Oft hef ég velt því fyrir mér á langri ævi hvað ég myndi hafa með mér ef ég þyrfti skyndilega að flýja að heiman vegna hamfara af einhverju tagi. Valið yrði sjálfsagt erfiðara hjá mér en Alex (Kjartan Darri Kristjánsson / Óðinn Benjamín Munthe), söguhetju barnaleikritsins Tréð eftir Söru Martí Guðmundsdóttur og Agnesi Wild sem var frumsýnt í Tjarnarbíó í dag á vegum Lalalab og Listahátíðar.
Heimili Alex er í rúst eftir jarðskjálfta, fjölskylda hans týnd í rústunum og ekkert eftir af eigum hennar annað en ein grein af sítrónutrénu í garðinum. Þetta er sannkallað ættartré sem hefur fylgt fjölskyldunni kynslóðum saman og Alex ákveður að taka greinina með sér og láta ekki staðar numið fyrr en hann hefur fundið henni góða og næringarríka mold að festa rætur í. Það verður líka leit hans sjálfs að nýju lífi og umhugsunarefni fyrir áhorfendur: Hvað er það sem fylgir okkur alltaf, hvað sem gerist og hvert sem við förum?
Alex var úti í garði en ekki inni í húsi þegar jarðskjálftinn reið yfir af því hann var að æfa sig að vera hugrakkur. Honum hættir nefnilega til að mikla fyrir sér verkefnin framundan en bæði mamma hans (Guðrún Gunnarsdóttir) og Móna systir (Elísabet Skagfjörð / Nadía Líf Guðlaugsdóttir) hafa verið að stappa í hann stálinu, segja honum að hætta að búast við því versta og reikna frekar með því að allt gangi vel. Sú heimspeki verður hálmstráið á einmanalegu ferðalagi drengsins um framandi borgir og endalausar eyðimerkur á flóttanum að heiman með tréð í fanginu. Þegar öllu virðist vera lokið, tréð að visna og einhver ókunnur á ferli í myrkum skóginum, þá gerist kraftaverkið: Sá ókunni er engin önnur en Móna systir og hún hefur fundið þeim samastað hjá frændfólki í öðru landi.
Sagan er einföld og boðskapurinn bæði skýr og vel fram settur í máli og myndum. Það eina sem stóð í félaga mínum, Aðalsteini níu ára, var óvænt endurkoma Mónu og spurning hvort ekki mætti bæta inn í textann einni setningu eða svo um að henni hefði verið bjargað úr rústunum eftir að björgunarmenn fóru burt úr þorpinu með Alex.
Skemmtilegust þótti félaga mínum margslungin aðferðin við að koma verkinu til skila. Á sviðinu eru leikararnir Kjartan Darri og Elísabet sem leika fyrir okkur og segja okkur söguna. En þau stjórna líka hreyfingum útklipptra teikninga Elínar Elísabetar Einarsdóttur sem varpað er upp á tjald og minnti mig á mína endalausu dúkkulísuleiki í æsku. Teikningarnar djarfar og tilgerðarlausar, húmorískar, hreinar og skýrar, ekkert fer þar milli mála. Sýningin er þannig einkar nýstárlega hugsað sambland af teiknimynd og leiknu verki. Auk Elínar koma þar að Eva Björg Harðardóttir leikmyndahönnuður, Ingi Bekk og Kjartan Darri með ljós og myndband og Stefán Vigfússon tæknimaður.
Leikararnir í teiknimyndinni tala af upptöku en raddir þeirra Óðins Benjamíns og Kjartans Darra féllu vel saman og leikur Óðins var ekki síður innlifaður, einlægur og áhrifaríkur en eldri útgáfunnar af Alex. Sömuleiðis var gott samræmi með leikkonunum tveim sem léku Mónu. Margir fleiri áttu raddir í teiknimyndinni, m.a. var Jóhann Axel Ingólfsson rödd pabba barnanna, Guðmundur Felixson var björgunarmaður Alex, Katrín Mist Haraldsdóttir og Adda Rut Jónsdóttir voru meinfýsnir kaktusar sem spá ekki vel fyrir litla sítrónutrénu í eyðimörkinni, heimaríku grenitrén í skóginum voru leikin af Maríu Guðmundsdóttur, Ólafi Ásgeirssyni og Sveini Óskari Ásbjörnssyni og frændfólkið væna túlkuðu þau Alexía Björg Jóhannesdóttir og Friðrik Friðriksson. Leikstjórar eru höfundarnir, Sara Martí og Agnes Wild og ferst þeim vel úr hendi að samræma leikraddir og sviðsleik.
Verkið er umvafið tónlist sem tónskáldið Sóley Stefánsdóttir leikur sjálf á sviðinu og skapar taktinn í sýningunni sem eðlilega var ólíkur eftir atburðum og aðstæðum söguhetjunnar. Hljóðmyndina gerir Stefán Örn Gunnlaugsson; hún átti stóran þátt í því að gera jarðskjálftann eins öflugan og raunin var. Sýningin er hluti af Listahátíð í Reykjavík á þessu einkennilega ári en ég vona að hennar bíði langt og gott líf því erindi hennar er brýnt.