Eftir Silju Aðalsteinsdóttur

Úr Tímariti Máls og menningar 4. hefti 2008

 

Fyrsta frumsýning vetrarins var í barnaleikhúsinu Kúlunni í Þjóðleikhúsinu á Klókur ertu, Einar Áskell, sem brúðumeistarinn Bernd Ogrodnik samdi og setti upp í samstarfi við höfund þessara vinsælu bóka, Gunillu Bergström (hún valdi Bernd sjálf til verksins) og leikstjórann Kristján Ingimarsson. Þetta var klassískt brúðuleikhús að því leyti að hér var allt smátt og persónulegt og treyst á ímyndunarafl áhorfenda. Ekki sviku börnin Bernd og Einar Áskel, en fullorðnum þótti sýningin fremur tíðindalítil þótt bæði væri hún sæt og smekkleg.

Afkastamikið leikskáld

Næst kom Fýsn í Borgarleikhúsinu, nýtt verk eftir hið efnilega leikskáld Þórdísi Elvu Þorvaldsdóttur Bachmann sem Marta Nordal stjórnaði. Þetta er lokaverkið í þríleik sem hófst í Hafnarfirði með Brotinu fyrir þremur árum og hélt áfram með Hungri á litla sviði Borgarleikhússins í hittifyrra. Þórdís segir sjálf að þríleikurinn skoði þráhyggju fólks. Í Fýsn kynnist Fanney Sævari, myndarlegum ungum manni, og verður ástfangin. Þau giftast og allt gengur vel uns Fanney fer að leiðast áhugaleysi Sævars á líkamlegu samneyti við hana. Þar kemur að hún togar upp úr honum að hann berjist við þrá sína eftir ungum drengjum. Við skynjum að Sævar hefur sjálfur verið misnotaður af föður sínum og hafi látið undan hvötum sínum þegar hann var ölvaður. Hann hélt að hann gæti haldið þeim niðri með því að hætta að drekka og gifta sig, og það gengur um tíma – en ekki til lengdar. Fanney verður að vonum illa slegin en vill gefa Sævari og hjónabandinu annað tækifæri. Það fer ekki vel.

Ekki þarf að koma á óvart að Fanney varð mun sennilegri persóna en Sævar. Höfundur á eðlilega auðveldara með að lifa sig inn í hugsanir hennar. Sara Dögg Ásgeirsdóttir lék hana af miklum þrótti og sannfæringarkrafti; geðsveiflur persónunnar gengu nærri áhorfendum sem bæði skildu hana og fundu til með henni. Ekki dró úr áhrifum hvað búningarnir sem Rebekka A. Ingimundardóttir hannaði á hana voru glæsilegir. Textinn sem höfundur lagði Sævari í munn, bæði í samtölum hans við konu sína og eintölum, voru helst til kunnuglegar klisjur úr umræðum, greinum og skálduðum textum um barnagirnd á undanförnum árum, en Björn Ingi Hilmarsson fór virkilega vel með hann. Bestur var hann þó í samskiptum sínum við unga manninn sem þjónar þörfum hans og Víðir Guðmundsson lék af mikilli íþrótt.

Ekki veit ég um ykkur en sjálf hef ég upplifað það nokkrum sinnum að hlusta á manneskju segja mér langa sögu – af eigin reynslu eða annarra – af svo mikilli snilld að það varð í senn skáldskapur og leikhús. Fáeinum vikum eftir frumsýninguna á Fýsn fór upp á svið í Iðnó verkið Dansaðu við mig eftir Þórdísi Elvu á vegum Leikhúss andanna undir stjórn Jóns Gunnars Þórðarsonar (sem sló í gegn í Austurbæ í byrjun þessa árs með leikstjórn sinni á Fool for Love). Hér freistar Þórdís þess að láta tvo einstaklinga segja sögu sína án þess að leika mikið hvort á annað en í sýningu nánast af fullri lengd, og má það heita alldjarft spil. Framan af heldur maður að þau komi hvort öðru við, Pála (Þrúður Vilhjálmsdóttir) og Tómas (Höskuldur Sæmundsson); að hann sé að segja sína útfærslu á sameiginlegri sögu þeirra og hún sína. En fljótlega verður ljóst að þótt þau séu bæði að segja sínar ástarsögur þá eru viðföng ástarinnar annað fólk, og saga einstaklinganna á sviðinu snertist ekki fyrr en alveg í lokin. Þetta eru dapurlegar sögur, og þó segja þær báðar af heitri, endurgoldinni ást. Annað klúðrar sinni af ragmennsku og verður af hamingjunni, hitt missir sína en heldur í afleiðingar hennar af dirfsku, þvert gegn venjulegri skynsemi. Við þá ákvörðun fléttast líf Tómasar og Pálu saman og nýtist þá sár reynsla hans. Þetta var snjall endir á ágætum texta.

List söguleikhússins er að segja sögu af einlægni og með ekta sögumannsáherslum. Lokka áheyrandann inn í söguna með engum brögðum öðrum en töfrum raddar sinnar. Þetta tókst Þrúði með miklum ágætum. Hún varð Pála, sérvitri raunvísindanördinn sem er allt í einu farin að bera húsgögn fyrir mann sem hún þekkir ekki neitt en sem fyrir sitt leyti þráir að láta drauma hennar rætast. Það var merkilegt að finna úti í sal hvernig hjarta manns fór að slá hraðar og þyngra af samúð með þessari einmana stúlku sem sér í lokin fyrir sér framtíð í varanlegum skugga yfirvofandi harms. Höskuldi tókst ekki eins vel að ná sannfærandi sögumannsrödd, hann var meira að reyna að leika setningarnar sínar og hætti til að missa slagkraft frásagnarinnar. En sýningin snart mann djúpt – og minnti raunar á eina eftirminnilegustu sýningu undanfarinna ára, Dýrlingagengið sem Viðar Eggertsson setti upp í Hafnarhúsinu á vegum EGG-leikhússins fyrir einum sex árum. Það er ekki ónýtt fyrir ungt leikskáld að fá tvö verk á fjalirnar sama haustið, enda fer Þórdísi Elvu hratt fram.

Macbeth í teiknimynd

Þjóðleikhúsið frumsýndi Macbeth á Smíðaverkstæðinu í október í útfærslu tveggja ungra leikara, Stefáns Halls Stefánssonar og Vignis Rafns Valþórssonar sem báðir léku líka í sýningunni. Þetta var mikið sprell utan um sígildan texta Shakespeares sem skorinn var niður í um það bil klukkutímalanga sýningu. Í minningunni eru fyrst og fremst eftir sterkar myndir í svörtu og rauðu: Svartklæddir leikarar og rautt blóð, agað kæruleysi í hreyfingum og fasi. Eiginlega var þetta eins konar myndasöguútfærsla á verkinu, það mátti líka sjá á förðun leikaranna. Einkum tókst vel að teikna leikkonurnar, Vigdísi Hrefnu Pálsdóttur í hlutverki lafði Macbeth og Pattra Sriyanonge sem lafði Duncan. Mér varð enn hugsað aftur í tímann, nú til sýningar Stevens Berkoffs á Salome eftir Oscar Wilde sem ég sá í Dublin fyrir um tuttugu árum. Sú var svört og hvít og öll uppsetningin skírskotaði beint til myndasagna.

Þessari sýningu var bölvanlega tekið af leikhúsgagnrýnendum en betur af markhópnum sem var ungt fólk. Mér fannst sýningin hafa margt við sig og tek ekki undir stærstu orðin gegn henni, en held að aðalskyssan hafi verið að aðstandendur skyldu bæði stjórna og leika. Það lukkast ekki alltaf.

Ólafur Haukur Símonarson átti líka tvær …

sýningar á fjölunum í haust, eins og Þórdís Elva: Janis 27 í Íslensku óperunni og Fólkið í blokkinni. Því miður sá ég ekki Ilmi Kristjánsdóttur og Bryndísi Ásmundsdóttur túlka Janis Joplin, en Fólkið sá ég, leikrit með söngvum í Borgarleikhúsinu undir stjórn Unnar Aspar Stefánsdóttur. Umsjón með tónlistinni var í höndum Jóns Ólafssonar.

Fólkið í blokkinniUnnur Ösp fékk þá hugmynd, væntanlega til að lyfta fremur fyrirsjáanlegu verki, að koma áhorfendapöllum fyrir á sjálfu hringsviðinu og láta leika í kringum það. Sviðinu var sem sagt ekki snúið í hringi til að sýna okkur hinar ýmsu vistarverur persónanna heldur var okkur áhorfendum snúið eftir því hvar verið var að leika. Þetta kom vel út. Og margt í viðamikilli sviðsmynd Vytautas Narbutas var skemmtilegt, íbúð fjölskyldunnar með baði og öllu tilheyrandi, kompan í kjallaranum sem verður griðastaður útigangskonunnar (Margrét Helga Jóhannsdóttir), hjólageymslan og leikvöllurinn með rólunum.

“Ég trúi á fólk sem finnur til,” syngur Ólafur Haukur á plötu sinni Kvöldfréttum sem að öðru leyti er sungin af Olgu Guðrúnu Árnadóttur. (Þess má geta innan sviga að sú dýrlega hljómplata hefur verið gefin út á geisladisk og er alveg eins fersk og heillandi og fyrir þrjátíu árum.) Þessar línur sem höfundurinn syngur komu í hugann undir sýningunni á Fólkinu í blokkinni; það fólk er ekki beint gæfulegt en höfundinum þykir fjarskalega vænt um það samt.

Fólkið í blokkinni ætlar að setja upp söngleik um sig sjálft undir stjórn Tryggva (Jóhann Sigurðsson) sem einu sinni var í vinsælli hljómsveit. Nú selur hann líftryggingar og huggar sig einum of oft við flöskuna. Hann er vel kvæntur spákonunni Sollu (Jóhanna Vigdís Arnardóttir) og á með henni unglingana Söru (Sara Marti Guðmundsdóttir) og Óla (Hallgrímur Ólafsson) sem er ekki alveg eins og fólk flest. Hallgrímur er býsna minnisstæður sem holgóma skrifstofumaðurinn í Fló á skinni fyrir norðan í fyrravetur og hann fer vel með Óla, þótt persónan sjálf sé kunnugleg. Sara á kærastann Hannes (Guðjón Davíð Karlsson) og er brösótt samband þeirra einn af meginþráðum. Fátt kemur á óvart þar. Aukapersónur lífga mikið upp á sýninguna; Halldóra Geirharðsdóttir er dásamleg í hlutverki pólsku nuddkonunnar Valerí og Jóhannes Haukur Jóhannesson verulega fínn í hlutverki fúla dyravarðarins.

Það kemur á óvart að Ólafur Haukur skuli ekki nota fleiri lög af vinsælli hljómplötu með þessu sama nafni sem eflaust hefur laðað marga að sýningunni. Þá hefði hún líka staðið betur undir söngleikjastimplinum. En þetta er ljúf sýning og ágæt skemmtun.

Skipreika fólk

Finnist manni fólkið í blokkinni hans Ólafs Hauks ekki til stórræðanna þá er ekki betur komið fyrir fólkinu hans Jökuls Jakobssonar í Hart í bak, sem Þjóðleikhúsið frumsýndi um miðjan október undir stjórn Þórhalls Sigurðssonar. Verkið var fyrst sýnt í Iðnó 1962, fyrir nærri hálfri öld, en á einkennilega vel við þessa dagana þegar manni virðist (á hápunktum svartsýninnar) að þjóðarbúið sé komið í strand og ekkert fyrirliggjandi fyrir ungt fólk annað en flýja land.

Hér er líka aðalpersóna sem man fífil sinn fegri, eins og Tryggvi söngvari í blokkinni, Jónatan skipstjóri (Gunnar Eyjólfsson) sem einu sinni réð yfir glæsilegasta skipi þjóðarinnar en sigldi því í strand og getur ekki um annað hugsað síðan. Við slysið missti hann bæði æruna og vinnuna og flutti úr skipstjórahúsinu fína í skúraleiðingar niðri við sjó, og dóttirin Áróra (Elva Ósk Ólafsdóttir), sem einu sinni var mesti kvenkostur bæjarins, dregur fram auma tilveru með því að spá fyrir fólki (spákonur eru vinsælar í ár) og sofa hjá rustamennum gegn greiða, ef ekki gjaldi. Hún hefur eignast soninn Láka (Þórir Sæmundsson) með einhverjum ónefndum. Hann er nú kominn undir tvítugt og fyrirlítur líf sitt og móður sína.

Fyrir utan textann sjálfan sem er einstakur, í senn ljóðrænn og raunsær, finnst mér aðdáunarverðast í verki Jökuls hvað hann nær vel utan um mæðginin bæði. Hann stillir sig um að fordæma Áróru, sem er sjarmerandi skessa þrátt fyrir brogað líferni, en um leið skilur hann Láka og finnur til með honum, strákurinn hefur átt raunalega bernsku og æsku og sökin er vissulega móður hans. Raunsönn togstreitan milli þeirra er styrkur verksins og stuðlar að langlífi þess.

Elva Ósk var bæði ungleg og falleg Áróra og manni gat vel fundist hún eiga betri afkomumöguleika en að selja sig Finnbirni skransala (Pálmi Gestsson). En verkið er samið á öðrum tímum en við lifum nú, og Áróra var alin upp til að vera puntudúkka. Sjálfstæði var aldrei hennar val þó að sjálfsbjargarviðleitnin sé henni í blóð borin, og persónan fór Elvu Ósk vel. Gunnar Eyjólfsson fór af einlægni og innsæi með hlutverk gamla skipstjórans sem menn hafa ekki átt í neinum erfiðleikum með að sjá endurspeglast í veruleika samtímans. Aukaleikarar áttu góðar stundir, einkum Kjartan Guðjónsson í lúmsku hlutverki Stígs skósmiðs, Hjalti Rögnvaldsson í mikilvægu hlutverki Péturs kennara Láka og Þóra Karítas Árnadóttir í hlutverki Árdísar, vonarinnar að austan. Rómað samtal Jónatans og Árdísar þar sem hvort talar um sitt hlutskipti þótt þau haldi að þau séu að tala “saman”, var undurvel unnið hjá Gunnari og Þóru Karítas.

Ekki veit ég hvort það var vegna þess að maður hefur áður séð þetta verk á mun minni sviðum en mér fannst það hringla skrýtilega á stóra sviði Þjóðleikhússins, eins og vantaði þéttleikann í sviðsmynd og sviðssetningu. Inni og úti var slegið saman þannig að ýmist brá fólk sér fyrir horn til að fara inn eða reyndist vera inni hérna megin við hornið. Leikritið er svo raunsætt að ósjálfrátt gerir maður kröfu til raunsæis í umgjörðinni. En sýningunni hefur verið vel tekið eins og verk Jökuls á skilið.