„Komið eins og þið eruð. Með barn á brjósti eða ekki. Svefnvana eða alsælar eftir heila nótt af ótrufluðum svefni … Endilega gefðu barninu þínu brjóst á meðan og við eigum fullt af auka bleyjum.“ Hvenær höfum við séð slíka auglýsingu fyrir leiksýningu? En svona kynna fjórar leikkonur sýningu sína Mæður sem var frumsýnd í Iðnó í gærdag. Þar voru meira að segja fáein kornabörn og líka nokkur stærri börn þótt ekki væri sérstaklega hvatt til þess að taka þau með því textinn er ansi hispurslaus á köflum, svo ekki sé meira sagt.
Verkið er eftir fjórar danskar leikkonur, Christinu Sederqvist, Önnu Bro, Juliu Lahme og Mette Marie Mai Lange og leikkonurnar fjórar sem tóku það upp á sína arma hér eru Aðalbjörg Árnadóttir, Kristín Pétursdóttir, María Heba Þorkelsdóttir og Lilja Nótt Þórarinsdóttir sem hafði forystu um verkefnið. Kristín Björg Guðmundsdóttir þýddi en leikstjóri er Álfrún Helga Örnólfsdóttir.
Í kjarna verksins eru fjórar konur sem hittast í fyrsta sinn í mömmuklúbbi, nýbakaðar mæður með ungbörnin sín. Þær koma með krílin í pappakössum með áletrun sem er gjarnan notuð á útsöluvörur: Fæst hvorki skipt né skilað! Þær fálma sig misjafnlega feimnar áfram í samtölum og frásögnum af lífi sínu en kynnast smám saman betur, verða opnari og hreinskilnari hver við aðra eftir því sem fundum þeirra fjölgar. Inn á milli fáum við svo í eintölum sögur annarra kvenna en þeirra fjögurra, allt frá gamansögum upp í hrikalegar lífsreynslusögur. Við samferðakonurnar vorum sammála um að þetta væri ekki sýning fyrir óléttar konur en alger skyldusýning fyrir þær sem þegar eru komnar með barn eða börn.
En þó að ekki séu allar sögur snyrtilegar (eða einmitt þess vegna) er sýningin stórskemmtileg og fyndin og leikkonurnar njóta þess að flytja hann með öllum ráðum. Skemmtilegastir fannst mér kaflarnir þar sem þær sviðsettu frásögurnar. Lýsing Maríu Hebu á nótt í lífi þriggja barna móður þar sem atburðarásin var rakin með frásögn og látbragðsleik, stundum frá mínútu til mínútu, var drepfyndin, og samtal þeirra Aðalbjargar og Lilju Nætur í ræktinni um leið og þær gera helstu styrktaræfingar fyrir mennskar nýbærur ætlaði sömuleiðis að kæfa mig úr hlátri. Lýsing Kristínar á hlutverki „gamaldags pabbans“ sem hún þráði að gegna var líka markviss og afhjúpandi. Mér varð raunar hugsað til hennar í gærkvöldi á seinni frumsýningu dagsins, Er ég mamma mín; þar er einmitt einn svona „gamaldags pabbi“!
Hildur Selma Sigbertsdóttir er skrifuð fyrir búningum, sem voru einfaldir og mjög hentugir, og líka leikmyndinni en glimmertjöldin fínu voru þó eftir Abigail Portner. Tónlistin er eftir Steinunni Jónsdóttur og Jóhann Bjarni Pálmason sá um lýsinguna. Þetta er afar óvenjuleg leiksýning, sannkallað hjartabarn aðstandenda sinna og fær mín innilegustu meðmæli.