Þórunn Rakel Gylfadóttir: Akam, ég og Annika.

Angústúra 2021. 353 bls.

Úr Tímariti Máls og menningar, 3. hefti 2022.

 

Akam, ég og AnnikaUnglingasagan Akam, ég og Annika eftir Þórunni Rakel Gylfadóttur hlaut Íslensku bókmenntaverðlaunin í flokki barnabóka fyrir síðasta ár. Þetta er fyrsta bók höfundar sem var bæði nemandi (við HÍ) og kennari (við Hagaskóla) í ritlist þegar hún skrifaði bókina, en óhætt er að fullyrða strax að Þórunn Rakel er vel að verðlaununum komin.

 

Sögumaður með unglingaveiki

Söguna segir okkur Hrafnhildur Unnsteinsdóttir, fjórtán ára nemandi í Réttarholtsskóla í Reykjavík. Strax í upphafi dregur hún upp skýra mynd af óvenjulegum aðstæðum sínum: það er verið að umbylta lífi hennar gersamlega án þess að hún fái nokkru um það ráðið. Foreldrar hennar, leiðsögumaðurinn Unnsteinn og flugfreyjan Ólöf, skildu fyrir rúmlega fjórum árum þegar Ólöf var orðin ólétt að tvíburum eftir annan mann. Nýja eiginmanninum, flugmanninum Tryggva, hefur boðist vel launuð vinna í Þýskalandi og þangað ætla þau að flytja, að minnsta kosti tímabundið, með börnin þrjú, Hrafnhildi og tvíburasysturnar Auði og Hugrúnu. Aldrei er ræddur við Hrafnhildi sá kostur að hún verði eftir hjá pabba sínum eða móðurömmu sem er þó mikil fyrirmyndaramma. Ólöf er staðráðin í að sleppa ekki tökum á dóttur sinni auk þess sem hún treystir fjallafíklinum Unnsteini ekki fyrir henni. En mikið óskaplega þarf hún oft að sjá eftir þessari ákvörðun því að Hrafnhildur gerir lífið ekki auðvelt fyrir fjölskylduna í nýja landinu og byrjar strax á leiðinni frá flugvellinum. Þá skín sólin glatt á fagrar sveitir og Ólöf stynur: „Þetta er eins og í bíómynd! Finnst þér ekki útsýnið fallegt, Hrafnhildur? – Ekkert spes,“ svarar stelpan fúl. (44)

Fjölskyldan sest að á draumastað, í smábæ skammt frá fornfrægu borginni Trier í vestanverðu Þýskalandi. Þau leigja gott hús og umhverfið er unaðslegt. Ólöf ætlar að vera heima með tvíburunum en Hrafnhildur á að sjálfsögðu að fara í skóla. Hún hefur verið miðlungsnemandi heima á Íslandi, góð í ensku og dönsku og mjög góð í íslensku en léleg í raungreinum og íþróttum. Þó að tungumál séu hennar styrkur tók hún ekki í mál að búa sig undir flutningana með því að læra þýsku þannig að hún kemst ekki í menntaskólann (Gymnasium) sem móðir hennar vill senda hana í. Þar er reiprennandi þýska ófrávíkjanlegt skilyrði. Eftir stutta og snarpa fræðslu um þýskt menntakerfi sest Hrafnhildur í Realschule sem ætlaður er miðlungsnemendum en þar eru líka gerðar kröfur um þýsku sem aðaltungumál. Það kemur henni á óvart og eflaust mörgum jafnöldrum hennar hér á landi að enskan skuli ekki vera gjaldgengt samskiptamál í skólanum.

Mállaus Hrafnhildur er í fyrstu feimin og hjárænuleg en fljótlega tekur reiðin völdin og hún reynir að gera uppreisn gegn ranglætinu sem henni finnst ríkja í nýja skólanum. Það er fáránlegt að mega ekki vera með farsímann með sér, út í hött að mega ekki tyggja tyggigúmmí í tímum og eflaust veldur reiðisvipurinn því að enginn vill vingast við hana. Það er að segja enginn nema pönkarinn Annika sem reykingafýluna leggur af, hún sýnir henni vinsemd sem Hrafnhildur er í fyrstu ófús að taka á móti. Sjálf nálgast Hrafnhildur af tilviljun strákinn Akam sem dundar sér við dularfulla pappíra í skoti á bak við skólann í frímínútum en undrast hvað hann virðist vera mikill heigull þegar hann verður fyrir áreitni tveggja skólafélaga sinna – stráka sem Hrafnhildur svarar djarflega í sömu mynt þegar þeir sýna henni ruddaskap.

 

Ekki er sama innflytjandi og innflytjandi

Hrafnhildur er haldin ríkri réttlætiskennd eins og algengt er með unglinga, en munurinn á henni og flestum öðrum er að hún er óragari við að grípa inn í ef henni finnst á einhvern hallað. Baráttugleðina hefur hún beint frá pabba sínum eins og rauða hárið – sem er eilíft undrunar- og aðdáunarefni nýrra vina og kunningja í Þýskalandi. Unnsteinn er umhverfissinni og aktívisti og lýsingin á foreldraviðtalinu þar sem hann kæfir kvartanir Ólafar yfir lélegum árangri Hrafnhildar í stærðfræði er bæði skemmtileg og vekjandi. Kennarinn hrífst af óvæntri eldmessu hans og býður honum að koma í tíma og fræða börnin um loftslagsvána en á eftir er Ólöf ekki sátt:

         – Djöfulsins sjálfselska í þér maður, alltaf hreint!

– Ekki veit ég betri leið til að ræða um framtíð dóttur minnar en að tala um umhverfismál, svaraði hann ákveðinn. – Enn eitt samtalið um stærðfræðikennslu mun litlu breyta um líðan og velferð Hrafnhildar eða jarðarinnar sem framtíð hennar byggist á. Að gera sér ekki grein fyrir alvöru málsins ber vott um vanþroska. (62)

Í beinu framhaldi af heimsókn Unnsteins er stofnað umhverfisfélag í skóla Hrafnhildar sem skipuleggur mótmæli á Austurvelli þannig að hún hefur nokkra reynslu af réttindabaráttu þegar hún kemur til Þýskalands.

Það eru þó ekki umhverfismálin sem verða aðalviðfangsefni sögunnar heldur rasismi og fordómar í garð innflytjenda og höfundur gerir ljóst hvað þetta eru stór og flókin vandamál. Akam er Kúrdi og kom sem flóttamaður til Þýskalands ásamt móður sinni og langveikri yngri systur. Faðir hans hafði barist fyrir sjálfstæði Kúrda og féll í þeirri baráttu og Hrafnhildur lærir dýrmæta lexíu um mannréttindabaráttu Kúrda í gegnum kynnin af Akam. Henni finnst eðlilega að þau séu á sama plani, bæði ný í landinu, og meira að segja talar hann bæði þýsku og ensku reiprennandi, ólíkt henni. En hann leiðréttir hana snarlega. Hún er ekki „innflytjandi“ eins og hann af því að hún „er frá landi sem fólk vill fara til, ég er frá landi sem fólk vill fara frá.“ (145)

Akam er stærðfræðiséní en það hefur fremur orðið honum til ills en góðs. Hann hefur lent í snöru eldri stráks utan skólans og hjálparmanna hans innan skólans sem láta hann leysa dæmi og selja síðan lausnirnar en hirða sjálfir peningana. Akam reyndi að segja frá þessari áníðslu en stærðfræðikennarinn benti honum þá vinsamlegast á að hann yrði að gera eitthvað í staðinn fyrir skjólið sem hann fengi í sínu nýja landi. „Mér hefði ekki verið boðið hingað til þess að vera þiggjandi endalaust,“ hefur Akam eftir kennaranum. (276)

Eftir kynnin af Akam rifjast upp fyrir Hrafnhildi dæmi heiman frá Íslandi um framkomu við innflytjendur, bæði góð – eins og þegar bekkjarsystkini komu í veg fyrir brottflutning unglingsstúlku – og slæm. Líka önnur dæmi um stríðni og einelti. Besta vinkonan heima á Íslandi, Linda, tók ein afstöðu með bekkjarbróður sem kennari var stöðugt að gagnrýna að ástæðulausu og á sögutímanum verða bæði Hrafnhildur og Linda fyrir netofsóknum, misalvarlegum. Hrafnhildur leitar til föður síns með sinn vanda en tekur sjálf á mun stærri vanda Lindu af einurð þrátt fyrir ótta við afleiðingarnar. Það verður eins og æfing fyrir eldskírnina í bókarlok.

 

Ekta fólk

Hversdagslegri er vandi foreldra eftir skilnað í bakgrunni sögunnar og togstreitan um Hrafnhildi en í nærmynd er erfitt mæðgnasamband Ólafar og Hrafnhildar. Ólöf er glæsileg kona sem er líka mjög upptekin af yfirborði hlutanna. Allt vill hún hafa fullkomið í kringum sig og henni er líka í mun að dóttirin sé sér til sóma, fallega klædd og hegði sér vel. En undir niðri er önnur Ólöf og ekki eins sjálfsörugg, hún skammast sín fyrir að hafa ekki lokið menntaskóla og þráir að Hrafnhildur verði móðurbetrungur að því leyti.

Þessar andstæðu kröfur móðurinnar ergja Hrafnhildi ósegjanlega. Hún er líkari pabba sínum að því leyti að henni líður best í slitnum gallabuxum og lopapeysunni frá ömmu. En smám saman sér stelpan að mamma er ekki alveg ómöguleg. „Ég vorkenndi henni að vera sífellt að keppast við að stjórna lífi sínu eftir einhverjum brjáluðum væntingum og reyna að troða okkur öllum inn í þessa þröngu ramma sem hún þráði að passa inn í, þráði að við öll pössuðum inn í.“ (189)

Hún sér líka að pabbi er kannski ekki eins fullkominn og hún hélt. Foreldrar hennar hafa bæði sína kosti og galla eins og allir aðrir, þau geta bæði brugðist þegar mikið reynir á. Best er að treysta sem mest á sjálfa sig og velja sér vini við hæfi.

Einn helsti styrkur sögunnar eru vandaðar mannlýsingar. Þar eru aðalpersónan og foreldrar hennar skýrustu dæmin, auk Anniku og Akams, vinanna sem Hrafnhildur eignast. En líka má nefna beinskeyttar lýsingar á aukapersónum á borð við nágrannana Heidi og „flísatangarmanninn“, einkennilega nágrannann sem reynist vinur í raun eins og fleiri, sögukennarann Heinz-Ottó og skólastjórnendurna Frau Hochwald og Herr Schmidt.

Hrafnhildur er sannfærandi unglingsstúlka, þjökuð af innri togstreitu og full af blíðu sem hún veit ekki hvernig hún á að fá útrás fyrir. „Stundum segi ég viljandi eitthvað særandi sem í raun þýðir ekki annað en: Vertu bara góð við mig þótt ég sé leiðinleg, mér þykir alveg ennþá vænt um þig.“ (65) Dæmigert fyrir fólk á þessum aldri að gera eitt en langa til að gera annað.

Í sögunni fáum við líka samanburð á þýskum og íslenskum veruleika frá sjónarhóli unglings. Framan af er Ísland auðvitað að öllu leyti miklu betra – fyrir utan veðrið – „Ertu að segja mér að þið hafið flutt frá föðurlandi ykkar af því að það er betra veður í Þýskalandi?“ spyr Akam innilega hneykslaður (266) þegar Hrafnhildur hefur reynt að skýra flutningana fyrir honum. Hún klórar sig út úr vandanum en munurinn á aðstæðum þeirra skólasystkinanna verður æpandi skýr í samtalinu. Þegar líður á fer stúlkan að sjá kostina við nýja landið, líka skólann þótt hann gerir miklar kröfur til hennar – eða kannski vegna þess. Hún fær það stóra verkefni hjá sögukennaranum að skrifa á þýsku – með hjálp Anniku – ritgerð um valdakonurnar tvær, Katrínu Jakobsdóttur forsætisráðherra Íslands og Angelu Merkel kanslara Þýskalands og það hefur djúp áhrif á hana.

Hrafnhildur er nýbúin að skila því verkefni og ítreka í umræðum við kennarann að Katrín og Merkel séu báðar réttsýnir baráttumenn fyrir réttindum minnihlutahópa þegar hún verður vör við að fjendur Akams eru að kúga hann með vopnavaldi á skólavellinum. Hún blandar sér í átökin án þess að hika og munar litlu að hún stórslasist, auk þess sem nærri liggur að henni verði vikið úr skóla fyrir afskiptin. Réttarhöldin sem haldin eru yfir henni í sögulok og varnarræða hennar eru glæsilegur endir á góðri sögu.

 

Vandað verk

Sagan er einstaklega læsileg, rennur vel, frásögnin skýr og myndræn. Mikilvægum dögum í lífi Hrafnhildar er lýst nákvæmlega, stundum nánast frá einni stund til annarrar, og flest mál útskýrð jafnóðum, reyndar svo að stundum jaðrar við ofskýringar. Málfarið er gott, laust við tepruskap – eins og þegar Hrafnhildur heyrir mömmu sína segja vinkonu frá því að Tryggvi toppi „allt sem hægt er að toppa á skeiðvellinum“ (41) – en heldur ekki djarft að óþörfu. Og sagan er viðburðarík en líka fjörug og skemmtileg þótt hér hafi áherslan verið á vandamál söguhetjunnar.

Það er helst undir hin viðburðaríku sögulok sem höfundur lætur reyna um of á trúgirni lesandans. Skólastjórnin stendur sig svo illa við rannsókn átakanna á skólavellinum að það verður ekki sannfærandi – en ef til vill vildi hún bara losa sig við þennan uppreisnargjarna Íslending!

 

 

Silja Aðalsteinsdóttir