FífliðÉg hef lengi vitað að þeir sem stunda þá atvinnu að gagnrýna það sem aðrir gera eru almennt álitnir asnar, einkum af þeim sem gagnrýndir eru. En ég vissi ekki fyrr en í gær að fyrstu gagnrýnendurnir í veraldarsögunni hefðu beinlínis verið hirðfífl valdhafanna – sem sé haft atvinnu af hvoru tveggja, að gagnrýna og vera fífl. Þetta kemur einkar skýrt fram í verki Karls Ágústs Úlfssonar, Fíflinu, sem hann frumsýndi í gærkvöldi í Tjarnarbíó undir stjórn Ágústu Skúladóttur. Með honum á sviðinu er Eyvindur sonur hans, leikur á móti honum þegar þörf krefur en sér líka um tónlistina sem er heilmikil í stykkinu, sungin við kvæði Karls Ágústs sem sýnir að venju hvað hann er feiknasnjall smiður gamanvísna með broddi. Þegar svo Guð ávarpar fíflið kemur ekkert á óvart að Hann talar með rödd Bjarna Thors Kristinssonar!

Í verkinu kannar Karl Ágúst sögu og hlutverk hirðfíflsins frá örófi alda og til samtímans – tekur raunar ekkert mark á því hvernig tíminn líður en blandar saman ólíkum tímaskeiðum á mjög ósvífinn hátt. Þessa miklu yfirferð rammar hann inn með atriðum úr Lé konungi Shakespeares sem hann leikur sér að á ýmsan hátt. Þetta á vel við því fram hefur komið að Karl Ágúst lék fyrst á sviði atvinnuleikhúss í rómaðri (illræmdri að sumra mati) uppsetningu Hovhanness I Pilikian á Lé í Þjóðleikhúsinu árið 1977. Shakespeare og Karl Ágúst vita báðir að þá fyrst verða valdsmenn hættulegir þegar þeir geta ekki lengur hlegið að sjálfum sér, um það eru mörg dæmi í sýningunni, og væri gaman að vita hvort þetta myndi sannast á núlifandi valdsmönnum ef þeir voguðu sér á sýninguna.

Karl Ágúst skýtur föstum skotum í allar áttir, ekkert er honum heilagt. Einstaka sinnum er honum aðeins of mikið niðri fyrir til að koma manni til að hlæja en oftast er hann morðfyndinn. Goðsagan um Momus, fyrsta hirðfíflið/gagnrýnandann sem lagði mat á sköpunarverk Póseidons, Aþenu og Seifs á Ólympsfjalli forðum tíð var óvænt og upplýsandi. Samherji er tekinn vandlega fyrir, hrunið líka. Við erum minnt á frægan páskaþátt Spaugstofunnar og Hinrik konungur áttundi er settur inn í slaufunarmenningu nútímans. Meðferð íslenskra valdhafa á öldruðum og öryrkjum fær sinn skammt, einnig blessaða „góða fólkið“ og framkoma íslenskra við pólska landa. Raunar er erfitt að hugsa sér eitthvað sem ekki varð fyrir skoti og maður ýmist hló eða hryllti sig, skammaðist sín eða fylltist þórðargleði!

Fíflslega flotta búninga gerði Guðrún Öyahals, flókin lýsingin var hönnuð af Ólafi Ágústi Stefánssyni og grímurnar fínu gerðu Elín Sigríður Gísladóttir og Agustino Dessi. Og af því að hárið á Karli Ágústi var býsna áberandi í sýningunni er rétt að taka fram að Ninna Karla Katrínardóttir sá um hár og förðun.

Þið rétt ráðið því ef þið missið af þessari kveðjuveislu hans Kalla í Tjarnarbíó!

 

Silja Aðalsteinsdóttir