Maí 1933. Mig hefur dreymt heim á hverri nóttu síðan ég kom hingað, svo þú sérð að hugurinn er hjá ykkur. Samt líður mér vel. Ferðin gekk vel, ekkert sjóveik, fór svo með drossíu hingað og það hefði verið lystitúr á vegi eins og hér er, hefði ég ekki verið að fara á hæli …
Þetta er upphafið á fyrsta bréfi ömmu minnar frá Kristneshæli til elsta sonar síns. Þangað var hún send frá eiginmanni og ellefu börnum, því yngsta á þriðja ári, og þaðan átti hún ekki afturkvæmt. Hún lést í ársbyrjun 1934.
Saga hennar gæti sem best verið með í sérkennilegu og áhrifamiklu leikverki Hælisins og Leikfélags Akureyrar, Tæringu, sem leikið er í einni byggingunni á Kristnesi undir stjórn Völu Ómarsdóttur. Verkið er samsköpun allra þátttakenda eftir hugmynd Maríu Pálsdóttur og innblásið af sögu sjúklinganna á hælinu, ekki síst úr bréfum, en Vilhjálmur B. Bragason skrifar textann.
Aðeins tíu gestir fá að koma á hverja sýningu. Vilborg yfirhjúkrunarkona (Kolbrún Lilja Guðnadóttir) tekur á móti hópnum utan dyra og við erum umsvifalaust sett í hlutverk í sýningunni sem nýir starfsmenn á hælinu. Hún kynnir okkur ströngum rómi fyrir reglum sem gilda á staðnum. Við megum ganga um vistarverurnar, skoða allar aðstæður, tæki og tól, kynna okkur ástand sjúklinganna en fara mjög hljóðlega, ekki segja orð, og við verðum öll að vera með grímur, alltaf, því berklar eru bráðsmitandi sjúkdómur og þarna liggja þeir í loftinu. Síðan erum við leidd inn í húsið, um þrönga gangana, lítil en snyrtileg herbergin og vinalega stofu; allur bragur minnir á fjórða áratug síðustu aldar.
Alls staðar eru sjúklingar, þeir liggja í rúmum sínum, tefla saman skák í stofunni, liggja sér til heilsubótar undir teppi fyrir utan húsið, skrifa bréf. Það er haldinn dansleikur og við sjáum að ástin lætur á sér kræla – við fréttum meira að segja að það sé par að kyssast í kjallaranum þó að það sé stranglega bannað. Óleyfilegust af öllu eru ástarsambönd sjúklinga og starfsfólks en hvernig á að koma í veg fyrir slíkt, allt er þetta ungt fólk „með lífið í augunum og dauðann í brjóstinu“, eins og segir í dagbókarfærslu sjúklings frá 1938. Meira að segja Vilborg yfirhjúkrunarkona gefur í skyn að hún hafi ekki farið varhluta af ástinni, alveg sama hvað hún var bönnuð.
Þetta var í rauninni ólýsanleg upplifun. Mér leið eins og ég væri draugur, ósýnileg vofa þar sem ég leið milli vistarveranna og tók inn öll skilaboðin sem gengu á mér, miskunnarlaust. Lengi tókst mér að hemja tilfinningarnar en það var erfitt að gráta ekki örlög ungu móðurinnar (Birna Pétursdóttir, frábær) undir lokin. Árni Beinteinn, Sjöfn Snorradóttir og Stefán Guðlaugsson snurtu mann líka djúpt með innlifuðum leik sínum og Kolbrún Lilja var ósérhlífnin og skörungsskapurinn uppmálaður í hlutverki Vilborgar. Búningar Auðar Aspar Guðmundsdóttur voru vel hugsaðir og leikmyndin sannfærandi. Vídeóverk Maríu Kjartansdóttur með fleiri leikurum víkkuðu og breikkuðu verkið enda smekklega notuð til að fjölga þátttakendum og stækka þröngt rýmið.
Alúðarþakkir fyrir ótrúlega leikhúsreynslu.
Júlí 1933. Ég segi þér nú ekkert af mér núna því pabbi þinn kom til mín í gær og segir ykkur af mér. Aldrei hefur mig langað meira til að stansa klukku en á meðan hann var hér í gær …
Silja Aðalsteinsdóttir