eftir Birki Blæ Ingólfsson

Úr Tímariti Máls og menningar, 4. hefti 2020.

Birkir Blær Ingólfsson // Mynd: Gassi

Birkir Blær Ingólfsson // Mynd: Gassi

Ég varð fyrir því furðulega óhappi á dögunum að kynna mig með vitlausu nafni. Skrítið, ég veit. Ég hélt að þetta væri það síðasta sem maður gæti ruglast á, hver maður væri.

Það gerðist við ljósritunarvélina í tónskólanum. Ég var á spani með nótnabók í höndunum og hugann við einhverja etúðu sem mig langaði að matreiða ofan í áhugasaman nemanda og þá mætti ég samkennara mínum við ljósritunarvélina. Hún er ein af þessum miðaldra konum sem klæðast prjónamussum og hornspangargleraugum svo maður sér einhvern veginn af hundrað metra færi að þetta er annaðhvort tónlistarkennari eða bókavörður. Hún var eitthvað að bjástra við maskínuna og ég ákvað að þetta væri upplagt tækifæri til að kynna mig svo ég vatt mér að henni með svofelldum orðum:

Heyrðu, komdu sæl. Ég heiti Kristinn.

Og rétti brosandi fram höndina um leið og ég átta mig á því að ég hef logið að henni.

Ég held brosinu til streitu og hún kynnir sig með nafni sem ég meðtek aldrei enda er hugur minn lostinn slíkri furðu að ég man ekki orð af samtalinu. Sennilega er það eitthvað á þessa leið:

Hvernig líkar þér nýja starfið?

Jú, bara dúndur vel.

Hvað ertu með marga nemendur?

Tólf.

Jahh, það er nú meira en að segja það.

Segðu.

Og hefurðu kennt eitthvað áður?

Nei, alveg kaldur.

Og á meðan tunga mín spinnur samtalið á sjálfstýringu spyr ég sjálfan mig hvort ég geti mögulega leiðrétt þennan misskilning milli talfæra minna og persónu og útskýrt að ég heiti reyndar Birkir.

Að lokum var það orðið of seint, ég kyngdi sannleikanum og hjalaði dálítið meira á léttum nótum áður en ég gekk burt og hugsaði með sjálfum mér að ef ég hefði dæmt mig til að heita alltaf Kristinn í návist þessarar konu, þá yrði ég bara að bíta í það súra.

Svo gleymdi ég þessu nafnaklúðri eins og hverju öðru hversdagspuðri og var ekki fyrr sestur inn í stofuna en kennslan átti hug minn óskiptan. Það kostar alla þá einbeitingu sem ég á til að kynna nemendur fyrir leyndardómum óbósins. Sennilega er það vegna þess að ég er ekki kennari. Alls ekki. Byrjum aftur. Leyfið mér að kynna mig.

Ég heiti Birkir og er með háskólapróf frá Þýskalandi í barokk-óbóleik og tónsmíðum – og námslán í réttu hlutfalli við það. Ég væri ekki með hærri námslán þótt ég hefði klárað doktorspróf í geimflaugaverkfræði. Ég rek litla kammersveit sem leggur áherslu á gömul og ný tónverk fyrir óbó. Nýju verkin eru flest eftir mig en stökum sinnum fáum við gestatónskáld til að semja fyrir okkur. Við erum frekar big deal í tónlistarsenunni þótt ég segi sjálfur frá og fáum alltaf fullt hús stiga frá gagnrýnendum þegar við komum fram. Það mæta kannski ekki margir en aldrei færri en tíu manns og ég nýt þess að hefja anda þeirra upp yfir gráma hversdagsins, kynni verkin með sögulegum fróðleik og svo spilum við af hjartans list. Ég lít á okkur sem nokkurs konar kerti. Það lýsir ekki mörgum í senn en ekkert í heiminum er fallegra. Hingað til höfum við rekið okkur á listamannalaunum og sóttum síðast um að hljóðrita framsækna barokktónlist: Róbó Repertoire, nokkur verk fyrir óbó og rafhljóðfæri. Þegar úthlutunarnefndin hafnaði umsókninni komst ég endanlega að raun um að það er snúið að reka heimili á óbó-sónötum einum saman og var orðinn alveg blankur og ansi despó þegar tónskólinn hringdi til að bjóða mér hálft starf.

Mamma fagnaði því að ég hefði fengið fasta vinnu. Það gerði kærastan mín líka. Sjálfur reyndi ég að gleðjast yfir því að hafa þó hálft starfsþrek til að sinna köllun minni við tónsmíðar og þáði starfið. Nú æðir tíminn áfram á meðan ég dreg hvern nemandann á fætur öðrum upp og niður brotna tónstiga og hlusta á þá þvinga pípandi ískur út úr óbóinu og útskýri muninn á hinum ýmsu takttegundum og svo framvegis og það var ekki fyrr en í síðustu kennslustund dagsins sem atvikið við ljósritunarvélina rifjaðist upp fyrir mér.

Við vorum að pakka hljóðfærunum niður í tösku eftir merkilega líflegar samræður. Þessari stúlku hafði tekist að kveikja í mér með því einu að sýna tónlistinni ósvikinn áhuga og ég fuðraði upp, óðfús að leiða hana í allan sannleikann um óbó. Ég blaðraði linnulaust og svo spiluðum við saman og vorum bæði uppnumin eftir tímann þegar hún snýr sér við í dyrunum og segir:

Takk í dag, Kristinn. Sjáumst í næstu viku.

Og ég sem heiti Birkir hlýt að vera á svipinn eins og ringluð afturganga þegar ég horfi á eftir henni trítla út ganginn og á meðan spólar hugurinn í einni spurningu: Hvernig? Ég veit að ég kynnti mig óvart sem Kristin í dag, það varð undarlegt skammhlaup á tungunni, en hvernig hefur þessi efnilegi óbó-nemandi frétt af því?

Það hlaut að vera lógísk skýring á þessu og þar sem ég sat skömmu síðar á vinnustofunni minni yfir köldum kaffibolla og auðum nótnapappír og reyndi að særa fram tilbrigði við stef fyrir nýjan óbó-konsert lét þessi ráðgáta mig ekki í friði. Voru þær, nemandinn og samkennarinn, kannski mæðgur? Ég dró fram tölvuna og gúglaði þær báðar í spað en fann enga augljósa tengingu á milli þeirra. Þær bjuggu báðar í Vesturbænum og áttu sameiginlegan ættingja í þriðja lið á Höfn í Hornafirði en það var sirkabát allur afraksturinn af spæjaravinnunni og ég var engu nær þegar ég skreið upp í rúm og sofnaði með nafnið Kristinn letrað á ennið innanvert.

Mér þykir ekkert í heiminum jafnfallegt og tónlist. Þannig hefur það alltaf verið. Ég man er ég heyrði óbó-konsert Mozarts í flutningi Randalls Wolfgang í fyrsta sinn og fraus, 10, 11 ára pjakkur, og hefði ekki tekið eftir því þótt heimurinn hefði sprungið á meðan ég sat og hlustaði á verkið. Þarna var frelsið og birtan sem ég saknaði ómeðvitað í heiminum og ég þráði að geta spilað slíkt verk.

Foreldrar mínir vissu frá upphafi að ég yrði afburðahljóðfæraleikari. Vegna þess að ég gerði fátt annað en að æfa mig. Kennarinn í tónskólanum var í stökustu vandræðum því að ég kláraði jafnóðum öll verkefni sem hann setti mér fyrir svo að lokum sameinuðust tveir kennarar og hjálpuðust að við að dúndra á mig lögum og æfingum og ég sat innilokaður í litla barnaherberginu mínu og æfði mig þar til mér tókst að vekja verkin til lífsins. Með óbóið í höndunum leið mér vel. Þá öðlaðist ég vængi sem ég fann ekki annars staðar. Fólk hrósaði mér, dáðist að mér, ég flaug – og fann að það var köllun mín að spila á óbó. Ég var fæddur til þess. Einleikari, virtúós, óskabarn.

Foreldrar mínir studdu mig og hvöttu áfram á alla lund en ég spyr mig í dag hvort þau hafi alið dulinn beyg í brjósti. Ég heyrði pabba eitt sinn segja að afburðahljóðfæraleikarar væru í rauninni bara einmana sálir sem lifðu í gegnum hljóðfærið sitt. Ég vissi að hann var að hugsa um mig og setningin hefur setið í mér. Einmana sál sem lifir í gegnum hljóðfæri. Það er hægt að vekja tónlist til lífsins ef maður spilar hana rétt. Ekkert er dýrmætara. En það þarf að fórna lífinu til þess að spila svo mikið sem einn réttan tón. Auga fyrir auga, tönn fyrir tönn, líf fyrir líf.

Ég hef það fyrir sið að skrönglast fram úr rúminu áður en ég vakna, svefnganga að kaffivélinni og trekkja mér fyrsta sopann. Svo færi ég kærustunni kaffi í rúmið en sit sjálfur í svefnrofunum frammi í stofu og leyfi athyglinni að vakna í rólegheitum á meðan ég plægi samfélagsmiðla og glugga í heimsfréttirnar. En þennan morgun glaðvaknaði ég þegar ég leit í póstforritið mitt og sá svarbréf frá lífeyrisþjónustu Íslandsbanka. Ég hafði skrifað þeim og óskað eftir viðbótarsparnaði enda hefur tekjumódel lífs míns verið með þeim hætti hingað til að ég á ekki krónu í lífeyrissjóðum. Því ætlaði ég að kría eins mikið fé og mögulegt var út úr tónskólanum. Fyrirspurninni hafði einhver Elísa hjá Íslandsbanka svarað svona:

 

Kæri Kristinn,

takk fyrir að hafa samband.

Til að byrja að borga í viðbótarsparnað þarftu að stofna reikning hjá okkur og ákveða hlutfall …

 

Og svo framvegis.

Fram til þessa hafði þessi nafnaruglingur bara valdið mér minniháttar heilabrotum. Mér fannst þetta rétt nógu undarlegt til að ég ætti erfitt með að leiða það hjá mér. En þetta olli mér ekki beinlínis hugarangri. Nú spurði ég mig í fyrsta sinn: er eitthvað að mér?

Ég var nokkuð viss um að ég héti Birkir en fylltist nú knýjandi þörf til að ganga úr skugga um það og leið dálítið bjánalega þegar ég sótti veskið mitt fram á gang og athugaði ökuskírteinið. Stóð heima. Birkir Blær Ingólfsson. Ökuréttindi til 2076.

Ég sneri mér aftur að tölvunni og lúslas póstinn sem ég sendi bankanum. Hann var skilmerkilega undirritaður: Kær kveðja, Birkir. Gat verið að netfangið mitt væri einhvern veginn stillt þannig að nafnið Kristinn birtist sjálfkrafa á öllum pósti sem ég sendi? Þetta var fáránleg hugmynd en ég endaði á því að snúa öllu á hvolf í pósthólfinu mínu til að skoða þetta. Ég er lítið tækni-séní en fann að lokum stillinga-valmynd þar sem stóð skýrt og greinilega að allur póstur frá mér væri sendur í nafni Birkis Blæs af netfanginu birkirbobo@gmail.com.

Því meira sem ég hugsaði um þetta, þeim mun óskiljanlegra varð það. En ég gat ekki látið eins og ekkert væri. Einhvers staðar stendur skrifað að tvisvar sé tilviljun en þrisvar þýði að eitthvað búi að baki. Að lokum hringdi ég í bankann.

Halló. Afsakaðu ónæðið, en ég fékk póst frá ykkur sem var stílaður á einhvern Kristin en ég heiti Birkir og vildi bara leiðrétta það.

Já, fékkstu póst sem átti að berast á einhvern annan?

Nei, ég átti að fá þennan póst. Ég heiti bara ekki Kristinn.

Þjónustufulltrúinn hikaði á meðan hann fletti póstsamskiptunum upp í tölvunni hjá sér.

Þetta eru greinilega bara einhver mistök hjá okkur. Ég skal laga það, sagði hann. En ertu til í að svara þessum pósti?

Þessum pósti?

Já. Til að staðfesta að þú viljir stofna reikning hjá okkur.

Þó að það standi Kristinn efst?

Já já, það skiptir ekki máli.

Er þá ekki allt eins líklegt að einhver Kristinn Blær Ingólfsson fái séreignarlífeyrissparnaðinn minn?

Nei nei, ég sé þetta allt hérna hjá mér. Þessi póstþráður er tengdur við þinn reikning.

Eftir óþægilega langt hik spurði ég:

Geturðu ekki bara sent mér nýjan póst sem ég svara? Og stílað hann á Birki?

Þjónustufulltrúinn skellti upp úr og spurði hvort það væri ekki óþarfa vesen. Ég skammaðist mín.

Ég sat stjarfur við skjáinn og starði í blikandi blámann lengi eftir að ég kvaddi þjónustufulltrúann. Ég vissi ekki hvort mér væri óhætt að svara þessum pósti. Í sannleika sagt var ég hálfhræddur. Mér leið eins og ég myndi óformlega viðurkenna rétt heimsins til að nefna mig Kristin ef ég svaraði þessum pósti sisona. Að lokum skrifaði ég eftirfarandi svarbréf:

 

Góðan dag.

Athugið að ég heiti Birkir.

Ekki Kristinn. Heldur Birkir.

Ég vil gjarna stofna viðbótarsparnaðarreikning hjá ykkur (undir nafninu Birkir).

Ég hyggst borga 2% af launum mínum inn á reikninginn og vil að vinnuveitandinn geri slíkt hið sama.

Kær kveðja,

Birkir

(ekki Kristinn)

 

Ég sat enn með bendilinn yfir senda-hnappnum og braut heilann þegar kærastan mín kom inn í stofuna með handklæði um sig miðja eftir sturtu.

Er ekki allt í lagi?

Ég hrökk við og smellti í fátinu á senda og þar með var það búið og gert. Lífið hafði ávarpað mig Kristin, ég hafði svarað og djúpt í kollinum hafði ég óljósan grun um að það hefði afleiðingar.

Ég mætti í vinnuna og hlustaði á fyrsta nemandann murka lífið úr ræningjavísu Kardimommubæjarins og gerði árangurslausa tilraun til að útskýra takttegundina 6/8, bankaði slögin laust í öxlina á honum þar til hann virtist byrjaður að fyrirlíta mig og næsti nemandi kunni ekki einu sinni að halda á óbói svo ég kenndi honum það og sá næsti spilaði Svanavatnið á vélrænan hátt og ég hrósaði honum í hástert fyrir að halda talningunni út lagið og þannig hélt þetta áfram allan daginn og stundum hljómar óbó mest eins og slösuð önd í uppnámi en ég hugsaði um hvað tilveran er mikil flækja því eina stundina áttu þér leiðarstjörnu sem lýsir í fjarska en raunveruleikinn er fullur af ryki sem fellur á stjörnur sem dofna svo að brátt er aðeins myrkur sem við lýsum upp með sparperum í kennslustofu í tónskóla sem er rekinn til að tendra nýjar leiðarstjörnur í hugum lítilla barna og svo framvegis og ég reyndi að bægja frá mér spurningunni sem suðaði í kjarna mínum:

Hvað er ég að gera hérna?

Vinnustofan mín var í kjallara í grennd við heimilið mitt. Ég hafði lengi kallað hana músarholuna því þar átti músan að vitja mín og veita mér innblástur og hér er ágætis tækifæri til að vara lesendur við orðum, þau eru hættuleg og ég var ekki fyrr byrjaður að tala um að skreppa í músarholuna en það kom upp músagangur í kjallaranum og ég borgaði meindýraeyði allt spariféð mitt. Á leiðinni heim úr tónskólanum kom ég við á vinnustofunni, þar var enga músu að finna og ég kom engu í verk öðru en að hita mér kaffibolla og stara á vegg.

Það var liðið á kvöldið þegar ég kom heim og uppgötvaði að kærastan var með saumaklúbb og allar vinkonurnar í heimsókn. Engin þeirra saumaði en þeim fannst eitthvert sport að vera orðnar miðaldra og vildu ramma það inn með því að láta eins og miðaldra konur í gamladaga og ég er ekki fyrr kominn inn úr dyrunum en kærastan mín kallar úr stofunni:

Kristinn. Komdu og heilsaðu upp á skvísurnar.

Ég frýs. Einhver hefur neglt lappirnar á mér fastar við gólfið. Ósýnilegur nagli gegnum ristina, sennilega stór.

Ha? tekst mér að stynja.

Komdu og segðu hæ!

Ég heyri strax að þær eru í glasi og veit sjálfur ekkert leiðinlegra en drukkið fólk og feta mig hægt inn í stofu líkt og maður sem fer einstigi niður í martröð.

Hæ, Kristinn! segja þær í kór. Mikið líturðu vel út. Hefurðu grennst? segja þær, klæddar í litríkt og með skartgripi. Ég hef hitt þær allar áður. Þær vita að ég heiti Birkir.

Ég kem ekki upp orði, stari bara á þær í heimskulegri undrun, pottþétt með jafn aulalegan spurnarsvip og þorskur þegar hann er dreginn úr hafinu á króki og sér veröldina fyrir ofan vatnsborðið í fyrsta sinn.

Langur dagur? spyr kærastan mín og snýr sér í sömu andrá að vinkonunum. Kristinn er orðinn tónlistarkennari.

Þær veðruðust upp: Til hamingju, þú ert pottþétt frábær kennari og hefur þetta í þér en ég heyrði eitthvað lítið af þessu, var allur inn á við og held ég hafi engu svarað áður en ég hrökklaðist fram. Eftir það var kvöldið í móðu en á einhverjum tímapunkti stóð ég inni á baðherbergi og starði djúpt í spegilinn eins og ég ætti von á að finna einhverjar skýringar á þessu Kristins-máli með því að stúdera á mér andlitið. En ég sá ekkert nema sjálfan mig. Nákvæmlega eins og ég hef alltaf verið. Og samt hafði eitthvað breyst.

Ég þóttist sofa þegar kærastan mín skreið upp í um nóttina, ennþá hífuð. Ég fann að hún sofnaði ekki strax. Ég heyrði það á þögninni. Og ég réð ekki við mig.

Þú kallaðir mig Kristin áðan.

Í alvöru? Ég hlýt að hafa ruglast.

Hver er Kristinn?

Kærastan mín misskildi áhyggjurnar.

Ég er ekki að halda framhjá þér með einhverjum Kristni, ef þú ert að spyrja um það.

Nei, ég meina bara, af hverju myndirðu kalla mig Kristin?

Ég veit það ekki. Skrítið, sagði hún og sneri sér á hina hliðina og var sofnuð innan skamms en ég vakti lengi og hlustaði á nóttina, Eine kleine nachtmusik, þögnin.

Flestir nemendur mínir nenntu þessu óbói engan veginn. Ég hafði aldrei þurft að tala við fólk sem sýndi mér jafnlítinn áhuga en að því leyti var kennslan afhjúpandi reynsla því mig grunaði að flestum fyndist ég einmitt nákvæmlega svona óáhugaverður en hefðu með aldrinum lært að dylja það. Ein stelpan í hópnum var þó öðruvísi, æfði sig samviskusamlega heima og sýndi mér fulla athygli. Ég sá sjálfan mig í henni og öfugt við gleðina sem margir kennarar lýsa yfir slíkri reynslu fann ég fyrir óljósri sektarkennd því ég vissi ekki hvort ég var að gera henni greiða með því að drösla henni í gegnum tónlistarnám, neyða hana til að spila sömu tækniæfinguna hundrað sinnum, hjálpa henni að temja sér aga hljóðfæraleikarans. Þegar ég var yngri trúði ég mínum kennurum og hélt að þessi elja myndi borga sig margfalt í lífinu. Nú var ég ekki lengur viss og leið meira eins og ég hefði óvart gefið heiminum höggstað á mér og vildi ekki gefa heiminum höggstað á þessari stúlku því mér þótti vænt um hana. Þetta var feimin stelpa en þegar hún lék á óbó var eins og hún lifnaði við og mér leið líka alltaf eins og ég væri aðeins meira lifandi þegar ég lék á hljóðfæri og nú sat ég og hlustaði á hana spila og velti því fyrir mér hvort ég væri ennþá lifandi og vissi ekki svarið en þess vegna var ég kannski ekki alveg í jafnvægi þegar ritarinn í tónskólanum birtist í miðri kennslustund til að sýna mér dagskrána.

Ég átti að halda tónfund, nokkurs konar tónleika þar sem nemendur mínir kæmu fram í öruggu umhverfi á sal skólans og spiluðu fyrir hver annan og nánustu fjölskyldu. Framan á dagskránni var svarthvít mynd af mér með óbóið og fyrir neðan stóð stórum stöfum:

BAROKK-TÓNFUNDUR NEMENDA KRISTINS

Ég hafði valið þemað til þess að tónfundurinn minn skæri sig úr, metnaðarfull tónlistaruppákoma með sögulegum fróðleik og skýrum fókus, en þegar ég sá dagskrána langaði mig mest af öllu að skrópa. Ég sá ekki hvaða ástæðu ég hefði til að mæta á tónfund annars manns.

Kristinn, eigum við að halda áfram?

Ég hrökk upp, vissi ekki hve lengi ég hafði setið stjarfur og starað í tómið. Alla vega nógu lengi til að þessi efnilegi óbó-nemandi horfði á mig með áhyggjusvip í andlitinu. Hún var ung. Hún átti allt lífið framundan.

Farðu, sagði ég við hana og var skyndilega mikið niðri fyrir. Þú mátt engan tíma missa. Komdu þér burt á meðan þú getur. Þú átt á hættu að glata sjálfri þér.

Stelpan sat sem fastast, glápti í opinmynntri undrun og í dálitla stund sögðum við ekkert. Að lokum var það ég sem fór, stóð upp með meitlaðan kurteisissvip og gekk út. Ég þurfti nauðsynlega ferskt loft.

Stundum heyrir maður tónlist í heiminum. Það er kannski erfitt að heyra hana í miðri borg en hún er þarna, seytlandi undir hversdagsleikanum í klingjandi hendingum. En nú heyrði ég ekkert þó að ég reyndi í örvæntingu að heyra fyrir mér hendingar í ný tónverk. Ekkert.

Ég var hálfpartinn að vona að stelpan hefði hlustað á mig og skrópað á tónfundinn en hún sat þarna í fremstu röð ásamt fjölskyldu sinni, spennt eins og bogastrengur í kvíðandi tilhlökkun yfir því að koma fram. Salurinn var fullur, nemendur, foreldrar, samkennarar, meira að segja skólastýran var mætt þegar ég gekk inn með kaffibolla í titrandi höndum. Litla kammersveitin mín hafði aldrei fengið jafnmarga áheyrendur og ég fann mig svitna í lófunum, enda vanur því að geta falið mig á bak við óbóið þegar ég kem fram og þó að það sé lítið get ég allur horfið á bakvið það. Nú átti ég bara að tala.

Verið velkomin á þennan barokk-tónfund.

Ég lagði kaffibollann á nálægt borð og byrjaði að segja áheyrendum í grófum dráttum frá hlutverki óbósins á barokk-tímabilinu, vildi útskýra hvílíka sérhæfingu þarf til að dusta rykið af rykföllnum perlum barokksins og ég sagði þeim frá kontrapunkti og tók svo til við að útskýra nótnaskriftina í óbópörtum og veitti því ekki athygli fyrr en ég var kominn vel inn í ræðuna, búinn að útskýra trilluskriftina yfir nótunum og fleira í þeim dúr, að ég er að öskra. Rauður og tútinn í framan.

Það veit kannski enginn, öskra ég og horfi strangur yfir salinn, hvernig átti nákvæmlega að spila hvaða trillur en fólk ver lífi sínu í að stúdera það til þess að geta vakið þessa tónlist til lífsins! Skiljiði það?!

Enginn segir neitt. Nemendurnir þora ekki einu sinni að flissa. Skólastýran minnir á farþega í bílveltu en ég fipast dálítið við þá sjón og teygi mig í kaffibollann sem stendur á borðinu og kólnar. Hendurnar svíkja mig, bollinn fer um koll og kaffi skvettist yfir bunka af afgangs-dagskrárblöðum. Ég snöggreiðist og gríp bollann nær samstundis, grýti honum í gólfið þar sem hann splundrast svo samkoman grípur andann á lofti en ég þríf dagskrárblöðin af borðinu og geri vonlausa tilraun til að þurrka kaffið af þeim með hendinni um leið og ég lít út í salinn og æpi í örvæntingu:

Fólk fórnar lífi sínu fyrir tónlistina því hún er æðsta listin!

Svo er öskur-ræðan búin, ég finn að ég hef ekkert fleira um barokktónlist að segja og held áfram lágum rómi líkt og ég sé bara að tala við sjálfan mig:

Það hef ég líka gert. Og svo halda allir að ég heiti Kristinn. En ég heiti ekki Kristinn. Ég heiti Birkir. Ég hef alltaf heitað Birkir.

Það var líkt og samkoman rankaði við sér.

Já. Birkir. Auðvitað, samsinntu gestirnir, óðfúsir að binda enda á þessa óskemmtilegu uppákomu. Ég horfði yfir salinn, á allt þetta fólk, og vissi að enginn myndi nokkurn tíma gleyma þessu. Eftir stundarhik sagði ég það eina sem mér datt í hug: Þakka ykkur kærlega fyrir gott hljóð og bjóðum fyrsta nemandann velkominn á svið.

Enginn hreyfði sig. Engu foreldri hefði dottið í hug að senda barnið sitt á svið beint á eftir svona fíaskó. Að lokum var það skólastýran sem hjó á hnútinn. Hún stóð á fætur og sagði stilltum rómi að tónfundinum yrði frestað að sinni. Hún hafði ekki fyrr sleppt orðinu en gestirnir þustu á fætur, öllum lá á að komast út. Enginn leit í áttina til mín þar sem ég stóð á sviðinu með bunka af blautum blöðum í höndunum, allir létu eins og ég væri ekki til.

Ég heyrði skólastýruna biðjast afsökunar þegar foreldrarnir þyrptust framhjá henni. Ég heyrði líka að sumir foreldrarnir voru reiðir og sögðust ekki vilja hafa nemendur sína í tímum hjá manni sem væri jafnaugljóslega vanhæfur. Þeir notuðu nákvæmlega þessi orð: augljóslega vanhæfur.

Ég seig niður í einn stólinn og varð litið á dagskrárblöðin í höndum mér. Pappírinn var gegnsósa og blekið farið að renna til. Yfirskriftin hafði þó að mestu sloppið: BAROKK-TÓNFUNDUR NEMENDA KRISTINS en myndin af sjálfum mér var byrjuð að mást út og sýndi nú óþekkjanlega fígúru með einhvers konar flautuprik í höndunum og mér leið eins og við hefðum enga stjórn og það væri auðveldara að týna sjálfum sér en nokkru öðru.

Eftir stundarkorn kom skólastýran aftur í salinn.

Ég hef aldrei vitað annað eins, sagði hún, ekki beint reiðilega heldur undrandi.

Mig langaði til að svara en ég átti ekki fleiri orð, þau voru gengin til þurrðar, svo í staðinn saug ég upp í nefið.

Veistu það, ég er ekki viss um að þetta sé rétta starfið fyrir þig, bætti hún við eftir langa þögn.

Þetta var ef til vill það sem ég hafði beðið eftir, tækifæri til að standa í lappirnar, standa upp og fara. En við frekari umhugsun var bara eitt í stöðunni:

Jú, gerðu það. Ég má ekki missa þetta starf, svaraði ég og það var alveg satt. Á hverju átti ég annars að lifa? Og ég grátbað hana um að fá að halda starfinu.

Gott og vel. Hún settist hjá mér og stundi.

Kristinn minn, sagði hún og ég hafði ekki fyrir því að leiðrétta hana.

Ég veit að kennarastarfið er ekkert grín. Þú ert að kenna mörgum börnum. Því fylgir álag. En ef þú vilt halda áfram þá verður þú að leita þér hjálpar. Ég get mælt með sálfræðingi sem hefur unnið mikið með kennurum. Hann hjálpaði mér á sínum tíma og ég get komið þér strax að.

Hún var gæskan holdi klædd og lagði höndina yfir herðar mínar. Ég var sennilega byrjaður að gráta.

Og nú er ég sestur í mjúkan hægindastól hjá sálfræðingi sem meðhöndlar kennara og hann biður mig að segja dálítið frá sjálfum mér. Ég þegi eitt andartak og spyr mig í hljóði: getur eitt orð breytt lífi, eitt orð, sagt í hálfkæringi á röngum tíma í röngu samhengi – Ég heiti Kristinn – og allt lífið og öll tilveran tekur beygju yfir á nýtt spor? Þarf ekki meira til?

Svo svara ég.

Já. Sem sagt. Ég heiti Kristinn. Og ég er tónlistarkennari.