Kvenfélagið Garpur frumsýndi í gærkvöldi á Nýja sviði Borgarleikhússins leikritið Er ég mamma mín? eftir Maríu Reyndal sem einnig leikstýrir. Egill Ingibergsson sá um leikmynd og lýsingu, Úlfur Eldjárn um tónlist og hljóðmynd og Margrét Einarsdóttir hannaði búninga.
Bæði leikmynd og búningar eru erfiðari viðfangs en venjulega í þessu verki af því að það gerist á tvennum tímum, um 1980 og í samtímanum. Og við fáum ekki annað tímabilið fyrir hlé og hitt eftir hlé, eins og hefði verið hugsanlegt, heldur eru þau fléttuð saman; við sjáum einkum á fatnaði persónanna hverjar þær eru og hvar þær eru staddar í tíma í hverju atriði fyrir sig. Sviðið er það sama, enda búa báðar kynslóðir í sama húsinu, en með lýsingu er dregin athygli að ólíkum hlutum – túbusjónvarpi eða flatskjá, til dæmis. Ég átti dálítið erfitt með þessi tímaskipti því ég sá mig að sjálfsögðu í hlutverki mömmunnar á fyrra tímabilinu, eigandi einmitt dóttur sem fermdist árið 1979 eins og stúlkan í verkinu, en ég kannaðist ekki við margt, hvorki í umhverfinu á sviðinu né lífi foreldranna. Hvort tveggja minnti mig mun meira á kynslóð foreldra minna sem voru 20–30 árum eldri en ég. En auðvitað eru allir tímar alltaf til í einhverju formi – eða hvað sagði ekki T.S. Eliot: „Time present and time past / Are both perhaps present in time future, / And time future contained in time past.“
Í fortíðinni býr Ella (Katla Njálsdóttir), stúlka á fermingaraldri, hjá mömmu (Sólveig Guðmundsdóttir) og pabba (Sveinn Ólafur Guðmundsson) í myndarlegu húsi sem hafði verið æskuheimili mömmu. Pabbi er í viðskiptum og hefur efnast vel, mamma er heimavinnandi húsmóðir, Ella er mikil pabbastelpa. Svo fer mamma með pabba á námskeið hjá Dale Carnegie og honum til undrunar og stolts kemst hún undireins með tærnar þar sem hann hefur hælana í ræðu og riti. En hann er óhressari með vinkonuna sem hún eignast við þetta tækifæri, Rachel (María Ellingsen) sem vinnur hjá Upplýsingaþjónustu Bandaríkjanna. Rachel sér í mömmu Ellu aðra konu en umhverfið hefur viðurkennt og byltir lífi hennar, eiginmanninum til sárrar raunar.
Í samtímanum er Ella (Sólveig Guðmundsdóttir) gift Guðjóni (Sveinn Ólafur Guðmundsson), hún er læknir en hann er tölvufræðingur og vinnur mikið heima. Þau eiga einn dreng á fermingaraldri, Matthías (Arnaldur Halldórsson). Fjölskyldan býr á æskuheimili Ellu en mamma hennar (Kristbjörg Kjeld) býr í eigin íbúð. Eftir mjaðmaaðgerð flytur hún þó um tíma á sitt gamla heimili.
Í nútíðarköflunum kemur smám saman í ljós að pabbi Ellu hefur yfirgefið þær mæðgur eftir fermingu Ellu og skilið þær eftir í miklum fjárhagsvandræðum. Mamman þurfti að vinna baki brotnu (eins og hún klifar á) til að halda húsinu og þær mæðgur slitu öllu sambandi við pabbann. Hvað varð um hann er óljóst en þegar Matthías heimtar að fá að hitta afa sinn, sem hann hélt að væri löngu dáinn, kemur hann (leikinn af Sigurði Skúlasyni) glaður í fermingarveislu drengsins. Margra ára óánægja og óhamingja Ellu og móður hennar var kannski óþörf, þegar allt kemur til alls.
Ég þori að veðja að María Reyndal hefur upphaflega hugsað þetta efni fyrir sjónvarpsmynd eða jafnvel seríu og þar hefði margt orðið einfaldara. Eins og þetta kemur fyrir á sviðinu fer of mikið af orkunni í að fylgjast með umskiptunum. En samtölin eru vel gerð og oft bráðfyndin og leikurinn verulega fínn. Sólveig glansar auðvitað í tvöföldu hlutverki miðaldra mæðranna á báðum tímaskeiðum, sem reynast vera býsna líkar, og Sveinn Ólafur er bæði sannfærandi gamaldags heimilisfaðir og hálfgerður harðstjóri í hlutverki pabba Ellu og mjúkur nútímapabbi sem eiginmaður Ellu. Katla og Arnaldur standa sig vel í hlutverkum fermingarbarnanna, Ella merkjanlega bældari en Matthías eins og heimilisbragurinn gerir ráð fyrir. María Ellingsen er frábær fyrir hlé sem hin ameríska Rachel, Arizonahreimurinn alveg skotheldur.
En mesta gleði veittu þau mér gömlu brýnin. Sigurður Skúlason var ótrúlega brothættur, lítill og horaður gamall maður í sínu hlutverki og Kristbjörg Kjeld vann beinlínis leiksigur í hlutverki mömmu Ellu á gamals aldri. Þvílík snilldarmeðferð á texta. Hver einasta setning varð hennar einkaeign og karakterinn svo gegnumhugsaður að hvergi vottaði fyrir glufu. Ég vil beinlínis biðja alla leikhúsunnendur að láta tækifærið ekki framhjá sér fara til að sjá þessa drottningu íslenska leiksviðsins til áratuga leggja það undir sig einu sinni enn.