Tvær byltingar hafa verið gerðar á Íslandi og það liðu tvö hundruð ár á milli þeirra. Önnur er kennd við hundadaga árið 1809, hin við búsáhöld árið 2009. Á þetta benti Einar Már Guðmundsson í bráðskemmtilegri en útúrdúra-auðugri frásögn sinni af fyrri byltingunni á Sögulofti Landnámssetursins í Borgarnesi í gærkvöldi. Sögustundin hans heitir einfaldlega 1809 og í gær flutti hann frásögn sína við æðisgenginn undirleik ofsavinds af vestri sem vældi og grét af þrá eftir að komast inn á loftið til okkar. Þetta kallaði fram myndir af sögufólki gegnum aldirnar sem oft hefur þurft að brýna raustina til að yfirgnæfa storminn á þekjunni.
Jörundur hundadagakonungur var stórmerkilegur maður, eins og Einar Már hefur áður fjallað um í skáldsögunni Hundadagar (2015) og dró skýrt fram á sögustundinni. Hann var tæplega þrítugur þegar hann tók sér konungsvald á Íslandi en hafði áður lent í mun meiri hremmingum og ævintýrum en manni finnst eðlilegt nú, þegar fólk fullorðnast svo miklu seinna. Þá átti fólk heldur ekki von á að lifa eins lengi og það gerir nú. Jörundur náði sextugsaldri og ekki varð neitt hlé, hvorki á ævintýrum hans né hremmingum eftir uppákomuna hér á landi. Þetta er spennandi ævisaga og Einar Már dró fram ýmsa skemmtilega fleti á henni og óvænta. Honum þótti líka nauðsynlegt að rekja forsöguna, segja frá sir Joseph Banks og sambandi Jörundar við hann og hvers vegna Ísland var freistandi í augum erlendra kaupmanna eins og til dæmis Samuels Phelps sápukaupmanns sem girntist íslenska tólg í sína framleiðslu. (Það hefði líka verið hægt að kenna byltinguna 1809 við sápu, sagði Einar Már!) Aðdragandinn að byltingunni tók helst til langan tíma af naumt skammtaðri sögustundinni og þegar við bættust ýmsir aðrir skemmtilegir útúrdúrar var ekki að undra þótt einhverjir athyglisverðir þættir yrðu útundan og endaspretturinn yrði nokkuð hraður. En þetta á Einar eftir að laga – þó að aldrei muni þessi frásögn hans hljóma eins í nein tvö skipti, til þess er efnið of ríkulegt og höfundur/sögumaður of fróður.
Það verður blómlegt starf á Söguloftinu í vetur. Einar sjö sýningar eru þegar ákveðnar og margt verulega forvitnilegt þar á meðal. Næst á svið þar er Saga úr Drekkingarhyl, einleikur eftir Þóru Karítas Árnadóttur sem verður frumsýndur 30. október. Þóra byggir verkið á skáldsögu sinni Blóðbergi frá 2020 um Þórdísi Halldórsdóttur, fyrstu konuna sem var drekkt í Drekkingarhyl.
Silja Aðalsteinsdóttir