Aðstandendur nýju óperunnar, Ekkert er sorglegra en manneskjan, sem var frumsýnd í Tjarnarbíó í gærkvöldi, hafa tekið áhorfendum sínum vara fyrir að sjá söguþráð út úr verkinu. Það er „póstdramatískt“, segja þeir Friðrik Margrétar-Guðmundsson tónskáld og Adolf Smári Unnarsson leikstjóri og textahöfundur. En það er hrikalega erfitt að byrja ekki undir eins að spinna sögu út frá því sem gerist á auðu, hálfmyrku og þokufullu sviðinu. Þar ganga fjórar manneskjur um með flugfreyjutöskur og sendu mig undir eins á stærstu og ljótustu flugvellina í útlöndum sem ég hef komið á (þar átti Gatwick líklega vinninginn). Á einmanalegu ráfi sínu eru manneskjurnar að hugsa og við heyrum hugsanir þeirra sem snúast um samskipti við aðra, vandasöm íhugunarefni, óttann, tímann, hamingjuna, jafnvel heimspekilegar kenningar um lífið, hvort sé betra að lifa í núinu eða hafa framtíðaráætlanir og ganga út frá þeim. Verður ekki að vera tilgangur?
Komin svona vel af stað var enginn vandi að fylgja ferðalagi fjórmenninganna áfram. Þau voru greinilega í hópferð og gerðu ýmislegt saman, bæði í leik og texta, en brustu við og við út í einsöng. Ólafur Freyr Birkisson bass-barítón söng um líf sitt og áhyggjur í sinni aríu meðan hin gerðu teygjuæfingar í flugferðinni. María Sól Ingólfsdóttir sópran átti ansi fyndna aríu með texta úr alls konar útskýringar- og afsökunarfrösum. Aríur þeirra Dags Þorgrímssonar tenórs og Heiðdísar Hönnu Sigurðardóttur sópran voru tilbrigði við stef hamingjuleitar og hugleiðslu. Piltarnir syngja saman dúettinn „Frelsa mig frá beiskri angist / Lát mig fá sem hjartað þráir…“ Ráðandi tilfinning í öllu verkinu er óhamingja mannsins, sett fram á hæfilega kaldhæðinn hátt. Ekkert er að hjá okkur, ekki neitt, en lífið er samt eyðimerkurganga, segja þeir Adolf Smári og Friðrik. Bót í máli er að kannski er „vín í eyðimörkinni“!
Ferðalagið hafði legið til heitari landa, það mátti sjá á fatnaði þátttakenda, og átti að vera til hvíldar og afslöppunar. Það gekk nú ekki vel. Tímafrekar „jógaæfingar“ gerðu ekkert annað en stressa ferðalangana og gesti í salnum líka. Vissulega eru endurtekningar ríkur þáttur í óperum en þessi fór með það einkenni út fyrir öll mörk! Þó var ég hræddust um að steinsofna þegar þau fóru að kyrja slökunarmöntruna í kór en stigvaxandi þungi og hraði í flutningnum sviptu burt allri syfju.
Utan um þetta allt vafðist tónlistin, fjölbreytt og spennandi. Þar máti heyra tónsettar stunur og dæs og yrðingar af ýmsu tagi, klassískt söngles, hróp og óp, en líka mjúkar hendingar sem minntu mest á kirkjutónlist fyrri alda. Öll fjögur hafa vel skólaða og fallega rödd sem hlýddi þeim fullkomlega. Öryggi þeirra í kóratriðum, hvort sem þau voru sungin eða töluð, var aðdáunarvert; þau voru alveg samtaka í rödd og hreyfingum. Sex manna hljómsveit lék með á sviðinu undir stjórn Péturs Björnssonar fiðluleikara og átti stóran þátt í hve vel tókst til.
Það hefur ekki verið beinlínis borðleggjandi hvernig ætti að sviðsetja þetta verk og ástæða til að óska Adolfi Smára, Bryndísi Ósk Þ. Ingvarsdóttur leikmynda- og búningahönnuði og Matthíasi Tryggva Haraldssyni dramatúrg til hamingju fyrir verulega áhugaverða og vekjandi sýningu á nýstárlegu verki.