Spegill fyrir skuggabaldurÓlína Kjerúlf Þorvarðardóttir. Spegill fyrir skuggabaldur: Atvinnubann og misbeiting valds.

Skrudda, 2020. 252 bls.

Úr Tímariti Máls og menningar, 2. hefti 2021

 

Ísland og Alsír eru ólík lönd og langt þar á milli, en með þeim má eigi að síður finna ýmsar óvæntar hliðstæður og jafnframt andstæður sem geta brugðið nokkru ljósi á bæði löndin. Er ekki úr vegi að skoða þær í kúptri skuggsjá ef ske kynni að það leiddi okkur í nærkvæmari skilning um okkar eigin hag. Bæði löndin eru að stórum hluta sandeyðimerkur, reyndar er sandurinn gulur í Alsír en svartur á Íslandi. Þrátt fyrir það byggja íbúar beggja landaafkomu sína að verulegu leyti á sauðfjárrækt, þótt Alsírbúar hafi það fram yfir Íslendinga að þeir kunna að búa til kúskús úr kjötinu. Í báðum löndunum eru orkulindirnar í jörðinni, olía í Alsír en heitt vatn, gufa og fallvötn á Íslandi. Bæði löndin voru áður fyrr hluti af öðru landi, Alsír af Frakklandi („Alsír er Frakkland“ sögðu franskir stjórnmálamenn þegar Alsírstríðið var að hefjast), en Ísland af Danmörku, og bæði löndin endurheimtu sjálfstæði eftir langa baráttu, þótt sú barátta hafi að vísu ekki verið sambærileg í þessum löndum nema að nafninu til. Og í báðum löndunum er það „sjálfstæðisflokkur“ sem fer með völdin.

Þegar hér er komið verður að rýna nákvæmar í hliðstæðurnar. Þjóðir beggja landanna byggja efnahag sinn á einni auðlind sem allt annað hvílir á, olíunni í Alsír og fiskveiðunum á Íslandi; að því leyti er Alsír í flokki með mörgum öðrum ríkjum í hinum svokallaða „þriðja heimi“, en Ísland sker sig hins vegar úr öllum nágrannalöndunum, þar sem efnahagurinn hvílir allajafna á mörgum stoðum, og á að þessu leyti heima annars staðar, með löndum undir heitari sól. Þetta fer fram hjá mönnum því þeir horfa í aðrar áttir, en það hefur haft sínar afleiðingar, bæði í Alsír og á Íslandi, og liggja að því viss rök: í báðum löndunum hefur risið upp stétt ólígarka sem er staðráðin í að láta greipar sópa um afraksturinn af auðlindinni eins og hún frekast getur, halda honum fyrir sig, og beitir til þess öllum tiltækum ráðum.

Þessi ráð eru reyndar að sumu leyti mismunandi, og það láta menn villa sér sýn. Í Alsír, eins og víðar í þriðja heiminum, líta valdhafar svo á að í krafti þess hlutverks sem flokkur þeirra lék í sjálfstæðisbaráttunni hafi þeir fullan rétt á að stjórna landinu eftir sínum geðþótta og berja niður öll mótmæli. Til þess beita þeir miskunnarlaust her og lögreglu svo enginn kemst upp með neitt múður, símar eru hleraðir, bréf skoðuð og ritfrelsi takmarkað. Til að láta Alsírbúa njóta sannmælis verður þó að taka fram að þetta tekst ekki að öllu leyti, í blöðum getur t.d. að líta beinskeyttar skopmyndir og almenningur hefur verið iðinn í mótmælaaðgerðum, hann hefur stundum átt það til að berja á potta og pönnur líkt og Íslendingar á Austurvelli samkvæmt upplýsingum frá sjónarvotti. En það frelsi sem þeir geta þannig áunnið sér breytir engu um það sem er aðalatriðið: í skjóli þessara stjórnarhátta dafnar spillingin án þess að nokkuð geti hróflað við henni. Með „spillingu“ er átt við það ástand þegar menn geta með tengslum sínum við valdhafa, með því að þekkja „rétta menn“, öðlast hlunnindi eða réttindi sem þeir gætu annars ekki fengið – og það á kostnað annarra sem væru réttar að þeim komnir – og beitt þeim eftir sínum geðþótta, án tillits til nokkurra annarra en þeirra sem fengu þeim réttindin upp í hendurnar. Þessi spilling er að allra dómi helsta vandamál Alsírs og annarra landa þar sem eins er ástatt um. Niðurstaðan er sú að auðlindirnar eru tryggilega í höndum ólígarkastéttarinnar. Stór hluti af olíuarðinum hafnar að sögn í bönkum í Sviss.

Á Íslandi er staðan önnur. Íslendingar hafa þó sinn sjálfstæðisflokk og felst í nafninu viss yfirlýsing og krafa, þótt tengslin við sjálfstæðisbaráttuna séu í besta falli nokkuð losaraleg þar sem flokkurinn var ekki stofnaður fyrr en 1929. Samt blasir við að flokkurinn telur sig hafa einhvern sérstakan rétt til þess sem hann gerir, að stjórna Íslandi, án þess að ljóst sé á hverju hann geti byggst; svo er reyndar að sjá að hann byggist á öðru en atkvæðamagninu einu. Það kemur fram í smáu, t.d. í því hvernig Sjálfstæðismenn setja gjarnan upp hneykslunarsvip ef þeir verða fyrir gagnrýni í sjónvarpi og líta andvarpandi hver á annan, eða þeir tala um skoðanir andstæðinga sinna eins og þeir séu svo skyni skroppnir mökkurkálfar að á þá sé ekki orðum eyðandi, nema þegar þeim er brigslað um einhver skuggaleg markmið. Og það kemur fram í stóru, semsé í því að í reynd hafa Sjálfstæðismenn haft völdin að mestu leyti um langt skeið. Ef þeim er skákað til hliðar um stund – kannski fyrst og fremst þegar flokkurinn þarf að skríða í skjól meðan eitt og annað hylst gleymsku – er það svo útmálað framvegis sem nefstór Grýla og verður ævinlegur áróður fyrir flokkinn. Þegar Sjálfstæðisflokkurinn er ekki við völd heitir það til dæmis „ár hinna glötuðu tækifæra“. Nú hefur Sjálfstæðisflokkurinn aldrei fengið hreinan meirihluta, en honum hefur tekist að koma á fót skipulagi sem er sennilega einsdæmi og færir honum nánast óskert völd í hendur til að fara sínu fram, en það gengur undir nafninu „helmingaskiptastjórn“. Einu skilyrðin fyrir henni eru að virða helmingaskiptaregluna af alúð, ekkert er spurt um stefnu. Ef hinn helmingaskiptaflokkurinn, Framsókn, er af einhverjum ástæðum úr leik um stund og Sjálfstæðismenn verða að mynda stjórn með einhverjum öðrum flokki, verður niðurstaðan samt sú þegar upp er staðið að það er í öllum stórum atriðum stefna Sjálfstæðisflokksins sem verður ofan á, eins og dæmin sýna. Og spillingin heldur áfram.

Sjálfstæðisflokkurinn er því í álíka valdastöðu og nafni hans við Miðjarðarhaf. En þó er einn reginmunur, hann hefur engan her og enga lögreglu til að styðjast við, slíks er alls enginn kostur á Íslandi. Það stafar af mörgu. Á Íslandi er ekki lengur nein hefð fyrir vopnaburði, þeir siðir lögðust af eftir Sturlungaöld bókmenntalegrar minningar, og Íslendingar hafa megnustu óbeit á slíku hvar í flokki sem þeir standa. Svo bætist við að ef Íslendingar færu að semja sig að háttum Serkja í suðri myndu þeir skera sig allmikið úr í sínum eigin heimshluta og varla teljast stofuhæfir í þeim hálfum. Þeir verða því að fylgja í orði kveðnu öllum leikreglum lýðræðis. En einstök dæmi benda til þess að Sjálfstæðismenn kunni þó að fara frjálslega með þær ef þeir komast í hann krappan, og er mér þá efst í huga það ofurkapp sem þeir leggja á að hafa jafnan töglin og hagldirnar í dómskerfinu. Afraksturinn af því gátu menn séð í kosningunum til stjórnlagaráðs sem Hæstiréttur ógilti öllum að óvörum vegna einstakra misfellna sem hann gat bent á, en virtust þó lítilfjörlegar. Nú gerist það oft á tíðum að einhverjar misfellur verða við framkvæmdir víðtækra kosninga og koma þær stundum fyrir rétt, en regla lýðræðis er þó sú að kosningar eru aldrei ógildar fyrir þær sakir nema líkur séu á að þessar misfellur kunni að hafa haft áhrif á úrslitin. Um slíkt var ekki að ræða í þessum kosningum, og flokkast dómur Hæstaréttar undir það sem gjarnan er kallað valdníðsla, eða geðþóttaákvörðun ef menn vilja forðast stóru orðin. En sú niðurstaða var í einu og öllu Sjálfstæðismönnum að skapi, þeir vildu fyrir alla muni koma í veg fyrir að eitthvert stjórnlagaþing gæti sest á stóla, það kynni að setja ólígörkunum einhvern eldhúskollinn fyrir dyrnar.

En ef einhver fámenn ólígarkastétt vill tryggja sér yfirráð yfir auðlindum heillar þjóðar, hvort sem það er í Algeirsborg eða Borginni við sundin, getur það ekki gerst spillingarlaust, og þá vaknar spurningin hvernig því megi við koma þegar ekki er hægt að kveða á vettvang skuggalega menn með hólka í vösum. Frá því segir nú Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir í bók sinni Spegill fyrir skuggabaldur, hún er að ég best veit fyrsta almenna yfirlitið yfir spillingu á Íslandi og sennilega eins ítarlegt og hægt er að gera við ríkjandi aðstæður. Hún ætti þegar í stað að verða skyldulesning í námskeiðum í stjórnmálafræðum við Háskóla Íslands.

Kannski saknar lesandinn eins, og það er sögulegt yfirlit yfir spillingu á Íslandi, en til þess að rekja þá þróun þyrfti að gera ítarlegar og tímafrekar rannsóknir og er ekki við höfundinn að sakast þótt hún hafi fremur kosið að ríða beint á vaðið og lýsa ástandinu eins það birtist á líðandi stund með einstaka svipmyndum úr fortíðinni. Oft var þörf… Fyrir helbera tilviljun, að því er virðist, er þessi rannsókn sérstaklega tímabær, því fyrir skömmu var birt skýrsla Transparency International sem sýnir svart á hvítu að spilling á Íslandi er mun meiri en í nokkru nágrannalandi, þau skipa efstu sætin þar sem spillingin er minnst, en Ísland hefur hrapað og er nú komið niður í sautjánda sæti. Þess verður að krefjast að stjórnmálamenn bregðist öðru vísi við þessu en með því einu að yppa öxlum.

Af því sem Ólína hefur að segja um fyrri tíma kemur það fram að spilling á sér langar rætur, allar götur síðan Íslendingar fóru að ráða einhverju um sín eigin málefni. En fyrst fólst hún sennilega mest í því að veita flokksgæðingum stöður og hlunnindi, svo sem lóðir. Til að tryggja aðgang réttra manna að jötunum og halda öðrum frá beittu Sjálfstæðismenn víðtækum persónunjósnum og gerðu lista til að hafa sér til hliðsjónar. (Í Alsír væri það hlutverk lögreglu.) Það er vissulega spurning hvað af þessum listum hafi orðið og hvort þeir séu enn til, en ef svo er eiga þeir tvímælalaust heima á Þjóðskjalasafninu, sem mikilvægar heimildir fyrir sagnfræðinga framtíðarinnar. Maður getur ímyndað sér leiðtoga flokksins afhenda safninu listana við hátíðlega athöfn, lúðrablástra og ræðuhöld, fyrir framan sjónvarpsvélar. Það yrði söguleg stund í mörgum skilningi. Þessar njósnir og það sem af þeim hlaust voru óumdeilanlega misbeiting valds, en til þess þurfti varla neitt sérstakt ofbeldi.

Af öllum þeim sögum að dæma, sem Ólína segir í bók sinni, finnst mér ljóst að þáttaskil hafi orðið í spillingunni og angar hennar hafi farið að teygjast mun víðar þegar kvótakerfið var tekið upp. Ef samanburðinum er haldið áfram má líta svo á að með því hafi íslenskir ólígarkar loksins komist í þá stöðu sem alsírskir stéttarbræður þeirra höfðu þegar í upphafi, um leið og landið hlaut sjálfstæði, því þeir þurftu ekki annað en setjast á stóla nýlenduherranna fyrrverandi, þeir fengu her og lögreglu upp í hendurnar og gátu tekið við af þeim að berja á almenningi. Stund íslenskra ólígarka rann upp þegar þeir gátu stutt sig við „byltingu frjálshyggjunnar“, eins og hún hefur verið nefnd, með meiri rétti en marga grunar. Þeir nutu góðs af einkavæðingunni og þeirri spillingu sem þeim fylgdi, og af goðafræði frjálshyggjunnar leiddi jafnframt að með kvótana var farið eins og t.d. einkavædda banka, ef ekki í orði kveðnu þá í raun. Kvótakóngar gátu notað þá eins og sínar einkaeignir, og þannig braskað með þá og beitt þeim sem tæki til kúgunar. Þetta voru hin róttækustu umskipti, og má segja að með þessu hafi íslensk ólígarkastétt orðið til, í fyllstu og sterkustu merkingu þess heitis. Nú gat hún farið að raka til sín ómældum auðæfum án tillits til eins eða neins, hún þurfti ekki að hlýða neinum reglum og stjórnmálamenn ráku erindi hennar. Því er ekki að undra þótt ólígarkarnir hafi farið að líta svo á að þeim leyfðist allt, aðrir ættu aðeins að lúffa fyrir þeim. Dæmi um það eru þau orð sem einn úr þeirra hópi mælti við seðlabankastjóra í sölum alþingis:

„Drullaðu þér burt!“

Þetta voru vissulega söguleg orð, eins og Ólína rekur strax í upphafi bókarinnar, og má líta á þau eins og tákn og mottó okkar aldar, líkt og á sínum tíma „ríkið, það er ég“. Allavega hefur mælandinn öðlast með þeim varanlegan sess á spjöldum sögunnar, minning hans mun lifa með þjóðinni.

Þrátt fyrir áróður frjálshyggjupostula sem spörðu hvergi að útmála fyrir almenningi hina óviðjafnanlegu kosti einkavæðingar og kvótakerfis sem allir myndu hagnast af, spruttu fljótlega upp hörð og vel rökstudd mótmæli, enda fóru afleiðingarnar að koma í ljós, hvert hneykslið tók við af öðru. Nú snerist málið ekki lengur um að vernda spillinguna, því ólígarkarnir gátu farið öllu sínu fram, heldur að kæfa andófið, og til þess var beitt öllum tiltækum ráðum, hverju á sínu sviði. Þannig fóru af stað skuggasveinar sem gátu tekið upp símtólið og kippt í spotta með góðu eða illu, svo og kórdrengir og reykelsisberar þeirra sem kunnu að koma fyrir orðum á réttum stöðum, jafnt opinberlega sem í felum.

Þetta rekur Ólína vandlega í bók sinni með fjölmörgum dæmum og má segja að það sé aðalefni hennar. Það sem allt snýst um er atvinnubann, þegar komið er í veg fyrir að menn með „óæskilegar skoðanir“ fái stöður þar sem þeir gætu „verið fyrir“ eða látið í sé heyra, og menn með „réttar skoðanir“ eða bara páfagaukseðli settir í staðinn, þótt það brjóti í bág við dómnefndarálit og aðra úrskurði. Aðferðirnar eru fjölbreyttar, kannski er þeim kröfum sem gerðar eru til umsækjenda skyndilega breytt, ný dómnefnd skipuð, og þar fram eftir götunum. Þegar það gerist heitir það á máli alþýðu: „Nú þarf umsækjandinn að hafa nafn sem byrjar á B.“ Gjarnan fer líka af stað rógsherferð bak við tjöldin, ég heyrði til að mynda sagt um umsækjanda un kennarastöðu þar sem hann var talinn óæskilegur: „Hann er víst eitthvað skrýtinn, hann getur ekki kennt“. Hver hefur ekki heyrt sitthvað af þessu tagi? Á þennan hátt getur mannorð manna verið rifið niður, og umsækjandi settur í þá stöðu að hann eða hún fær hvergi neitt starf fyrir sitt hæfi og verður kannski að flýja til útlanda, ef sá kostur er fyrir hendi. Hámarkið er þegar reynt er að bregða fyrir menn fæti þegar þeir eru komnir í háskólastöðu erlendis með því að skrifa skólayfirvöldunum eitt lítið letters-bréf, þótt það beri takmarkaðan árangur, eins og Ólína segir frá. Það er svo önnur hliðin á þessu máli þegar menn eru settir í stöðu sem þeir hafa verið naumlega dæmdir hæfir til að gegna og þar sem enginn vill fá þá, jafnvel undir því yfirskyni að það þurfi fjölbreytni. Fjölbreytnin felst í því að vera málpípa valdastéttanna. Þetta getur orðið að hreinum farsa eins og hin grátbroslega saga um fréttastjórann í útvarpinu sem sat þrjár klukkustundir í þeim stóli ber vitni um. Þetta er dæmi um mann sem aldrei svaf í embætti. Einstaka sinnum kemur fyrir að dómstólar innanlands og utan rétti við hlut manna sem hafa verið hlunnfarnir við stöðuveitingar og dæmi þeim skaðabætur, en það breytir engu, það er ríkiskassinn sem blæðir og stöðuveitingunni er ekki breytt, „rétti maðurinn“ situr þar kyrr.

Allt þetta eitrar þjóðfélagið og veldur ómældum skaða, meðal annars með því að missa hæfa einstaklinga úr landi. Rógburðurinn situr líka eftir sem mengun í líkama. Og það bætist við að almenningi er vel kunnugt um ástandið. „Hann hefði að réttu lagi átt að fá stöðuna, en svo komst pólitík í málið“, heyrði ég einu sinni sagt. „Pólitík“ er hérna orðið að samheiti fyrir „spillingu“, og ekki eykur þetta virðingu manna fyrir yfirvöldum.

Kvótakerfið var sögulegt stórslit og er ljóst að í fyrirsjáanlegri framtíð mun engin ríkisstjórn hafa bolmagn til að bæta úr því. Kvótarnir breytast hægt og hægt í venjulegar eignir og hlýta þá þeim reglum sem Locke skilgreindi svo fagurlega, en ólígarkarnir tútna út eins og sá sem sat á fjósbitanum. En hægt er að halda áfram á þeirri braut sem Ólína hefur svo skýrt markað, og reyndar alveg nauðsynlegt, kannski með því að skrifa „Spillingarsögu Íslands“ og safna enn fleiri dæmum. Nemendur í stjórnmálafræðum þurfa að hafa sitt að lesa.

 

Einar Már Jónsson