Í sýningunni 10 hlutir sem Listafélag Verzlunarskólans sýnir nú í sal skólans undir stjórn Tómasar Helga Baldurssonar, byrjar pilturinn Kamel-Jón (Ágúst) í nýjum skóla. Og þá gerist tvennt alveg á fyrstu dögunum: hann verður bálskotinn í Biöncu hinni blíðu og fögru (Hrönn) og eignast bestu vinkonuna Bessý (Ilmur) sem hann fær til að hjálpa sér að nálgast Biöncu. Það eru nefnilega ýmis ljón í veginum eins og þeir vita sem hafa séð fyrirmyndir leikverksins, bandarísku bíómyndina 10 Things I Hate About You og Skassið tamið eftir William Shakespeare. Úr þessum efniviði hefur handritshöfundurinn Helgi Grímur Hermannsson unnið eigið handrit „í nánu samstarfi við“ leikstjóra og leikhóp eins og segir í leikskrá.
Helgi Grímur setur ekki síst mark sitt á verkið með tveim kómískum aukapersónum, gömlum húsverði í skólanum (Aron) og súpusendlinum Gaston (Killian) sem nær starfinu af húsverðinum á óvæntan hátt. Þeir skemmta áhorfendum í hléum milli atriða og sjá um sviðsmuni og vinna verk sitt af kostgæfni og góðum húmor.
Ljónin í vegi Kamel-Jóns og Biöncu eru einkum faðir stúlkunnar (Árni) og eldri systir hennar, hin þungbúna og orðhvassa Katrín (Gúa). Ein af ótal reglum sem einstæður faðirinn spinnur upp í örvæntingarfullri tilraun sinni til að ala dæturnar upp er að Bianca megi ekki fara út með strák nema Kata sé líka boðin út – og hver vill bjóða þeirri fýlubombu nokkurn hlut? Enn eitt ljón í vegi unga mannsins er svo keppinauturinn Joey (Bjarni), fagurhærður kvennaljómi skólans sem finnst Bianca vera sín sjálfsagða eign af því hún er sætust. Eftir misheppnað „danskt partý“ þeirra Kamel-Jóns og Bessýar er skóla-lúðinn Patrekur (Urður) keyptur til að reyna við Kötu og það gengur bara vel þangað til heiðarleikinn hellist yfir Patrek og hann segir Kötu frá öllu plottinu – með fyrirsjáanlegum afleiðingum, sárindum, reiði og sætum sáttum.
Kringum þennan kjarna hópast einn framhaldsskóli með sinni erótískt þenkjandi skólastýru (Gunnar), uppstökka en góðviljaða bókaverði (Álfheiður), fúllynda skólaritara (Soffía), kennurum og nemendum af öllu tagi, hippum, hrekkjusvínum, grúppíum og fríkum. Hópurinn á sviðinu var lifandi og orkumikill en þó svo vel agaður að texti skilaði sér vel. Það skipti máli af því að textinn var virkilega markviss og skemmtilegur, beittur þegar við átti, fyndinn þegar það átti við.
Eins og sjá má var töluverður kynusli í sýningunni, leikarar hafa verið valdir eftir týpu og hæfileikum fremur en eftir kyni. Urður var sannfærandi Patrekur, hávaxin, grönn og síðhærð og söng vel á úrslitastundinni. Eins var Kolbrún frábær Haddi, skugginn hans Joeys, og textinn sem hún fór með um samband sitt við hann var einn af hápunktum kvöldsins ásamt óvæntum viðbrögðum töffarans. Bestur var þó Gunnar sem Sigrún skólastýra og ekki síðri þegar skólastýran fór í frí og kom aftur í dulbúningi sem Gvendur fylgihnöttur Joeys. Það var mjög sjeikspírskt innlegg: karl sem leikur konu sem þykist vera karl!
Aðrir nutu sín líka í hlutverkum sínum, Ilmur sýndi að Bessý er ekki bara kjút stelpa, Ágúst gerði Kamel-Jón bæði elskulegan og tillitslausan eins og unglingar eru oft á þessum aldri, og Gúa var svo þunglyndisleg lengi vel í hlutverki Kötu að maður gladdist eins og barn þegar hún fór að brosa!
Þetta er yndisleg sýning eins og skólasýningar gerast bestar.
Silja Aðalsteinsdóttir