bílstjórans – „Ertu búinn að vera að keyra lengi?“
„Ja, bráðum tíu ár.“ Hann klóraði sér í kollinum. „Sem var nú aldrei meiningin, en já. Tíminn líður hratt undir stýri.“
„Ég trúi því,“ sagði Hrund og laug engu, vissi að lífi mannskepnunnar væri oft líkt við veg í spökum ritum og það gat ekki hægt á ferlinu að keyra eiginlegan veg flestar vökustundir. Hún leit út um rúðuna, á borgina líða hjá í gulu ljósastauramóki. Göturnar voru auðar, eins og þau væru ein í heiminum, fólk flest farið að sofa. Hún velti fyrir sér hvað það væri allt að dreyma. „Heyrðu. Hvernig væri ef að við myndum fá okkur bjór einhvern tímann saman?“
Hann leit á farþegann í baksýnisspeglinum, áhyggjusvipur í augunum. „Bjór?“
„Já eða kaffi eða eitthvað, bara við tvö. Spjalla aðeins. Kynnast.“
„Nei, veistu,“ sagði hann loks eftir dálitla umhugsun. „Nei. Sama og þegið.“
Þau sátu í þögn síðasta spölinn, sem var óralangur fyrir bæði tvö, þó annað þeirra sæti undir stýri. Að leiðarlokum greiddi Hrund leigubílstjóranum rúmar fjögurþúsund krónur fyrir farið og þakkaði fyrir sig, en komst ekki hjá því að finnast hún hafa borgað miklu mun meira en það í raun.