Við fórum loksins í Tjarnarbíó í gærkvöldi og sáum Hið stórfenglega ævintýri um missi eftir Grímu Kristjánsdóttur sem einnig leikur bæði hlutverkin, sjálfa sig og hliðarsjálfið Jójó trúð. Með henni á sviðinu er tónlistarmaðurinn Þórður Sigurðarson og einnig tekur virkan þátt í sýningunni ljósameistarinn Arnar Ingvarsson. Ég er ekki frá því að það staka atriði sem lifi lengst í minningunni séu snögg viðbrögð hans á ákveðnum stað í sýningunni! Rafael Bianciotto leikstýrir en Eva Björg Harðardóttir klæðir leikarann í smekklega útgáfu af trúðsbúningi og sirkussviðið hennar virkaði vel.
Gríma varð fyrir því persónulega að missa báða foreldra sína með stuttu millibili. Sjálf var hún ekki lengur neitt barn, enda orðin móðir og hafði þar að auki búið sig undir dauða föður síns frá því að hún áttaði sig á því sem krakki hvað hann hafði verið gamall þegar hann eignaðist hana. Ókunnugir héldu alltaf að hún væri með afa sínum.
Móðir hennar var nærri þremur áratugum yngri en faðirinn en aldur segir ekki alla söguna og svo fór að hún lést á undan föðurnum. Þetta óvænta og skyndilega dauðsfall kom svo flatt upp á Grímu að hún hreinlega bældi sorg sína og beit á jaxlinn. Það kom henni í koll þegar pabbi hennar dó – fjörgamall – skömmu síðar.
Til að höndla þessa reynslu, skoða hana ofan í kjölinn og ræða hana, skapar Gríma hliðarsjálf, trúðinn Jójó, með því einfaldlega að setja á sig rautt nef. Jójó segir frá foreldrum Grímu, Kristjáni og Jóhönnu, býr til persónur þeirra með einföldum en skýrum brögðum þannig að við vitum ævinlega hvern hún er að tala um og tala við hverju sinni. Það var verulega vel gert. Jójó er hrekkjóttur, finnst ástæðulaust að tala undir rós um eðlilegar mannlegar athafnir, og stundum ofbýður Grímu bersöglin. Þá rífur hún af sér nefið, setur ofan í við Jójó og afsakar sig við áhorfendur.
Persónuleikar þeirra Grímu og Jójó voru skýrt aðskildir, Gríma var alvarleg, jafnvel fallega hátíðleg, en trúðurinn fyndinn og skemmtilegur í orði og athæfi. En það fór helst til langur tími í ævisögur foreldranna og lýsinguna á þeim og helst til stuttur tími í sjálfan missinn og sorgarviðbrögðin. Kannski var Gríma að tjá með því að slíkum tilfinningum sé of erfitt að lýsa, hver og einn verði að bæta þar við frá eigin brjósti. Það væri í sjálfu sér vel til fundið en til að lokaspretturinn nái hámarksáhrifum þyrfti aðdragandinn að verða snarpari.
Því að þetta er brýnt viðfangsefni. Það er gott að tala um dauðann – því að við deyjum öll, eins og Jójó sparaði ekki að minna okkur á. Gott að segja fólki að tala um missi sinn, tala tæpitungulaust um hina látnu. Þau voru manneskjur – eins og við. Gott að rifja upp að ekkert er mikilvægara en að elska og vera elskuð.
Silja Aðalsteinsdóttir