Fyrir níu árum, í apríl 2013, skrifaði ég umsögn um fyrsta leikrit Tyrfings Tyrfingssonar, einþáttung sem var einn af þremur eftir ný leikskáld sem sýndir voru saman undir yfirskriftinni Núna í Borgarleikhúsinu. Þar segir: „Annaðhvort gat Skúrinn á sléttunni verið útdráttur úr löngu leikriti eða fyrsti þáttur í lengra verki. Það breytir þó ekki því að þetta var morðfyndið verk …“ Þetta reyndist vera rétt gisk því nú hefur Tyrfingur sett „Skúrinn“ í sitt rétta samhengi í verkinu Sjö ævintýri um skömm sem nýlega var frumsýnt á stóra sviði Þjóðleikhússins undir djarfri, hugmyndaríkri og glaðbeittri leikstjórn Stefáns Jónssonar.
Lögreglukonan Agla (Ilmur Kristjánsdóttir) er á barmi taugaáfalls. Sálræn og líkamleg streita hefur safnast upp í henni alla hennar ævi og þegar hún ryðst inn til geðlæknisins (Hilmir Snær Guðnason) í upphafi er hún orðin stórhættuleg. Það þarf fáránlega lítið út af að bregða til að hún drepi mann – spurningin er bara hver verður fyrir henni. Hún hefur verið rekin úr starfi og lögreglustjórinn (Steinunn Ólína Þorsteinsdóttir) sendir tvo lögregluþjóna á eftir henni til að vakta hana (Edda Arnljótsdóttir og Vincent Kári van der Valk). Þeir grípa inn í þegar geðlæknirinn æpir undan Öglu. En lækninum tekst að róa Öglu nægilega til að kynna hana fyrir kenningu sinni sem gengur út á það að maður eigi ekki að bæla erfiða og skammarlega lífsreynslu eða flýja frá henni heldur mæta henni með því að segja frá henni og tala hreinskilnislega um hana. Í framhaldinu fáum við áfallasögur úr lífi og starfi Öglu settar fram í sjö ævintýrum um skömm.
Dýpsta skömmin er nátengd dýpstu ástinni því Agla elskar ömmu sína Möllu (Ólafía Hrönn Jónsdóttir) meira en allt annað. En Malla er ekki amma sem hitar kakó og bakar pönnukökur, hún er gleðikonan úr Skúrnum á sléttunni! Malla yfirgaf Eddu, móður Öglu (Steinunn Ólína), á viðkvæmu æskuskeiði með bandarískum hermanni og sneri aldrei aftur. Það hefur hert Eddu sem telur að harkan sé besta uppeldisráðið: foreldri eigi að fylgjast með barni sínu en helst ekki koma því til aðstoðar, best sé að það læri strax að bjarga sér sjálft. Agla skynjar þetta sem ástleysi, það kvelur hana og hún á erfitt með að slaka á og svara hlýju Hönnu konu sinnar (Kristín Þóra Haraldsdóttir). Spurningin er hvort játningar Öglu hjá lækninum nægja til að ævintýri lífs hennar fái þann góða endi sem gömlu ævintýrin eru þekkt fyrir.
Þetta er afar vel skrifað og skemmtilegt verk og alveg einstaklega vel sviðsett og leikið. Dúóið í sögumiðju, Ilmur og Hilmir Snær, voru óviðjafnanleg í hlutverkum Öglu og læknisins, svo meistaralega léku þau hvort við annað og hvort á annað. Enda ekki á hverjum degi sem þessir stórleikarar fá annan eins texta og önnur eins tækifæri á sviði. Ilmur fær að sýna mikla breidd, allt frá smátelpunni sem hún er þegar hún heimsækir Möllu ömmu í Ameríku með móður sinni og hittir glöðu og gröðu vinkonurnar hennar, Fanneyju (gersamlega frábær Kristbjörg Kjeld) og „persónuna“ Eygló sem er „út um allt“ (Elva Ósk Ólafsdóttir), gegnum meðferðina og loks innvortis hreinsunaraðgerðina miklu. Hilmir Snær fær að vera mjúkur og veiklundaður karlmaður sem tekur ekki á móti þegar ráðist er á hann en reynist seigur í langvarandi átökum og gefst ekki upp. Hilmir fékk líka að verða drukknari og drukknari og ætlaði alveg að sálga mér úr hlátri með látbragði sínu einu saman.
Kristín Þóra bjó til alveg nýja týpu í hlutverki Hönnu, innilega gervilega og yfirborðslega af því að hún veit ekki alveg hvernig hún á að vera til að vera Öglu til sóma en er svo alveg ekta þegar komið er inn úr yfirborðinu. Og þá fær ástin að blómstra á rauðu ljósi.
Ólafía Hrönn stal snyrtilega öllum senum sem hún var í. Ódrepandi þrjóska og ævintýraþrá þessarar íslensku stelpu sem náði sér í Kana, fór með honum til fyrirheitna landsins og gafst ekki upp þótt allt brygðist, líkamnaðist á sviðinu í glannalega litríkum búningum – og aldrei skrautlegri en eftir að hún var dauð! – syngjandi og dansandi. Snilldar frammistaða.
Steinunn Ólína og Eggert Þorleifsson voru traust og stillt í hlutverkum foreldra Öglu en þau fá sínar sturluðu fimmtán mínútur í fyrsta „ævintýrinu“ sem Agla segir lækninum. Atriðið er sér á parti vegna þess að það er ekki úr ævi Öglu, það er undirstrikað með litanotkun og stíl sem minnir á teiknimyndasögur, sláandi vel hugsað. Ég efast um að ég geti nokkurn tíma gleymt þeirri senu.
Vaktarar Öglu og fyrrum kollegar voru í hæfum höndum Eddu Arnljótsdóttur og Vincents Kára sem brugðu sér líka í önnur hlutverk eftir þörfum „ævintýranna“. Einkum var Vincent Kári frábær innbrotsþjófur.
Sviðið hans Barkar Jónssonar var endalaus uppspretta fagnaðar þar sem það rann sundur og saman og opnaði og lokaði alls konar möguleikum. Um veggina léku myndbönd Signýjar Rósar Ólafsdóttur og bættu í möguleikana. Búningar Þórunnar Elísabetar Sveinsdóttur voru fjölbreyttir og ævintýralega skemmtilegir, ekki síst hinn makalausi englakór! Halldór Örn Óskarsson lýsti herlegheitin af list og tónlist Gísla Galdurs Þorgeirssonar stemmdi einkar vel við efni og útlit.
Allt í kringum mig í salnum í gærkvöldi sat ungt fólk og skemmti sér greinilega konunglega. Það er óskandi að sem flestir sjái þetta holla stykki þar sem skömmin í lífi okkar er tekin og flengd þangað til hún hunskast burt með skottið milli afturlappanna. Til hamingju allir aðstandendur.